í dag verða tónleikar í Ísafjarðarkirkju og hefjast þeir kl 14.
Þar sameinast börn frá fjórum leikskólum frá Ísafirði, Suðureyri, Flateyri og Bolungarvík. Undirleik annast nemendur Tónlistarskóla Ísafjarðar.
Leikskólinn Tangi, Leikskólinn Tjarnarbær, Leikskólinn Grænigarður, 5 ára deildin Malir og Tónlistarskóli Ísafjarðar flytja lög Braga Valdimars í Ísafjarðarkirkju.
Sameining sveitarfélaga hefur verið gegnumgangandi stef í sveitarstjórnarmálum um áratugaskeið. Sérstaklega stórt átak var gert í upphafi tíunda áratugarins. Árið 1993 voru þannig umdæmanefndir heimamanna sem fengu það hlutverk að gera tillögur að sameiningum og var þá lagt til að sveitarfélögum á landsvísu myndi fækka úr 194 í 43. Þar af áttu Vestfirðir að samanstanda af fjórum sveitarfélögum.
Þessum hugmyndum var sumstaðar hafnað og annarsstaðar tekið fagnandi, og nú með sameiningu Tálknafjarðar og Vesturbyggðar erum við komin með átta sveitarfélög á svæðinu, en þau voru 24 árið 1993.
Þessi átta sveitarfélög sem nú skipta Vestfjarðakjálkanum á milli sín eru misstór í ferkílómetrum, en sérstaklega þó í manneskjum talið. Það lætur nærri að sextíufaldur munur sé á fámennasta og fjölmennasta sveitarfélaginu. Staða þeirra, fjárhagslegir burðir og hagsmunir eru einnig ólík. Þrátt fyrir talsverðar vegabætur og byltingu í upplýsingatækni eru fjarlægðir enn langar; það er svipað langt frá Norðurfirði í Árneshreppi til Ísafjarðar og suður að Esjurótum, um 300 km.
Bókun bæjarráðs
Á fundi bæjarráðs Ísafjarðarbæjar í morgun lagði ég fram dagskrárlið um sameiningu sveitarfélaga:
Í stefnuyfirlýsingu Í-listans fyrir kjörtímabilið segir: „Ísafjarðarbær er opinn fyrir öllu samstarfi sveitarfélaga á svæðinu og hugmyndum um sameiningu þeirra.“ Fyrr á kjörtímabilinu lýsti Árneshreppur yfir vilja til sameiningar sem bæjarráð tók vel í, en ekkert varð meira úr málinu.
Formaður hefur á síðustu vikum átt samtöl við forsvarsmenn annarra sveitarfélaga á Vestfjörðum. Almennt sjá þau fyrir sér að frekari sameiningar séu skynsamlegar og óumflýjanlegar á næstu 5–15 árum, en misjafnt er hversu mikill áhugi er á sameiningum að sinni.
Formaður leggur til að bæjarráð lýsi yfir skýrum vilja til sameininga sveitarfélaga á Vestfjörðum og að bæjarstjóra verði falið að vera fulltrúi sveitarfélagsins í óformlegum viðræðum sem kunna að skapast í tengslum við það. Það sé skýrt af hálfu bæjarins að sameiningarvilji eigi ekki að koma í veg fyrir smærri sameiningar annarra sveitarfélaga ef þær eru taldar heppilegri til skemmri tíma.“
Sameiningar á Ströndum
Ef Strandabyggð, Árneshreppur og Kaldrananeshreppur sameinast verður samanlagður íbúafjöldi 580, og með Súðavíkurhreppi 200 íbúum fleiri. Hvort heldur sem er, nær sameinað sveitarfélag ekki viðmiðun laga um 1000 íbúa lágmark. Ýmsar óformlegar þreifingar á sameiningu sveitarfélaga eru í gangi, þar á meðal er til skoðunar að Kaldrananeshreppur og Árneshreppur sameinist án aðkomu Strandabyggðar. Ókosturinn við þá sameiningu er að það næði ekki 200 manna markinu og þar með ekki þeim markmiðum sem eðlilegt er að leggja til grundvallar þeirri miklu vinnu sem sameining hefur í för með sér. Líkur eru á að þar með færi mikil orka sem betur nýtist í stærri sameiningu.
