Varðhundar stórútgerðanna á Alþingi hafa staðið í ströngu undanfarið og til að draga yfir sérhagsmunagæsluna og réttlæta málþófið hafa þeir borið fyrir sig hagsmuni landsbyggðar. það eru sannarlega nýjar fréttir fyrir okkur sem fylgst hafa með pólutíkinni í gegnum tíðina að flokkarnir sem staðið hafa með stórútgerðinni í blíðu og stríðu eins og í heilögu hjónabandi skuli nú hafa áhyggjur af afkomu landsbyggðar. Þarna er um flokka að ræða sem setið hafa við stjórnvölin á þessu djöflaskeri nánast allar götur frá lýðveldisstofnun og skipt með sér landsins gæðum og völdum í mesta bróðerni á tillits til ein eða neins. Það voru bara eigin og sérhagsmunir útvaldra sem réðu för – staða landsbyggðar hefur að líkindum aldrei verið þeirra hjartansmál.
Helmingaskiptaflokkarnir hafa ekki bara nánast verið einráðir á Alþingi svo lengi sem menn muna – þeir hafa einnig að mestu ráðið ferðinni í bæjar og sveitarstjórnum hringin í kringum landið. Fulltrúar í þeim hafa svo samþykkt allar tillögur sem frá félögum á þingi hafa komið er varðar landsbyggðina athugasemdalaust og án þess er virðist að íhuga á nokkurn hátt afleiðingarnar.
Nú hins vegar hafa fulltrúar nokkurra bæjarfélaga stigið fram til að lýsa áhyggjum sínum af hækkun veiðigjalda og mögulegum neikvæðum afleiðingum fyrir brotnar byggðir – sem hingað til hefur gleymst að taka tillit til í hrókeringum ýmsum – en nú eru allir virkjaðir til að verja þá stóru í nafni brotinna byggða – trúðarnir hafa verið trekktir upp og kjölturakkarnnir farnir að gjamma.
Ragnar Þór Ingólfsson þingmaður Flokks fólksins rifjaði upp á dögunum í facebookfærslu sem birtist í DV brot úr ræðu sem Sigurður Kári Kristjánsson hélt á landsfundi Sjálfstæðisflokksins árið 2009. Þar sagði Sigurður Kári: „Vilji Sjálfstæðisflokkurinn halda yfirráðum sínum yfir sjálvarauðlindinni, þá felur það í sér að flokkurinn vill standa utan Evrópusambandsins og því fagna ég.“
Og við eigum að trúa því að flokkurinn sá taki hagsmuni þjóðarinnar fram yfir sérhagsmuni eins og nú er látið í veðri vaka í yfirstandandi áróðursherferð.
Það er ekki hægt að kenna neinum um bágborið ástand á landsbyggðinni nema helmingaskiptaflokkunum sem nú virðast hafa gleymt aðkomu sinni að pólutíkinni hingað til – líklega vegna þess að hjá þeim ristir ábyrgðartilfinningin ekki svo djúpt né þá heldur siðferðið í vitundina
Ég veit að norðmenn furða sig á hversu fyrirhafnarlítið ránið var á gjöfulustu auðlind íslensku þjóðarinnar – þeir fagna því vissulega að rétt skuli hafa verið staðið að málum þegar olían fannst á þeirra landgrunni. Í þessum eðlislíku málum skiptu pólutískar ákvarðanir sköpum – annars vegar fyrir sérhagsmuni – hins vegar fyrir þjóðarhag.
Fróðlegt væri að vita hvað norðmönnum finnst um auglýsingar íslenskra stórútgerðamanna með einum af þeirra kunnasta leikara úr EXIT þáttunum. Þessar auglýsingar eru mjög svo á siðferðilegu lágu plani og það er með ólíkindum að enginn sem kom að gerð þeirra skuli hafa áttað sig á því. Norski EXITleikarinn er holdgervingur siðblindunnar í þeim þáttum og svo dúkkar hann upp í auglýsingu íslenskra auðmanna sem sams konar týpa.
