Sunnudagur 18. maí 2025
Heim Blogg Síða 3

Móttaka íbúa af erlendum uppruna á Vestfjörðum

Það er ekki bara hitastigið sem er á uppleið þessa dagana  á Vestfjörðum heldur hefur íbúatalan risið einnig. Við teljum rétt um 7600 íbúa en árið 2014 vorum við um 6900. Atvinnulíf blómstrar, samgöngur batna og  samfélögin sveiflast með. Það er gömul saga og ný.

Við búum í fjölmenningarsamfélagi og hlutfall íbúa af erlendum uppruna er um fjórðungur af heildaríbúatölu. Þessa þróun þekkja Vestfirðingar vel enda hefur það verið staðreynd frá aldamótum.

Samfélagsþáttaka

Hvernig stöndum við okkur í inngildingu íbúa af erlendum uppruna? Ef maður lítur yfir sveitastjórnir eða nefndir og ráð hjá sveitarfélögunum þá endurspeglar sú staðreynd ekki að íbúar af erlendum uppruna eru 24% af íbúum fjórðungsins. Hvernig er með félagssamtök, þorrablót og kóra?

Við þekkjum öll hvað björgunarsveitir skipta miklu máli í okkar samfélagi. Endurspegla björgunarsveitir þessa íbúasamsetningu?

Þátttaka allra hópa í samfélögum er mjög mikilvæg. Hún stuðlar að jafnvægi, réttlæti og virkri þátttöku í ákvarðanatöku. Með því að allir hópar taki þátt er líklegt að samfélagið verði samfélag þar sem ólík sjónarmið og þörf eru virt, og þar með aukist réttlæti, samvinna og framfarir. Samfélagsleg þátttaka er grundvallarþáttur í lýðræði og samfélagslegri ábyrgð. Hérna eru sveitarfélögin lykillinn.

Samræmd móttaka og inngilding

Fjórðungssamband Vestfjarða fékk styrk í verkefni úr byggðaáætlun með vísan í aðgerð C.1 Sértæk verkefni sóknaráætlanasvæða. Vestfjarðastofa ber ábyrgð á verkefninu og markmiðið er að vinna að því að þróa samræmda móttökuferla fyrir öll sveitarfélögin á Vestfjörðum til að veita nýjum íbúum betri yfirsýn yfir þjónustu, félagsstarf, menningu og samfélögin sem þau eru að flytja til.

Þetta er í samræmi við gildandi framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda sem samþykkt var á Alþingi árið 2022.

Það er mikilvægt að við hugum að því að nýta allan þann mannauð sem býr hér á Vestfjörðum. Þannig höldum við áfram að vaxa og dafna til framtíðar.

Halla Signý Kristjánsdóttir

Verkefnastjóri

Auglýsing

Saltkassi úr tré

Saltkassi úr tré. Merktur Djúpavík með stensli. Kassarnir voru notaðir til að mæla gróft salt og áttu að taka stærsta skammt, 34 kíló,
sléttfullir (Magnús Vagnsson. Handbók síldarvekunarmanna, bls. 16).

Í Djúpuvík var byggð síldarverksmiðja veturinn 1934-35 og var rekstur hennar, sem og söltunarstöðvar undir nafninu Djúpavík h/f eitt kostulegasta dæmi um stórbrotin umsvif og velgengni í síldarútveginum.

Svoítið þorp varð til við Djúpuvík og fjöldi fólks sótti þangað atvinnu á sumrin. Lítið sem ekkert var brætt í verksmiðjunni eftir 1950 en síðast var söltuð þar síld árið 1959.

Af vefsíðunni sarpur.is

Auglýsing

Landaður afli í apríl rúmlega 136 þúsund tonn

Landaður afli nam rúmum 136 þúsund tonnum í apríl 2025 sem er 12% minna en í apríl á síðasta ári. Botnfiskafli var rúm 42 þúsund tonn og dróst saman um 1%, þar af fór þorskafli úr 19.5 þúsund tonnum í 18,5 þúsund tonn. Þetta kemur fram í samantekt Hagstofunnar

Uppsjávaraflinn var nær allur kolmunni, 92 þúsund tonn.

