Miðvikudagur 14. maí 2025
Heim Blogg Síða 20

Önundarfjörður: um 30 manns í helgigöngu

Þátttakendur á hlaðinu í Holti.

Um þrjátíu manns voru í helgigöngu í Önundarfirði í gær, förstudaginn langa. Gengið var frá Kirkjubólskirkju í Valþjófsdal og inn að Holti. Halla Signý Kristjánsdóttir sagði að helgigangan hefði verið farið síðustu tuttugu árin eða svo og væri annað hvert ár gengið frá Flateyri og hitt árið frá Kirkjubóli en í báðum tilvikum inn að preststaðnum Holti. Byrjað hafi verið á þessu í tíð Stínu Gísladóttur, sem var prestur í Holti í byrjun aldarinnar.

Göngumenn fengu gott veður, stillt og sólskin en fremur kalt. Sr. Magnús Erlingsson las fyrir þátttakendur bæði í upphafi göngunnar og í lokin.

Sr. Magnús með upplestur.

Myndir: Halla Signý Kristjánsdóttir.

Auglýsing

Knattspyrna: Vestri vann í bikarkeppninni

Senur á Kerecisvellinum! Benjamin Schubert ver spyrnu HK og Jeppe Pedersen tryggir Vestra inn í 16-liða úrslitin

Karlalið Vestra fékk í gær HK í heimsókn á Kerecis völlinn á Torfnesi í 32 liða úrslitum í bikarkeppni KSÍ. HK féll úr Bestu deildinni í fyrra og leikur í Lengjudeildinni í sumar.

Vestri byrjaði mun betur og komst í 2:0 en HK tókst að jafna leikinn fljótlega í seinni hálfleik. Vestri komst aftur yfir 3:2 skömmu fyrir leikslok með marki Daða Bergs Jónssonar. Aftur sneri HK leiknum sér í vil og jafnaði leikinn nánast um hæl og þurfti því að framleingja leikinn. Ekkert mar var skorað í framlengingunni og þurfti því vítaspyrnukeppni til að útkljá viðureignina.

Þar hafði Vestri betur og er því kominn í 16 liða úrslitin.

Auglýsing

Ísafjarðarprestakall: helgihald um páskana

Á morgun , föstudagin langa, verða tvær helgigöngur. Önnur í Önundarfirði, frá Valþjófsdal að Holtskirkju og hin í Dýrafirði, frá Meðaldal til Þingeyrar.

Á páskadag verða sex hátíðarguðsþjónustur, fyrir hádegi í Bolungavík, Þingeyri og á Ísafirði og eftir hádegið verða einnig þrjár guðsþjónustur í Súðavík , á Suðureyri og í Holti í Önundarfirði.

Auglýsing

Knattspyrna: bikarleikur á morgun Vestri: HK

Næsti leikur Vestra er á morgun, föstudaginn langa, í sól og blíðu á Kerecisvellinum á Torfnesi kl.16:00. Varla til betri leiktími fyrir knattspyrnuleik á norðanverðum Vestfjörðum.

Andstæðingur okkar að þessu sinni er HK frá Kópavogi í 32-liða úrslitum Mjólkurbikar karla.

Það verða grillaðir hamborgarar til sölu og Candyfloss vél félagsins verður vígð.

Miðasala er hafin í Stubb.

Samúel Samúelsson, formaður knattspyrnuráðs karla hjá Vestra var vígreifur eftir góða byrjun Vestra í Bestu deildinni þegar Bæjarins besta ræddi við hann. Allir leikmenn heilir og í góðu standi og liðið nær vel saman. Hvatti hann Vestfirðinga til þess að mæta vel á Kerecis völlinn og fylla stúkuna.

Auglýsing

Tillögur Strandanefndar birtar

Forsætisráðuneytið hefur birt skýrslu nefndar um málefni Stranda sem var að störfum á síðasta ári. 