Þessar auglýsingar eru óþægilegar vegna þess að þeir sem að þeim stóðu eru gríðalega valdamiklir í þjóðfélaginu.
Síðust daga hefur njósnamálið svokallaða verið til umræðu í fjölmiðlum. Þetta er alvarlegt mál og ber vott um vanhugsuð og óvönduð vinnubrögð eins og svo margt annað í þessu þjóðfélagi.
En þó þetta sé alvarlegt mál þá er það sem spörður í yfirfullum flór og það má velta fyrir sér hvers vegna það hafi verið dregið upp úr glatkistunni núna þegar af nógu er að taka sem nær er í tíma. Er kannski verið að reyna að beina athygli almennings í miðri auðlindagjaldaumræðunni að mögulegri spillingu innan lögreglunnar og þá í leiðinni að lögreglumönnunum sem nú tilheyra meirihlutanum á Alþingi ?
Sjálfstæðismenn sumir hafa jú lýst því yfir opinberlega að þeir muni og ætli sér að vera duglegir við að minna þingmenn meirihlutans á þeirra aðild að spillingunni hér á landi og kannski að heimfæra eitthvað af sínu upp á þá. Þeir vita sjálfsagt manna best hvar sperðina er að finna í flórnum – það er hægt að verða samdauna eigin skítalykt en það gegnir öðru máli með annarra.
Þetta njósnamál mun ekki breyta miklu ef þá nokkru hvað varðar traust almennings á kerfinu – það hefur lengi verið lítið því það er löngu hætt að þjóna sínum rétta tilgangi hvar sem á það reynir.
Kerfið í heild sinni er orðið sem einn af mörgum samtryggingaklúbbum í landinu – sem hafa það eitt að markmiði að þjóna sérhagsmunaklíkum – það vita þeir sem lent hafa í því og orðið leiksoppar þess í áraraðir og jafnvel tugi.
Þeir eru orðnir margir til að mynda sem lent hafa illa í heilbrigðiskerfinu og ekki beðið þess bætur. Það er illt að lenda í því – lögfræðingar ráða jafnvel fólki frá því að fara í mál við það og margir þeirra eru tregir til að taka að sér mál því viðkomandi. Þetta er dapurleg staðreynd því hér er um að ræða kerfi sem við öll viljum geta treyst fullkomlega.
Það væri forvitnilegt að vita hversu mörg mál hafa dagað uppi í heilbrigðiskerfinu síðustu 20-30 árin og hversu mörg mál hafi verið afgreidd af lítilsvirðingu gagnvart þolendum og hvað tekið hafi langan tíma að meðaltali að afgreiða þau mál sem fengið hafa afgreiðslu.
Það er ekki hægt að ætlast til að fólk treysti velferðarkerfinu að óbreyttu.
Velferðarkerfið var byggt upp til að þjóna almenningi og verja í ágjöf – en þegar á reynir er þar ekki annað að finna en veruleikafirringu, skilningsleysi og meðvirkt óréttlæti. Það er ekki hlustað á fólk því fyrirfram er búið að ákveða að það sé ómarktækt – þar af leiðandi fær það ekki tækifæri til að verja sig og sinn hag – því er bara þröngvað út í horn og settir afarkostir – kannski eftir baráttu sem yfirtekið hefur stóran hluta lífs þess.
Velferðarkerfið er í raun óvirkt eftir áratuga ágang sérhagsmunaafla að vanhæfu starfsfólki þess – „rétt“ ættuðu, „rétt“ tengdi og „rétt trúuðu.“
Umræðan um auðlindagjöldin hefur varpað ljósi á forherðingu spillingarinnar – henni hefur tekist að hreiðra vel um sig á þessu volaða skeri því aðhaldið hefur verið lítið.