Á tólf mánaða tímabili frá maí 2024 til apríl 2025 var landað samtals 974 þúsund tonnum, sem er 12% minni afli en á sama tímabili ári fyrr.

 

Auglýsing

Vísindasundferðin mikla kringum Ísland

Hafrannsóknastofnun greinir frá því á vefsíðu sinni að Ross Edgley ætli að synda 1.000 mílur í kringum Ísland á 100 dögum, í allt að 130 feta öldum og stundum samhliða háhyrningum.

Hann tekur þátt í verkefninu Historic Open Water Challenge og er í samstarfi við Hafrannsóknastofnun, Matís og Háskóla Ísland m.a. til að stuðla að aukinni þátttöku almennings í vísindastarfi.

Bráðlega mun ofursjósundmaðurinn Ross Edgley reyna í fyrsta sinn að synda meira en 1.000 mílur (1.610 km) meðfram allri strandlengju Íslands. Samhliða mun hann stunda mikilvægar rannsóknir í tengslum við verndun hafsins. Ross leggur úr höfn í Reykjavík 16. maí og stefnir á að synda réttsælis hringinn í kringum Ísland (sjá tengil: HEIMSMETSUND: 1.000 mílur í kringum Ísland).

Ross leiðangurinn er meira en bara fyrsta þolraun sinnar tegundar í heiminum. Með sundleiðangri sínum hringinn í kringum Ísland er Ross einnig brautryðjandi rannsókna sem kölluð eru lýðvísindi (e. Citizen Science) en eins og nafnið vísar til þá eru þau vísindi skilgreind þannig að almenningur safnar og greinir gögn sem tengjast náttúrunni, oftast sem hluti af samstarfsverkefni með vísindafólki.

Hafrannsóknastofnun og Matís eru í samstarfi við teymi Ross, með fulltingi BioProtect verkefnisins sem styrkt var árið 2024 af ESB, til að rannsaka líffræðilegan fjölbreytileika í hafinu umhverfis Ísland. Hlutverk BioProtect verkefnisins er að þróa verkfæri til að vernda og endurheimta vistkerfi og líffræðilegan fjölbreytileika til að ná markmiðum COP22, svo sem að tryggja verndun 30% af hafinu okkar fyrir árið 2030.

Auglýsing

Kvennakór Ísafjarðar: vortónleikar í kvöld

Vortónleikar Kvennakórs Ísafjarðar verða haldnir í kvöld í Ísafjarðarkirkju og hefjast kl 20.

Stjórnandi er Rúna Esradóttir og undirleikari Judid Tobin.

Baldur Páll Hólmgeirsson leikur á slagverk.

Auglýsing

Sjómannadagurinn í Bolungarvík

Sjómannadagurinn 2025 er sunnudagurinn 1. júní og sjómannadagshelgin verður því 30. maí – 1. júní.

Samkvæmt venju verður fjölbreytt dagskrá í Bolungarvík, dorgveiðikeppni, fiskiveisla, Vestfjarðamót í sjómann og margt fleira eins og sjá má á meðfylgjandi dagskrá. Þá er rétt að vekja athygli á að sjófmaðurinn Elfar Logi mætir í Ósvör og rekur sína stuttu sjómannssögu svo úr verður dulítil sjófmannssaga.

Dagskrá:

Föstudagur 30. maí:

  • 13:00-16:00 Opið í Drymlu
  • 17:00-18:00 Dorgveiðikeppni fyrir krakka á öllum aldri á Brimbrjótum, verðlaun í boði fyrir stærsta fiskinn, minnsta fiskinn og flestu fiskana
  • 18:00-21:00 Þorskurinn 2025 á Einarshúsinu
  • 21:30-00:00 Vestfjarðamót í Sjómanni verður haldið í þriðja sinn á Verbúðinni. Keppt verður í opnum flokki karla og kvenna. Skráning hefst kl 19:00


Laugadagur 31. maí:

  • 10:00-11:00 Lagt á Djúpið – Hátíðarsiging frá Bolungarvíkurhöfn
  • 12:00-13:00 Leikhópurinn Lotta við félagsheimilið með sýninguna Hrói Höttur
  • 13:00-15:00 Fjölskyldudagskrá þar sem fram koma Friðrik Ómar og Jógvan og Leikfélag MÍ
  • 13:00-15:00 Fiskiveisla í boði Jakobs Valgeirs ehf, Arctic Fish ehf, FMS hf og Örnu ehf
  • 13:00-15:00 Sjómannadagskrá björgunarsveitarinnar Ernis með skemmtilega leiki fyrir alla:
    • Kappróður
    • Belgja slagur
    • Flekahlaup
    • Reipitog
  • 13:00-15:00 Andlitsmálning og hoppukastalar
  • 15:30-16:00 Sjófmennska  í Ósvör- kómedíuleikhúsið
  • 13:00-16:00 Opið í Drymlu
  • 20:00-23:00 Fyrirpartý á Verbúðinni
  • 20:00-23:00 Hátíðarkvöldverður í Félagsheimili Bolungarvíkur. Húsið opnar 19:00
  • 23:00-03:00 Sjómannadagsball í Félagsheimili Bolungarvíkur með ballhljómsveitinni „Alles Ókei?“


Sunnudagur 1. júni:

  • 13:30-14:00 Hópganga frá Brimbrjóti að Hólskirkju
  • 14:00-14:50 Hátíðarguðþjónusta í Hólskirkju. Fjölnir Ásbjörnsson prestur þjónar fyrir altari
  • 14:50-15:00 Að guðsþjónustunni lokinni verður gengið í Grundarhólskirkjugarð og lagðir blómsveigar að minnismerkjum sjómanna í garðinum
  • 15:00-17:00 Slysavarnadeildin Ásgerður verður með kaffisamsæti
Auglýsing

Mjólkárlína 3 á fimm ára áætlun Landsnets

Mjólkárlína. Mynd: Landsnet.

Í langtímaáætlun Landsnets eru tvítengingar, annars vegar með byggingu á nýrri flutningslínu á milli Kollafjarðar og Mjólkár, sem mun tryggja tvítengingu meginflutningskerfisins á Vestfjörðum og bæta afhendingaröryggi raforku á svæðinu og hins vegar tvítengingar Breiðadals við Mjólká með byggingu á Breiðadalslínu 2. Framkvæmdin er áætluð á árunum 2029 – 2031. Ekki er birt kostnaðaráætlun fyrir framkvæmdina.

Á kynningarfundi Landsnets á Ísafirði fyrir skömmu kom fram að Mjólkárlína 3 verður ný lína milli Kollafjarðar og Mjólkár lögð samhlið núverandi Vesturlínu. Afla þarf samþykkis landeigenda fyrir línunni og er farið um 70 jarðir.

Þessi framkvæmd er í beinu framhaldi af tengingu væntanlegri tengingu Hvalár við flutningskerfið með línu þaðan í Miðdal ofan Lágadals og svo áfram í Kollafjörð við Breiðafjörð. Þeirri framkvæmd á að vera lokið 2030 þegar áformuð er gangsetning Hvalárvirkjunar.

Landsnet setur fyrirvara við tengingu Hvalár og eru áformin bundin því að af virkjunarframkvæmdum verði. Ekki kemur fram hvað verður um Mjólkárlínu 3 ef Hvalárvirkjun seinkar.

Uppfært kl 21:35. Frá Orkubúi Vestfjarða kemur sú ábending að fyrir utan ríkið og Orkubúið muni Mjólkárlína 3 liggja um 8 jarðir og 78 einstaklingar eru eigendur að þeim.

Auglýsing

Ný stjórn Sóknarhóps 2025–2027

Guðmundur Fertram Sigurjónsson var kosinn í stjórn sóknarhóps Vestfjarðastofu.

Tilkynnt hefur verið um niðurstöður kosninga til stjórnar sóknarhóps Vestfjarðastofu fyrir næstu 2 ár, 2025 – 2027. Tíu buðu sig fram.