Samstarf er að aukast
Samstarf milli sveitarfélaga hefur verið að aukast síðustu ár. Þannig er Ísafjarðarbær leiðandi sveitarfélag í velferðarmálum ýmsum, eins og sést í ársskýrslu Ísafjarðarbæjar 2024 sem fylgir ársreikningi.
Úrklippa úr ársskýrslu Ísafjarðarbæjar fyrir 2024, en þar er samstarfi í velferðarmálum lýst í stuttu máli. Ársskýrslan er annars afar greinargóð samantekt á rekstri sveitarfélagsins.
Þá standa sveitarfélög við Djúp saman að Byggðasafni Vestfjarða.
Og svo er það Vestfjarðastofa, sem er vettvangur fjölbreytts samstarfs. Þar hef ég verið stjórnarformaður síðasta hálfa árið eða svo og séð frá fyrstu hendi þá möguleika sem felast í samstarfi á héraðsvísu í atvinnuþróun, velferðarmálum, ferðaþjónustu og málafylgju gagnvart landsstjórninni.
En Vestfjarðastofa er á ýmsan hátt máttlaus. Hún er klemmd á milli ríkis og sveitarfélaga. Hún er ekki stjórnvald í skilningi laga, og í mörgum tilvikum er það svo að einstök sveitarfélög hafa neitunarvald. Stundum kemur það fram í því að mál eru ekki afgreidd. Það er hinsvegar undantekningin. Meginreglan er að allar ákvarðanir sem snerta sveitarfélögin allar taka lengri tíma en heppilegt er, bitið vantar og áræðið skortir. Ákvarðanir snúast um lægsta samnefnarann, sem getur verið mjög lágur þegar stærðar- og aðstöðumunur sveitarfélaga er jafnmikill og raun ber vitni. Það er því ljóst að aukið hlutverk Vestfjarðastofu er ekki heppileg lausn í ýmsum tilvikum.
Aukið samstarf?
Oft er bent á að aukið samstarf í ákveðnum málaflokkum sé heppilegra milliskref. Það hefur orðið í velferðarmálunum eins og að ofan er greint, og unnið er að því að auka það með gerð svæðisskipulags, í umhverfismálum og nú síðast í málefnum sem tengjast innleiðingu laga um farsæld barna.
Og svo er það hafnarsamlag, einkum við Djúp, sem gæti verið sniðugt. Mín fyrsta greining hefur ekki bent til þess að það sé eitt og sér heppilegt skref, en ég er reiðubúinn til að taka rökum um annað. Byggðasamlög eru almennt klunnalegt stjórnfyrirkomulag, einkum vegna þeirra löngu boðleiða sem geta orðið til þrátt fyrir fámenni og lítið umfang.
Öflugri saman
Ég er sannfærður um þetta: Tímans þungi niður fellur í þá átt að hafa fá en öflug sveitarfélög á Vestfjörðum sem geta tekið áskorunum framtíðarinnar. Í sameiningu þurfa byggðakjarnarnir og svæðin að halda sinni rödd, sinni sérstöðu og sinni menningu. Það á ekki að breytast með sameiningu.
Það sem af er kjörtímabilinu hef ég, sem forsvarsmaður stærsta sveitarfélagsins, verið hikandi við að hafa frumkvæði að sameiningu sveitarfélaga, þar sem ég hef óttast að það setji smærri sveitarfélög í baklás. Nú þegar Strandabyggð er farin að skoða ýmsa kosti sameininga held ég að rétti tíminn sé kominn að byrja alvöru samtal um næstu sameiningar.
