Veiðigjald til ríkisins munu hækka um 245 m.kr. eða um 53% á fjögur stærstu sjávarútvegsfyrirtækin á Vestfjörðum samkvæmt því sem fram kemur í svari Örnu Láru Jónsdóttur, alþm. við fyrirspurnum frá Daníel Jakobssyni, Ísafirði.
Svar Örnu Láru var birt í morgun á vef Bæjarins besta. Það er unnið upp úr ársreikningum fyrirtækjanna fyrir 2023, en ekki liggja fyrir ársreikningar þeirra allra fyrir síðasta ár 2024. Samkvæmt þeim upplýsingum greiddu fyrirtækin 442.884.990 krónur í veiðigjöld árið 2023 en samkvæmt nýju frumvarpi þar sem búið er að leiðrétta veiðigjöldin verða þau 678.035.169 krónur, og er þetta því hækkun um 235.150.169, eða 53%.
70% hækkun veiðigjalda
Í greininni segir Arna Lára að með breytingum samkvæmt frumvarpinu megi áætla „að álagt veiðigjald verði um 19,5 milljarðar króna árið 2026, en án þeirra breytinga sem boðaðar eru samkvæmt frumvarpi þessu væri áætlað álagt veiðigjald um 11,2 milljarðar króna á grundvelli gildandi laga. Er þá gert ráð fyrir meðaltali veiðigjalda síðustu þriggja ára fyrir hverja tegund og að áætlað aflamagn haldist stöðugt. Að teknu tilliti til breytinga á frítekjumarki má gera ráð fyrir að innheimt veiðigjald verði um 17,3 milljarðar króna. árið 2026. Það er um 70% hækkun.“
Vestfjarðastofa stendur á morgun fyrir opnu málþingi í Súðavík um frumkvæði og fjárfestingar á Vestfjörðum. Fundað verðu rí stjórnsýsluhúsinu.
Frummælandi á málþinginu er Ólafur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Birtu lífeyrissjóðs og Gylfi Ólafsson stjórnarformaður Vestfjarðastofu mun stýra pallborði sem í verða fulltrúar fyrirtækja sem hafa fjárfest eða hyggjast fjárfesta á Vestfjörðum. Málþingið verður kl. 13-15 í Súðavík og eru áhugasamir hvattir til að skrá sig.
Frumkvæði og fjárfestingar – málþing – kl. 13:00 – 15:00
Frummælandi: Ólafur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Birtu lífeyrissjóðs Fjárfestingahik/ fjárfestingastífla – er hún til staðar og hvernig er hægt að losa hana?
Örsögur af fjárfestingum á Vestfjörðum og umræður: Arctic Fish – Daníel Jakobsson Kalkþörungaverksmiðjan í Súðavík – Halldór Halldórsson Hótelbygging á Hólmavík – Friðjón Sigurðsson / Erla Ásgeirsdóttir Húsnæðisuppbygging og skipulag sveitarfélaga – Jón Páll Hreinsson
Sæll Daníel, kjósandi í Norðvesturkjördæmi. Ég vil nú byrja á því að óska þér til hamingju með forstjórastöðuna í Arctic Fish og stjórnarsæti þitt hjá Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS). Þú þekkir auðvitað vel samfélag okkar sem fyrrum oddviti Sjálfstæðisflokks í bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar og fyrrum bæjarstjóri. Ég vil þakka þér fyrir spurningarnar og fyrir áhuga þinn á greinaskrifum mínum.
Í skrifum þínum er þó sett fram fullyrðing sem er röng og ég vil fá að leiðrétta. Það er ekki verið að tvöfalda veiðigjöldin eins og þú fullyrðir, á sama hátt og félagar þinir í Sjálfstæðisflokknum sem sæti eiga á Alþingi hafa gert. Í skýringum með frumvarpinu sem ég mæli með að þú kynnir þér kemur eftirfarandi fram: Með breytingum samkvæmt frumvarpinu má áætla að álagt veiðigjald verði um 19,5 milljarðar króna árið 2026, en án þeirra breytinga sem boðaðar eru samkvæmt frumvarpi þessu væri áætlað álagt veiðigjald um 11,2 milljarðar króna á grundvelli gildandi laga. Er þá gert ráð fyrir meðaltali veiðigjalda síðustu þriggja ára fyrir hverja tegund og að áætlað aflamagn haldist stöðugt. Að teknu tilliti til breytinga á frítekjumarki má gera ráð fyrir að innheimt veiðigjald verði um 17,3 milljarðar króna. árið 2026. Það er um 70% hækkun en ekki tvöföldun.