Kjörnir voru sem aðalmenn í stjórninni:

  • Guðmundur Fertram Sigurjónsson (Innviðafélag Vestfjarða – AB)
  • Gauti Geirsson (Háafell -AB)
  • Anna Björg Þórarinsdóttir (Strandagaldur ses. – MM)
  • Sif Huld Albertsdóttir (Dokkan Brugghús – MM)
  • Lilja Sigurðardóttir (Oddi -AB)

Varamenn

  • Elísabet Gunnarsdóttir (Kol & salt ehf. -MM)
  • Rebekka Eiríksdóttir (Báta og hlunnindasýningin Reykhólum -MM)
  • Sædís Ólöf Þórsdóttir (Fantastic Fjords -MM)
  • Halldór Halldórsson (Íslenska kalkþörungafélagið ehf -AB)
  • Jónas Heiðar Birgisson (Arnarlax ehf -AB)
Auglýsing

Vestfirðir: 10 -11 milljarða kr. fjárfesting í tveimur framkvæmdum

Frá undirritun viljayfirlýsingarinnar vorið 2023. Mynd: Strandabyggð.

Fram kom á opnu málþingi, sem haldið var í gær í Súðavík á vegum Vestfjarðastofu, þar sem fjallað verður um frumkvæði og fjárfestingar á Vestfjörðum að tvær stórar framkvæmdir í fjórðungnum kosti 10 – 11 milljarða króna.

Annars vegar er um að ræða nýja kalkþörungaverksmiðju í Súðavík á vegum Íslenska kalkþörungafélagsins sem áætlað er að kosti 7 – 8 milljarða króna. Undirbúningur er þegar hafinn með hafnargerð á Langeyri með landfyllingu og viðlegukanti. Sú framkvæmd er langt komin. Fyrirtæki hefur tryggt sér leyfi til nýtingar á kalþörungum í Ísafjarðardjúpi til næstu 30 ára og má taka 3,5 milljónir rúmmetra af um 100 milljónum rúmmetra sem talið er að námurnar séu. Eigendur að 99% hlutafjár eru írska félagið Marigot Ltd.

Hins vegar eru áform um byggingu á 62 herbergja hóteli á Hólmavík. Það er Fasteignaumsýslan ehf sem stendur fyrir málinu og sagði Friðjón Sigurðsson að áætlaður kostnaður væri um 3 milljarðar króna og að það þyrfti um helming þess í hlutafé. Verið er að kynna verkefnið og leita að fjárfestum. Skipulagsvinna stendur yfir hjá Strandabyggð og er á lokastigi. Friðjón sagði að hugmyndin væri að færa meira af ferðamönnum inn á Vestfjörðum og litið væri til hótelsins m.a. sem lífsstílshótel og skíðahótel. Viljayfirlýsing milli Fasteignaumsýslunnar og sveitarstjórnar var undirrituð vorið 2023.

Auglýsing

Skotís: þrír Íslandsmeistaratitlar

Félagar í Skotís með verðlaun sín.

Keppnistímabilinu í skotíþróttum er nýlokið. Uppskera Skotíþróttafélags Ísafjarðarbæjar var býsna góð eða þrír Íslandsmeistaratitlar

Lið Skotís í keppnisgreininni 50 skotum liggjandi varð Íslandmeistari. Liðið skipuðu Guðmundur Valdimarsson, Valur Richter og Lefur Bremnes.

Íslandsmeistari í þrístöðu karla varð Leifur Bremnes og Valur Richter varð Íslandsmeistari í loftriffli.

Auk þess unnu félagar í Skotís verðlaunasæti í öllum skotkeppnum sem þeir tóku þátt í.

Skotís loftriffill, frá vinstri Karen Rós Valsdóttir 2 sæti unglingaflokki, Valur Richter íslandsmeistari í loftriffli, 1 sæti í sínum flokki, 2 sæti í liðakeppni, Ingvar Bremnes 2 sæti liðakeppni, Leifur Bremnes 2 sæti í sínum flokki, 2 sæti liðakeppni.

Auglýsing

Nýjustu fréttir