Það tekur tíma, en orð eru til alls fyrst.
Gylfi Ólafsson, formaður bæjarráðs Ísafjarðarbæjar
Hópur á vegum Landlæknisembættisins vann að gerð ráðlegginganna sem byggja á bestu vísindalegu þekkingu á sambandi mataræðis og heilsu en einnig er tekið tillit til matarvenja þjóðarinnar. Ráðleggingar um mataræði voru fyrst gefnar út á Íslandi árið 1986 en síðan þá hafa þær verið endurskoðaðar fjórum sinnum.
Mikilvægt er fyrir almenning að hafa aðgang að traustum upplýsingum um mataræði, enda hefur það sem við borðum og drekkum mikil áhrif á heilsuna. Með því að fylgja ráðleggingunum er auðveldara að tryggja að líkaminn fái þau næringarefni sem hann þarf á að halda og stuðla þannig að góðri heilsu og vellíðan.
Í nýjum ráðleggingum er aukin áhersla á grænmeti, ávexti og heilkornavörur. Nýmæli er umfjöllun um orkudrykki sem ekki voru algengir á markaði síðast þegar ráðleggingarnar komu út. Ráðleggingar embættisins í þeim efnum eru skýrar; orkudrykkir eru ekki ætlaðir börnum og ungmennum undir 18 ára. Minna er ráðlagt af rauðu kjöti en áður og áfram er varað sérstaklega við neyslu unninna kjötvara (s.s. pylsur, bjúgu, naggar, beikon o.s.frv.), hvoru tveggja vegna aukinnar krabbameinsáhættu. Einnig er ráðlagt að takmarka neyslu á matvælum sem innihalda mikið af fitu, salti og sykri og að forðast áfengi, meðal annars vegna krabbameinsvaldandi áhrifa.
Nýju ráðleggingarnar leggja höfuðáherslu á eftirfarandi þætti:
Njótum fjölbreyttrar fæðu með áherslu á mat úr jurtaríkinu
Veljum grænmeti, ávexti og ber oft á dag
Veljum heilkorn, helst þrjá skammta á dag
Veljum fisk, baunir og linsur oftar en rautt kjöt – takmörkum neyslu á unnum kjötvörum
Veljum ósætar og fituminni mjólkurvörur daglega
Veljum fjölbreytta og mjúka fitugjafa
Takmörkum neyslu á sælgæti, snakki, kökum, kexi og sætum drykkjum
Kári Viðarsson, Frystiklefanum á Rifi, er handhafi Landstólpans 2025. Landstólpinn, samfélagsviðurkenning Byggðastofnunar, var afhentur í fjórtánda sinn á ársfundi Byggðastofnunar sem fram fór í Breiðdalsvík 8. maí sl. en Landstólpinn er veittur árlega einstaklingum, fyrirtækjum og hópum sem þykja hafa skarað fram úr í verkefnum sínum og störfum.
Landstólpanum er ætlað að vekja athygli á því góða og fjölbreytta starfi sem fram fer í landsbyggðunum og um leið að vekja athygli á starfi Byggðastofnunar.
Við val á Landstólpa ár hvert er leitast eftir því að viðkomandi hafi gefið jákvæða mynd af landsbyggðinni, aukið virkni íbúa eða jafnvel fengið þá til beinnar þátttöku í tilteknu verkefni og aukið samstöðu og jákvæðni íbúa.
Í ár bárust 35 tilnefningar og niðurstaða dómnefndar varð sú að veita Kára Viðarssyni, Frystiklefanum á Rifi Landstólpann árið 2025.
Viðurkenningargripurinn í ár er trélistaverk, lágmynd úr tré, eftir myndlistarkonuna Aðalheiði Eysteinsdóttur.
Einnig hlýtur Landstólpinn 1.000.000 krónur í verðlaun.
Handverksmarkaðurinn í Króksfjarðarnesi er opinn frá og með 10. maí, opið er alla daga frá 10:00 til 18:00.