Í grein þinni leggur þú fram eftirfarandi sex spurningar til mín. Það er mér ljúft að svara þeim.
Hvaða þýðingu hefur þessi hækkun fyrir fjögur stærstu sjávarútvegsfyrirtækin á Vestfjörðum?
Þessar upplýsingar miðast við ársreikninga fyrirtækjanna árið 2023 en félögin hafa ekki öll birt ársreikning fyrir árið 2024. Félögin greiddu 442.884.990 krónur í veiðigjöld árið 2024 en samkvæmt nýju frumvarpi þar sem búið er að leiðrétta veiðigjöldin verða þau 678.035.169 krónur, og er þetta því hækkun um 235.150.169, eða 53%. Árið 2023 var samanlögð EBITDA þessara fyrirtækja 3.983.000 krónur. Skattar á þessi fyrirtæki verða óbreyttir.
Hvað borga þau núna og hvað munu þau borga ef þetta nær fram að ganga?
Sjá svar við fyrstu spurningu.
Hvernig bætir þetta frumvarp hagsmuni íbúa Ísafjarðarbæjar?
Íbúar Ísafjarðarbæjar sem og íbúar mun fleiri sveitarfélaga hafa kallað eftir bættum innviðum og þá sérstaklega þegar kemur að vegakerfinu, hvort sem er viðhaldi eða nýframkvæmdum. Ríkisstjórn hefur gefið það skýrt út að tekjurnar af leiðréttum veiðigjöldum verða nýttar í vegakerfi, og má sjá merki þess í fjármálaáætlun sem nú er til umfjöllunar í fjárlaganefnd.
Mun tvöföldun á veiðigjaldi auka framboð á störfum á Vestfjörðum?
Nei. Bendi á ranga fullyrðingu í spurningunni.
Mun hækkunin hvetja fyrirtækin til þess að fjárfesta í samfélaginu?
Best er að spyrja fyrirtækin sjálf að því. Þau eru með sterka EBITDU þannig það er svigrúm til fjárfestinga kjósi þau að gera það.
Og að lokum, telur þú líkur á því að fyrirtæki muni í auknum mæli sameinast og hvaða áhrif telur þú að það muni hafa á Vestfirði?
Það er ekki ólíklegt að það gerist og er í raun þegar farið að gerast, en þar er ég að vísa í kaup útgerðarfélags í Bolungarvík á hlut í félagi í Hnífsdal. Leiðrétting veiðigjalda hafði ekki áhrif á þau viðskipti, frekar en sala aflaheimilda Þórsbergs á Tálknafirði til Útgerðarfélags Reykjavíkur fyrr á þessu ári.
Bæjarráð Ísafjarðarbæjar hefur samþykkt hækkun á fjárveitingu til Grunnskólans á Ísafirði um 21,3 m.kr. Kostnaður við endurnýjun tölvubúnaðar hækkar um 3 m.kr. Kaupa þarf 15 ipada fyrir nemendur umfram áætlun.
Kostnaður við skólaakstur hækkar um 11,3 m.kr. og verður 35 m.kr. Í skýringum segir að skólaakstur hafi verið áætlaður 2,28 m á mánuði í 10 mánuði. Raunin er að hann er um 3,6 m.kr. á mánuði vegna aukaferða kl 8:40 og kl 13:00 út vorönn 2025. Gert er ráð fyrir að kostnaður lækki í haust þegar 8:40 ferðin fellur niður.
Þá hækkar kostnaður við aðkeypt þrif um 7,4 m.kr. og verður 8 m.kr. Samið var við ræstifyrirtæki, Sólar ehf., um þrif vegna breyttra forsendna í starfsmannahaldi.
Auknum kostnaði er mætt með hagræðingu á öðrum deildum A hluta segir í bókun bæjarráðs.
Útskriftarnemendur Lýðskólans á Flateyri.
Mynd: Lýðskólinn á Flateyri.
Lýðskólinn á Flateyri útskrifaði 19 nemendur þann 1. maí síðastliðinn. Tveir nemdandanna komu frá Ísafirði en annars voru þeir víðs vegar af landinu að sögn Margrétar Gauju Magnúsdóttur, skólastjóra. Athöfnin fór fram í Flateyrarkirkju. Margrét Inga Gylfadóttir frá Ísafirði hélt útskriftarræðu fyrir hönd nemenda, Úlfur Júlíusson var með tónlistaratriði og Runólfur Ágústsson, formaður stjórnar flutti ávarp.