Erum við heimskari en aðrar þjóðir ? Erum við kannski þess vegna ofurseld spillingaröflum eða er það atgervisflótti sem veldur ?
Við höfum verið að missa menntunina úr landi – menntafólkið okkar segist búið að fá nóg af vitleysunni hér sem bjóði ekki upp á neitt annað en skuldsetningu og þrældóm – svo flótti er eina leiðin fyrir marga. Þar glötum við þekkingunni sem ætti að hafa getuna til að lesa í aðstæður áður en yfir er vaðið. útverðirnir yfirgefa landið.
Það er reynt að láta allt líta vel út á yfirborðinu – glansmyndum er otað að almenningi sem sýna alltígúddífólkið í koktelboðum hjá hvert öðru – Smartland segir svo frá hvað spjarirnar þeirra og fylgihlutir hafi kostað margföld mánaðarlaun verkamanns. Þetta eru kannski lífsbætandi upplýsingar fyrir einhverja en staðfesting á veruleikafirringu fyrir aðra – firringu sem sumir kjósa að halda dauðahaldi í til að þurfa ekki að horfast í augu við dapran veruleika sem víða blasir við.
Það er þó hægt að fagna því að verkalýðshreifingin skuli loks vöknuð eftir langan svefn – hún mun veita aðhald en það þarf meira að koma til – það þarf almenna vakningu.
Það verður ekki við það unað að bjargirnar sem almenningur á að geta treyst á séu misnotaðar af öflum sem vilja allt annað en vel – þannig að öryggisnet kerfisins verði sem köngulóarvefir sem ómögulegt getur reynst að losna úr. Eftir grimma sjúkdómavæðingu til margra ára sitja því miður margir fastir í vefnum – þeim er síðan mörgum gert að lifa eftir frelsisskerðandi skilyrðum félagsþjónustunnar – sem er auðvitað ekkert annað en kúgun.
Það er ekki traustvekjandi þegar ráðamenn afneita ástandinu með því að lýsa því yfir ítrekað opinberlega að kerfin okkar séu góð og betri en víðast hvar annars staðar – því við vitum flest að það er ekki rétt.
Íslenska dómskerfið til að mynda er ekki ætlað almenningi – það er sem sniðið fyrir þá efnameiri – orða þeirra virðast alltaf vega þyngra á vogaskálum réttlætisins fyrir íslenskum dómstólum. Félagsþjónustan er svo eins og betrunarhæli fyrir afbrotafólk – þar sem sjálfsmynd fólks í veikri stöðu er rifin niður og það smættað. Heilbrigðiskerfið er verst af öllu vondu – í því mætir fólk á sínum viðkvæmustu augnablikum of oft yfirlæti og lítilsvirðingu svo því langar einna helst að biðjast afsökunar á tilveru sinni.
Kerfin okkar sem eiga að hafa bjargráðin og tryggja almenningi réttlæti og sanngirni gera ekkert annað en að draga fólk niður og eða á asnaeyrunum með innantómum loforðum. Það er ekki nema von að þjóðin sé þunglynd þegar fólk er alls staðar farið að upplifa sig sem aukaatriði.
Heilbrigðiskerfið er í miklum vanda er kemur að vinnubrögðum – sumt er að þeim snýr er lyginni líkast – því er brýnt að hlustað sé á þá sem reynt hafa og þeim trúað svo ráða megi bót á.
Nú kunna einhverjir að halda að ég sé mikil bölsýnismanneskja – en það er ég ekki – ég hef aðeins með skrifum mínum verið að reyna að varpa ljósi á þá veggi sem ég hef verið að ganga á síðustu 20 árin eða svo og þann „félagsskap“ sem þá reisti.
Ég reyni enn að halda í vonina um betri tíð með blóm í haga og að það muni á endanum verða pláss fyrir okkur öll sólarmegin í lífinu.
Lifið heil !
Vilhelmína H. Guðmundsdóttir
Lífsreyndur eldri borgari.