Eins og undanfarin ár eru fjölbreyttar handverksvörur í boði, prjónles, munir úr tré og líka gleri, skartgripir, sápur, sultur, barnaföt og er þá fátt eitt nefnt.
Líka má nefna bækur og ekki síst nytjamarkaðinn þar sem fólki gefst kostur á að bjóða í alls kyns muni sem þar með geta öðlast nýtt hlutverk og allur ágóði af sölu hlutanna rennur til góðra málefna í héraðinu.
Veitingar eru líka seldar, súpa dagsins, kaffi eða aðrir drykkir og meðlæti og samlokur.
Arna Lára Jónsdóttir, fyrrverandi bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar og þingmaður okkar hér í Ísafjarðarbæ, skrifaði nýlega grein á Vísi þar sem hún dásamar frumvarp ríkisstjórnarinnar um tvöföldun á veiðigjaldi. Í greininni segir: ”Af hverju er verið að hækka veiðigjaldið? Þetta er fyrst og fremst réttlætismál fyrir þjóðina að fá leiðrétt afgjald fyrir eignina sína og það er verið að sækja tekjur til að vinna á innviðaskuldinni.“
Í þessu felast augljós öfugmæli. Það er fyrst og fremst réttlætismál að samfélög þar sem sjávarútvegur er stundaður fái að blómstra og að fyrirtækin sem þar starfa geti sótt fram, búið til störf og aflað tekna sem seytlast niður í samfélagið í formi afleiddra starfa. Þetta samhengi þekkir Arna Lára mætavel.
Það er afbökun að halda því fram að með því að hækka skatta á vestfirsk sjávarútvegsfyrirtæki séu meiri möguleikar á að byggja upp innviði hér fyrir vestan. Því hefur verið haldið fram að fyrir hverjar tvær skattkrónur sem við Vestfirðingar greiðum sé annarri eytt hér á svæðinu en hin fari í miðlæg kerfi á höfuðborgarsvæðinu. Í höfuðborginni er þessu öfugt farið. Það er, báðum krónum skattgreiðenda á höfuðborgarsvæðinu eytt, auk þeirra sem koma að vestan.
Það er blekking að halda því fram að hækkun skatta á vestfirsk fyrirtæki skili sér aftur hingað til baka.
Með þetta í huga finnst mér mikilvægt að hagsmunir kjósenda á Vestfjörðum og í Ísafjarðarbæ þar sem þú varst bæjarstjóri þar til fyrir ekki svo löngu séu skýrir. Þess vegna langar mig að biðja þig um að svara einföldum spurningum um þetta svo hægt sé að átta sig á því hvað tvöföldun á veiðigjaldi hefur á okkur hér vestra. Það má kalla þetta grundvallarspurningar þegar ráðist er í kerfisbreytingar í grundvallaratvinnugrein.
Hvaða þýðingu hefur þessi hækkun fyrir fjögur stærstu sjávarútvegsfyrirtækin á Vestfjörðum?
Hvað borga þau núna og hvað munu þau borga ef þetta nær fram að ganga?
Hvernig bætir þetta frumvarp hagsmuni íbúa Ísafjarðarbæjar?
Mun tvöföldun á veiðigjaldi auka framboð á störfum á Vestfjörðum?
Mun hækkunin hvetja fyrirtækin til þess að fjárfesta í samfélaginu?
Og að lokum, telur þú líkur á því að fyrirtæki muni í auknum mæli sameinast og hvaða áhrif telur þú að það muni hafa á Vestfirði?
Verkefnastjórn um óformlegar viðræður Húnaþings vestra og Dalabyggðar hefur lagt til við sveitarstjórnir sveitarfélaganna tveggja að gengið verði til formlegra viðræðna um sameiningu þeirra. Sveitarstjórnir Húnaþings vestra og Dalabyggðar samþykktu báðar í síðustu viku að hefja formlegar sameiningarviðræður. Málið verður þó afgreitt endanlega úr sveitarstjórnunum eftir tvær umræður en seinni umræða fer fram í júní.