Í ræðu sinni drap Runólfur á tilurð skólans :
„Þegar við hófum ferðalagið að stofnun Lýðskólans á Flateyri, þá vissum við eitt:
að Ísland þurfti fleiri leiðir og fleiri tækifæri –
til náms,
til þroska,
til þess að finna sjálft sig
– utan við þrönga skorður prófa og kerfa.
Þessi skóli var hugsaður sem svar við þeirri þörf.
Og í dag, þegar ég horfi á ykkur,
þá sé ég svarið lifandi og augljóst.
Þið eruð svarið.“
og bætti svo við:
„Í Lýðskólanum á Flateyri er nemandinn í miðjunni – ekki kerfið.
Og þið hafið tekið það hlutverk alvarlega.
Þið hafið vaxið –
ekki með einkunnum,
heldur með þátttöku,
sköpun,
samstarfi
og sjálfsskoðun.“
Margrét Gauja segir að aðstaða við skólann sé fyrir 26 nemendur og unnt að bæta aðeins við og taka á móti 30 nemendum.
Nú hefur verið auglýst eftir nemendur fyrir næsta skólaár sem hefst í haust.
í dag verða tónleikar í Ísafjarðarkirkju og hefjast þeir kl 14.
Þar sameinast börn frá fjórum leikskólum frá Ísafirði, Suðureyri, Flateyri og Bolungarvík. Undirleik annast nemendur Tónlistarskóla Ísafjarðar.
Leikskólinn Tangi, Leikskólinn Tjarnarbær, Leikskólinn Grænigarður, 5 ára deildin Malir og Tónlistarskóli Ísafjarðar flytja lög Braga Valdimars í Ísafjarðarkirkju.
Sameining sveitarfélaga hefur verið gegnumgangandi stef í sveitarstjórnarmálum um áratugaskeið. Sérstaklega stórt átak var gert í upphafi tíunda áratugarins. Árið 1993 voru þannig umdæmanefndir heimamanna sem fengu það hlutverk að gera tillögur að sameiningum og var þá lagt til að sveitarfélögum á landsvísu myndi fækka úr 194 í 43. Þar af áttu Vestfirðir að samanstanda af fjórum sveitarfélögum.
Þessum hugmyndum var sumstaðar hafnað og annarsstaðar tekið fagnandi, og nú með sameiningu Tálknafjarðar og Vesturbyggðar erum við komin með átta sveitarfélög á svæðinu, en þau voru 24 árið 1993.
Þessi átta sveitarfélög sem nú skipta Vestfjarðakjálkanum á milli sín eru misstór í ferkílómetrum, en sérstaklega þó í manneskjum talið. Það lætur nærri að sextíufaldur munur sé á fámennasta og fjölmennasta sveitarfélaginu. Staða þeirra, fjárhagslegir burðir og hagsmunir eru einnig ólík. Þrátt fyrir talsverðar vegabætur og byltingu í upplýsingatækni eru fjarlægðir enn langar; það er svipað langt frá Norðurfirði í Árneshreppi til Ísafjarðar og suður að Esjurótum, um 300 km.
Bókun bæjarráðs
Á fundi bæjarráðs Ísafjarðarbæjar í morgun lagði ég fram dagskrárlið um sameiningu sveitarfélaga:
Í stefnuyfirlýsingu Í-listans fyrir kjörtímabilið segir: „Ísafjarðarbær er opinn fyrir öllu samstarfi sveitarfélaga á svæðinu og hugmyndum um sameiningu þeirra.“ Fyrr á kjörtímabilinu lýsti Árneshreppur yfir vilja til sameiningar sem bæjarráð tók vel í, en ekkert varð meira úr málinu.
Formaður hefur á síðustu vikum átt samtöl við forsvarsmenn annarra sveitarfélaga á Vestfjörðum. Almennt sjá þau fyrir sér að frekari sameiningar séu skynsamlegar og óumflýjanlegar á næstu 5–15 árum, en misjafnt er hversu mikill áhugi er á sameiningum að sinni.