Forsætisráðherra skipaði nefnd um málefni Stranda í janúar 2024 og skilaði hún tillögum sínum í ágúst síðastliðnum. Verkefni nefndarinnar var að gera tillögur um hvernig efla mætti byggðaþróun á svæðinu og skapa vaxtarskilyrði fyrir samfélag og atvinnulíf á Ströndum. Skoða skyldi sérstaklega tækifæri sem gætu skapast með sameiningu sveitarfélaga. Nefndin var skipuð fulltrúum forsætisráðuneytis, innviðaráðuneytis, Byggðastofnunar, Fjórðungssambands Vestfirðinga, Árneshrepps, Kaldrananeshrepps og Strandabyggðar.  

Megintillögur nefndarinnar voru fjórar: 

  1. Lagt var til að sveitarfélögin þrjú sameinuðust um byggðaþróunarverkefni til allt að fimm ára með aðkomu Vestfjarðastofu, Byggðastofnunar og ráðuneytis. Skilyrði var sett fyrir stuðningi ríkisins að sveitarfélögin þrjú hefji viðræður um sameiningu og kanni jafnframt grundvöll stærri sameininga. Ekki hafa komið fram áform sveitarfélaganna um að hefja sameiningarviðræður og því ekki grundvöllur fyrir verkefninu að svo stöddu.
  2. Lagt var til að jarðhitaleit yrði haldi áfram á Gálmaströnd í Steingrímsfirði. Að mati nefndarinnar er aðkallandi að halda borunum á Gálmaströnd áfram til að meta umfang auðlindarinnar og nýtingarmöguleika hennar. Nýting jarðhitans fæli í sér mikla möguleika til uppbyggingar á nýjum atvinnuvegum ásamt því að styrkja grundvöll núverandi atvinnustarfsemi og búsetuskilyrði á svæðinu. Forsætisráðuneytið mun fara þess á leit við umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið að kannaðar verði leiðir til að vinna að framgangi jarðhitaleitarinnar.
  3. Lagt var til að stutt yrði við ljósleiðaravæðingu á Hólmavík. Tillagan komst til framkvæmda undir lok síðasta árs þegar hrint var í framkvæmd átaki til að ljúka ljósleiðaravæðingu landsins fyrir árslok 2026.
  4. Lagt var til að skipaður yrði starfshópur sem fengi það hlutverk að kanna kosti þess og galla að skilgreina vegina um Vestfirði (vegi 60, 61, 62, 63 og 68) sem hringveg sem fengi vegnúmerið 2. Innviðaráðherra hefur ákveðið að skipa slíkan starfshóp.

Auk þessara fjögurra megintillagna voru fjölmargar aðrar aðgerðir og tillögur ræddar í vinnu nefndarinnar. Í skýrslu nefndarinnar er gerð grein fyrir þeim og hvatt til að þær verði skoðaðar.

Efling byggða á Ströndum – Tillögur nefndar forsætisráðherra um málefni Stranda

Auglýsing

Gefum íslensku sjens: bókaklúbbur á miðvikudaginn

Gefum íslensku séns hefur haldið úti viðburðum í vetur  víða um Vestfirði, sem er liður í því að virkja samfélagið til þátttöku í inngildingu íbúa með annað móðurmál en íslensku. Þeir viðburðir sem hafa verið í boði eru hraðstefnumót við íslensku, Þriðja rýmið og leiklestur. Nú er komið að bókaklúbb.

Fyrsta bókin sem tekin verður fyrir er „Hildur“ eftir Satu Rämö. Fyrsti bókaviðburðurinn verður á Ísafirði í Fræðslumiðstöð Vestfjarða á síðasta vetrardegi, miðvikudaginn 23. apríl klukkan 19:30.