Húnaþing vestra hefur skipað tvo aðalfulltrúa og tvo til vara í samstarfsnefnd um sameininguna en í henni sitja Magnús Magnússon og Magnús Vignir Eðvaldsson sem aðalmenn og Sigríður Ólafsdóttir og Þorleifur Karl Eggertsson sem varamenn. Fulltrúar Dalabyggðar eru Ingibjörg Þóranna Steinudóttir og Skúli Hreinn Guðbjörnsson.
Sveitarstjórn beggja sveitarfélaganna beina því til samstarfsnefndar að stefnt verði að kosningu um sameiningu eigi síðar en í desember 2025.
Samstarfsnefnd skal leita eftir sjónarmiðum og hugmyndum íbúa, starfsmanna og annarra hagsmunaaðila við undirbúning tillögu sem lögð verður fyrir íbúa í atkvæðagreiðslu.
Samstarfsnefnd er falið að gera verk- og tímaáætlun fyrir verkefnið og sækja um framlag úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga til að standa straum af kostnaði.
Með sameiningu verður til sveitarfélag með 1.927 íbúum. Í Dalabyggð eru 675 íbúar og í Húnaþingi vestra búa 1.252 íbúar.
Nú kann að vera að einhverjir kannist við mitt miður fríða smetti (afsakið það) og þá einkum í sambandi við verkefnið Gefum íslensku séns – íslenskuvænt samfélag sem ég stofnaði til í byrjun ársins 2021 hjá Háskólasetri Vestfjarða og þróaði til febrúarmánaðar ársins 2025. Ekki er ólíklegt að einhverjir hér kannist við hvernig ég lagði mig í líma við að kynna það og mikilvægi íslensku í samfélaginu og hvernig samfélagið geti gert sitt til að hjálpa til við máltileinkun þeirra sem læra íslensku og vilja aðlagast samfélaginu sem best.
Nú er ég hættur þeirri vitleysu enda langeinfaldast að tala bara ensku á Íslandi. Það hefir ekkert upp á sig að púkka upp á frónlensku lengur. Það er búið spil.
En ég nenni ekki að sitja með hendur í skauti og langar því að kynna nýtt verkefni fyrir Vestfirðingum sem einmitt eru svo lukkulegir að búa í fjölmálasamfélagi.
Þannig er mál með vexti að fyrir ekki fyrir svo löngu hafði maður að nafni Nathan samband við mig. Hann hafði heyrt mig gaspra á Samstöðinni hjá Oddnýju Eir Ævarsdóttur er hún fór þess á leit við mig að ég myndi segja aðeins frá Tungumálaskiptunum sem ég stend að ásamt MÍ og Bókasafninu. Þar ámálgaði Oddný þá hugmynd að réttast væri að útbúa e.k. Tungumála-Tinder-app sem hefði það að markmiði að tengja fólk saman svo það geti æft tungumál hvor annars. Frábær hugmynd.
Á þeim tímapunkti var bara verið að fabúlera, að ég hélt. Nú fljótlega eftir mitt gaspur hefir téður Nathan samband við mig, hann hafði heyrt mig þvaðra á Samstöðinni, og segir mér að viðlíka app sé í þróun (hann á heiðurinn að því) og fer þess á leit við mig að ég veiti liðsinni. Mér finnst hugmyndin það góð að ég jánka.
Og þá er ég kominn að aðalatriði þessa greinastúfs eða hvað sem kalla má þennan barning. Til þess að þróa þetta verkefni þarf að mata appið. Til þess væri liðsinni þeirra sem e.t.v. hefðu áhuga á þessu uppátæki (engin skuldbinding fólgin í þessu) vel þegið, s.s. liðsinni þeirra sem langar ef til vill að æfa sig í spænsku, þýsku, frönsku, arabísku eða ensku og bjóða sitt mál á móti. Þetta er sem sagt ekki íslenskuátak sem slíkt.