Formaður leggur til að bæjarráð lýsi yfir skýrum vilja til sameininga sveitarfélaga á Vestfjörðum og að bæjarstjóra verði falið að vera fulltrúi sveitarfélagsins í óformlegum viðræðum sem kunna að skapast í tengslum við það. Það sé skýrt af hálfu bæjarins að sameiningarvilji eigi ekki að koma í veg fyrir smærri sameiningar annarra sveitarfélaga ef þær eru taldar heppilegri til skemmri tíma.“
Sameiningar á Ströndum
Ef Strandabyggð, Árneshreppur og Kaldrananeshreppur sameinast verður samanlagður íbúafjöldi 580, og með Súðavíkurhreppi 200 íbúum fleiri. Hvort heldur sem er, nær sameinað sveitarfélag ekki viðmiðun laga um 1000 íbúa lágmark. Ýmsar óformlegar þreifingar á sameiningu sveitarfélaga eru í gangi, þar á meðal er til skoðunar að Kaldrananeshreppur og Árneshreppur sameinist án aðkomu Strandabyggðar. Ókosturinn við þá sameiningu er að það næði ekki 200 manna markinu og þar með ekki þeim markmiðum sem eðlilegt er að leggja til grundvallar þeirri miklu vinnu sem sameining hefur í för með sér. Líkur eru á að þar með færi mikil orka sem betur nýtist í stærri sameiningu.
Samstarf er að aukast
Samstarf milli sveitarfélaga hefur verið að aukast síðustu ár. Þannig er Ísafjarðarbær leiðandi sveitarfélag í velferðarmálum ýmsum, eins og sést í ársskýrslu Ísafjarðarbæjar 2024 sem fylgir ársreikningi.
Úrklippa úr ársskýrslu Ísafjarðarbæjar fyrir 2024, en þar er samstarfi í velferðarmálum lýst í stuttu máli. Ársskýrslan er annars afar greinargóð samantekt á rekstri sveitarfélagsins.
Þá standa sveitarfélög við Djúp saman að Byggðasafni Vestfjarða.
Og svo er það Vestfjarðastofa, sem er vettvangur fjölbreytts samstarfs. Þar hef ég verið stjórnarformaður síðasta hálfa árið eða svo og séð frá fyrstu hendi þá möguleika sem felast í samstarfi á héraðsvísu í atvinnuþróun, velferðarmálum, ferðaþjónustu og málafylgju gagnvart landsstjórninni.
En Vestfjarðastofa er á ýmsan hátt máttlaus. Hún er klemmd á milli ríkis og sveitarfélaga. Hún er ekki stjórnvald í skilningi laga, og í mörgum tilvikum er það svo að einstök sveitarfélög hafa neitunarvald. Stundum kemur það fram í því að mál eru ekki afgreidd. Það er hinsvegar undantekningin. Meginreglan er að allar ákvarðanir sem snerta sveitarfélögin allar taka lengri tíma en heppilegt er, bitið vantar og áræðið skortir. Ákvarðanir snúast um lægsta samnefnarann, sem getur verið mjög lágur þegar stærðar- og aðstöðumunur sveitarfélaga er jafnmikill og raun ber vitni. Það er því ljóst að aukið hlutverk Vestfjarðastofu er ekki heppileg lausn í ýmsum tilvikum.
Aukið samstarf?
Oft er bent á að aukið samstarf í ákveðnum málaflokkum sé heppilegra milliskref. Það hefur orðið í velferðarmálunum eins og að ofan er greint, og unnið er að því að auka það með gerð svæðisskipulags, í umhverfismálum og nú síðast í málefnum sem tengjast innleiðingu laga um farsæld barna.
Og svo er það hafnarsamlag, einkum við Djúp, sem gæti verið sniðugt. Mín fyrsta greining hefur ekki bent til þess að það sé eitt og sér heppilegt skref, en ég er reiðubúinn til að taka rökum um annað. Byggðasamlög eru almennt klunnalegt stjórnfyrirkomulag, einkum vegna þeirra löngu boðleiða sem geta orðið til þrátt fyrir fámenni og lítið umfang.
Öflugri saman
Ég er sannfærður um þetta: Tímans þungi niður fellur í þá átt að hafa fá en öflug sveitarfélög á Vestfjörðum sem geta tekið áskorunum framtíðarinnar. Í sameiningu þurfa byggðakjarnarnir og svæðin að halda sinni rödd, sinni sérstöðu og sinni menningu. Það á ekki að breytast með sameiningu.
Það sem af er kjörtímabilinu hef ég, sem forsvarsmaður stærsta sveitarfélagsins, verið hikandi við að hafa frumkvæði að sameiningu sveitarfélaga, þar sem ég hef óttast að það setji smærri sveitarfélög í baklás. Nú þegar Strandabyggð er farin að skoða ýmsa kosti sameininga held ég að rétti tíminn sé kominn að byrja alvöru samtal um næstu sameiningar.
Það tekur tíma, en orð eru til alls fyrst.