Í auglýsingu um viðburðinn segir: „Langar þig að lesa meira á íslensku og ræða spennandi bækur með öðrum? Við byrjum bókaklúbbinn á metsölubókinni ‘Hildur’ eftir Satu Rämö – íslensk glæpasaga með einstöku ísfirsku andrúmslofti. Höfundurinn sjálfur, Satu Rämö, ætlar að koma á bókakynningu nr. tvö sem verður haldin 6. maí nk. klukkan 19:30 á sama stað. Þetta er frábær leið til að dýpka lestrarskilning, kynnast nýjum bókum og mynda tengsl við aðra lesendur.“

Tökur á þáttum sem unnar hafa verið upp úr bókinni „Hildur“ stóð yfir hér á norðanverðum Vestfjörðum í síðasta mánuði og verða þeir sýndir hjá Sjónvarpi Símans í fyllingu tímans. Það er því tími til að setjast niður, lesa og ræða um efni bókarinnar áður en hún verður frumsýnd í sjónvarpinu.

Að lesa góða bók gefur okkur tækifæri til að hugsa og finna, hvernig tungumálið talar til okkar. Mikilvægt að gefa íslenskum texta séns!

Verið öll velkomin – hvort sem þú ert nýbyrjaður að lesa á íslensku eða lifandi bókaormur.

Auglýsing

Söl

Söl eru rauðþörungar. Plantan hefur lítinn stilk sem er sjaldan lengri en 5 mm. Upp af stilknum vex oftast eitt en stundum fleiri blöð (stofnblöð). Út úr jöðrum stofnblaðsins vaxa hliðarblöð sem eru aflöng og þynnri en stofnblaðið. Heildarlengd sölva er venjulega 20 til 30 cm. Söl eru dökkrauð á lit þar sem þau vaxa í fullsöltum sjó. Söl sem vaxa í fjörunni geta hins vegar upplitast og orðið gul eða græn. Sérstaklega ber á því ef þau lenda í sterku sólarljósi eða ef þau vaxa í seltulitlum sjó, til dæmis nálægt árósum. Neðsti hluti plöntunnar er þó alltaf rauður.

Söl vaxa aðallega snemma á vorin. Algengast er að þau vaxi upp af brotum af gömlum stofnblöðum, sem hafa orðið eftir frá fyrra ári (sölvamóðir). Söl byrja að þroskast seinni hluta mars og eru venjulega fullsprottin í lok maí eða byrjun júní. Lítill vöxtur er síðan yfir sumarið en þá safna sölin í sig forðasykrum. Um haustið byrja plönturnar síðan að slitna. Fyrst falla hliðarblöðin af en smám saman slitnar einnig af stofnblaðinu og lifir aðeins hluti af því yfir veturinn.

Næsta vor vaxa ný hliðarblöð aftur út frá jöðrum gamla stofnblaðsins. Þannig getur hver planta lifað í nokkur ár. Eftir að vöxtur hættir í byrjun sumars, fara ýmsar ásætur, dýr og plöntur að taka sér bólfestu á sölvunum og er venjulega mest um ásætur á blöðunum í lok sumars.

Við Ísland er söl að finna allt í kringum land. Þau vaxa aðallega í fjörunni og má finna þau frá miðri fjöru, niður fyrir stórstraumsfjörumörk. Neðan fjörunnar er algengt að þau vaxi á þarastilkum en hins vegar er sjaldgæft að sjá þau vaxa á botninum neðan fjörunnar. Þar sem aðstæður eru góðar geta söl verið ríkjandi á allstórum svæðum. Sérstaklega á þetta við um malarfjörur þar sem nokkurra ferskvatnsáhrifa gætir.

Elstu rituðu heimildir um notkun þörunga til manneldis á Vesturlöndum eru í Egils sögu Skallagrímssonar. Þar segir frá því að Þorgerður dóttir Egils ginnir hann til að éta söl og þar með til að hætta við að svelta sig í hel vegna harms yfir dauða sona sinna. Allt frá landnámstíð hafa söl því verið nýtt hér á landi. Sölin voru tínd um stórstraumsfjöru seinni hluta sumars og snemma á haustin og síðan þurrkuð á völlunum fyrir ofan fjöruna. Þurr söl fluttu menn heim, þar sem þau voru geymd í tunnum undir fargi til notkunar um veturinn. Þau voru étin eins og þau komu upp úr tunnunni og gjarnan haft smjör með. Söl eru enn tínd til matar, bæði í Vestmannaeyjum og í Ölfusi og sums staðar eru þau seld í verslunum.