Hér er sumsé eyðublað sem þið gætuð fyllt út séuð þið áhugasöm og hafið hug á að hjálpa þessu verkefni við að ýta úr vör:
Ég tek fram að ég hefi engan efnahagslegan ábáta af þessu og er ekki að kynna þetta til að mata krókinn. Mér finnst þetta bara svo ansi góð hugmynd að hún verði að verða að veruleika.
Ólafur Guðsteinn Kristjánsson, áhugamaður um tungumálalega fjölbreytni
Fjölmenni var í stúkunni á Kerecis vellinum á Torfnesi. Áætlað er að um 400 manns hafi verið þar.
Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.
Gott gengi Vestra í Bestu deild karla hélt áfram um helgina. Afturelding frá Mosfellsbæ kom í heimsókn. Vestri hagaði leik sínum eins og í fyrri leikjum, lék vel skipulagðan varnarleik og sótti hratt þegar færi gafst. Þessi leikaðferð skilaði góðum árangri. Þrátt fyrir að Afturelding hafi verið meira með boltann og sótt nokkuð fékk liðið fá færi til að skora, en Vestri nýtti hraðar sóknir og gerði usla í vörn Mosfellinganna og skoraði tvö mörk, þar fyrra eftir að vítaspyrna var dæmd.
Var niðurstaða leiksins fyllilega verðskulduð og með sigrinum hélt Vestri 2. sætinu í deildinni eftir 6 umferðir. Reyndar hefur ekkert lið fengið fleiri stig en Vestri. Breiðablik og Víkingur hafa jafnmörg stig og Vestri eða 13.
Formaður dómnenfdar var Vala Farrel. Ólöf Þórðardóttir formaður Bandalagsins tók við viðurkenningunni fyrir hönd þeirra Hólmvíkinga.
Mynd: þjóðleikhúsið.
Þjóðleikhúsið hefur greint frá því að sýning Leikfélags Hólmavíkur á 39 þrepum hafi verið valin áhugaverðasta áhugaleiksýning ársins. Þetta er í þrítugasta og þriðja sinn sem Þjóðleikhúsið stendur fyrir vali á áhugaleiksýningu ársins. Að þessu sinni sóttu alls tólf leikfélög um að koma til greina við valið með þrettán sýningar.
Leikstjóri er Eyvindur Karlsson.
Í umsögn dómnefndar segir:
„Það er samdóma álit dómnefndar að sýning Leikfélags Hólmavíkur á 39 þrep íleikstjórn Eyvindar Karlssonar skuli verða fyrir valinu sem athyglisverðasta áhugaleiksýning leikársins 2024-2025. Sýningin er unnin af miklum metnaði og gríðarlegaskapandi hugsun Umgjörð sýningarinnar er einföld en áhrifarík og unun að fylgjst með skemmtilegum og skapandi lausnum þar sem leikhúslistin er knúin til hins ítrasta. Ljós og hljóð eru vel unnin, af hugviti og kímni. Leikgervi og búningar eru til fyrirmyndar og vel leyst úr persónufjöld og hraðaskiptingum. Leikhópurinn er smár en mjög sterkur og skemmtilegur og samband þeirra við áhorfendur feikigott. Leikkonurnar vinna vel með mikinnfjölda hlutverka og gera hverri og einni persónu skýr oggóð skil. Leik- og sköpunargleði ráða ríkjum frá upphafi til enda og úr verður heildstæð og kraftmikil sýning.“
Formaður dómnefndar var Vala Fannell, en með henni í dómnefnd sátu Elín Smáradóttir sýningarstjóri og Oddur Júlíusson leikari.
Leikfélaginu er boðið að koma og sýna 39 Þrep í Þjóðleikhússins í lok maí.