Gylfi Ólafsson, formaður bæjarráðs Ísafjarðarbæjar
Hópur á vegum Landlæknisembættisins vann að gerð ráðlegginganna sem byggja á bestu vísindalegu þekkingu á sambandi mataræðis og heilsu en einnig er tekið tillit til matarvenja þjóðarinnar. Ráðleggingar um mataræði voru fyrst gefnar út á Íslandi árið 1986 en síðan þá hafa þær verið endurskoðaðar fjórum sinnum.
Mikilvægt er fyrir almenning að hafa aðgang að traustum upplýsingum um mataræði, enda hefur það sem við borðum og drekkum mikil áhrif á heilsuna. Með því að fylgja ráðleggingunum er auðveldara að tryggja að líkaminn fái þau næringarefni sem hann þarf á að halda og stuðla þannig að góðri heilsu og vellíðan.
Í nýjum ráðleggingum er aukin áhersla á grænmeti, ávexti og heilkornavörur. Nýmæli er umfjöllun um orkudrykki sem ekki voru algengir á markaði síðast þegar ráðleggingarnar komu út. Ráðleggingar embættisins í þeim efnum eru skýrar; orkudrykkir eru ekki ætlaðir börnum og ungmennum undir 18 ára. Minna er ráðlagt af rauðu kjöti en áður og áfram er varað sérstaklega við neyslu unninna kjötvara (s.s. pylsur, bjúgu, naggar, beikon o.s.frv.), hvoru tveggja vegna aukinnar krabbameinsáhættu. Einnig er ráðlagt að takmarka neyslu á matvælum sem innihalda mikið af fitu, salti og sykri og að forðast áfengi, meðal annars vegna krabbameinsvaldandi áhrifa.
Nýju ráðleggingarnar leggja höfuðáherslu á eftirfarandi þætti:
Njótum fjölbreyttrar fæðu með áherslu á mat úr jurtaríkinu
Veljum grænmeti, ávexti og ber oft á dag
Veljum heilkorn, helst þrjá skammta á dag
Veljum fisk, baunir og linsur oftar en rautt kjöt – takmörkum neyslu á unnum kjötvörum
Veljum ósætar og fituminni mjólkurvörur daglega
Veljum fjölbreytta og mjúka fitugjafa
Takmörkum neyslu á sælgæti, snakki, kökum, kexi og sætum drykkjum
Kári Viðarsson, Frystiklefanum á Rifi, er handhafi Landstólpans 2025. Landstólpinn, samfélagsviðurkenning Byggðastofnunar, var afhentur í fjórtánda sinn á ársfundi Byggðastofnunar sem fram fór í Breiðdalsvík 8. maí sl. en Landstólpinn er veittur árlega einstaklingum, fyrirtækjum og hópum sem þykja hafa skarað fram úr í verkefnum sínum og störfum.
Landstólpanum er ætlað að vekja athygli á því góða og fjölbreytta starfi sem fram fer í landsbyggðunum og um leið að vekja athygli á starfi Byggðastofnunar.
Við val á Landstólpa ár hvert er leitast eftir því að viðkomandi hafi gefið jákvæða mynd af landsbyggðinni, aukið virkni íbúa eða jafnvel fengið þá til beinnar þátttöku í tilteknu verkefni og aukið samstöðu og jákvæðni íbúa.
Í ár bárust 35 tilnefningar og niðurstaða dómnefndar varð sú að veita Kára Viðarssyni, Frystiklefanum á Rifi Landstólpann árið 2025.
Viðurkenningargripurinn í ár er trélistaverk, lágmynd úr tré, eftir myndlistarkonuna Aðalheiði Eysteinsdóttur.
Einnig hlýtur Landstólpinn 1.000.000 krónur í verðlaun.
Handverksmarkaðurinn í Króksfjarðarnesi er opinn frá og með 10. maí, opið er alla daga frá 10:00 til 18:00.
Eins og undanfarin ár eru fjölbreyttar handverksvörur í boði, prjónles, munir úr tré og líka gleri, skartgripir, sápur, sultur, barnaföt og er þá fátt eitt nefnt.
Líka má nefna bækur og ekki síst nytjamarkaðinn þar sem fólki gefst kostur á að bjóða í alls kyns muni sem þar með geta öðlast nýtt hlutverk og allur ágóði af sölu hlutanna rennur til góðra málefna í héraðinu.
Veitingar eru líka seldar, súpa dagsins, kaffi eða aðrir drykkir og meðlæti og samlokur.