Af vefsíðunni hafogvatn.is

Auglýsing

Grafið kjöt og ostagerð á Reykhólum

Á Sumardaginn fyrsta þann 24. apríl verður boðið upp á tvö námskeið í Grunnskólanum á Reykhólum.

Það fyrra er kl. 09:00-12:00 og þar verður kennd ferskostagerð.
Ferskostar eru eitthvað sem auðvelt er að gera í eldhúsinu heima hjá sér. Ferskostar er tegund af ostum sem þurfa ekki langan tíma til að verkast. Á námskeiðinu munu þátttakendur gera sína eigin útfærslu á þekktum ferskostum, Ricotta og salatosti sem eru með ólíka áferð.

Á seinna námskeiðinu kl. 13:00 – 16:00 verður farið yfir hvernig kjöt er grafið og þurrkað.

Farið verður í gegnum ferlið við það að þurrka og grafa kjöt. Hvað ber að varast við umgengni á hráverkuðu kjöti. Farið yfir söltun, val á kryddum, verkunartíma og geymsluþol.

Námskeiðin eru  gjaldfrjálst en skráningar er á https://docs.google.com/…/1FAIpQLSf…/viewform…

Auglýsing

Fjár­festinga­stuðningur í sauðfjár- og nautgripa­rækt 5-6%

Atvinnuvegaráðuneytið hefur lokið yfirferð umsókna um fjárfestingastuðning í nautgriparækt og sauðfjárrækt vegna framkvæmda á árinu 2025.

Fyrir fjárfestingastuðning í nautgriparækt barst 141 umsókn, þar af eru 63 vegna nýframkvæmda og 78 vegna endurbóta á eldri byggingum. Heildarkostnaður við fjárfestingar nautgripabænda vegna framkvæmda á árinu 2025 er samkvæmt umsóknum um 5,4 milljarðar króna. Til úthlutunar eru 276 millj. kr. og styrkhlutfall reiknast um 5,1 % af heildarfjárfestingakostnaði.

Í sauðfjárrækt barst 172 umsókn. Þar af eru 51 vegna nýframkvæmda og 121 vegna endurbóta á eldri byggingum. Heildarkostnaður við fjárfestingar sauðfjárbænda vegna framkvæmda á árinu 2025 er 2,8 milljarðar kr. Til úthlutunar eru samtals 172 millj kr. og styrkhlutfall reiknast um 6,1 % af heildarfjárfestingakostnaði.

Fjárfestingastuðningur er veittur vegna framkvæmda sem stuðla að hagkvæmari búskaparháttum, bættum aðbúnaði gripa og aukinni umhverfisvernd. Hægt er að sækja um stuðning til sömu framkvæmdar í allt að þrjú ár samfleytt.

Auglýsing

560 bátar hafa fengið leyfi til strandveiða

Frá Bolungarvík

Samtals hafa 560 bátar fengið leyfi til strandveiða en frestur til að sækja um rennur út þann 22. apríl.

Þeir sem sótt hafa um leyfi er flestir á svæði A 255 á svæði B hafa 99 fengið leyfi á svæði C 72 og 134 hafa fengið leyfi á svæði D.

Á síðasta ári fengu 764 bátar út­gef­in strand­veiðileyfi en 756 bát­ar sóttu afla á grund­velli strand­veiðileyf­is.

Sam­kvæmt nýju reglu­gerðinni um strand­veiðar þarf einn ein­stak­ling­ur að eiga beint eða óbeint meira en 50% hlut í bát sem gerður er út á strand­veiðar. Jafn­framt þarf sá sem á meira en 50% í bátn­um að vera lög­skráður á bát­inn og um borð í hverri veiðiferð.

Auglýsing

Nýjustu fréttir