Miðvikudagur 14. maí 2025
Heim Blogg

Helgi Dan Stefánsson er nýr svæðisfulltrúi íþróttahéraðanna á Vestfjörðum

„Ég hef sérstakan áhuga á að efla aðgengi íþrótta fyrir jaðarsett börn. En góða greiningu virðist vanta fyrir marga hópa, það er vinna sem við þurfum að fara í,“ segir Helgi Dan Stefánsson.

Hann er nýr svæðisfulltrúi íþróttahéraðanna á Vestfjörðum og mun taka við starfinu af Gubjörgu Ebbu Högnadóttur, sem hefur verið í tímabundnu leyfi frá kennarastörfum. Hún mun vinna með Helga út júní.

Á Vestfjörðum eru tveir svæðisfulltrúar. Hinn er Birna Hannesdóttir, sem býr á Patreksfirði.

Helgi kom til starfa í byrjun mánaðar. Hann er fertugur fjölskyldumaður með meistaragráðu í félagsfræði frá Háskóla Íslands, Ísfirðingur í húð og hár en flutti um nokkurra ára skeið suður og hefur unnið sem ráðgjafi sjóða og teymisstjóri hjá Bandalagi háskólamanna (BHM) síðastliðin átta ár. Helgi og fjölskylda hans flutti aftur vestur fyrir rúmu ári.

Starfsfólk svæðisstöðva íþróttahéraðanna eru sextán talsins um allt land og í öllum landshlutum. Hver svæðistöð styður við íþróttahéruð á sínu svæði og hjálpar þeim að innleiða stefnu íþróttahreyfingarinnar og ríkisins í íþróttamálum.

Starfsemi svæðisstöðvanna hófst fyrir um ári.

Ein af áherslum svæðisstöðvanna er að auka þátttöku barna og ungmenna í skipulögðu íþróttastarfi á Íslandi, sérstaklega börn með fatlanir, frá tekjulægri heimilum og þau sem hafa fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn.

Auglýsing

Grunnskóli Ísafjarðar: aukið um hálft stöðugildi hjá stjórnendum

Grunnskóli Ísafjarðar.

Sviðsstjóri skóla- og tómstundasviðs og mannauðsstjóri Ísafjarðarbæjar leggja til að bætt verði við 50% stöðu deildarstjóra við skólann vegna fjölgunar nemenda og aukinna sérþarfa barna. Starfið yrði auglýst sem deildarstjóri yngsta stigs með 50% stjórnun og 50% kennslu á móti. Tilefni beiðninnar eru auknar kröfur og fjölgun nemenda, sem hafa í för með sér verulega aukið álag á núverandi stjórnendur.

Í dag eru 4 stjórnendur við Grunnskólann á Ísafirði í samtals 3,5 stöðugildum. Þetta eru:

  • Skólastjóri
  • Aðstoðarskólastjóri
  • Deildarstjóri stoðþjónustu
  • Deildarstjóri unglingastigs sem er 50% stjórnandi og sinnir 50% kennslu á móti.

Í minnisblaði til bæjarráðs segir að nemendafjöldi hafi aukist um tæplega 24% á síðustu 10 árum, úr 327 nemendum í 405.
Starfsmenn skólans eru um 70 talsins og fjölgun nemenda hefur haft áhrif á alla þætti skólastarfs. Á sama tíma hafi nemendum með miklar sérþarfir fjölgað, sem og nemendum af erlendum uppruna. Þetta kalli á aukið utanumhald, teymisvinnu, samþættingu þjónustu og markvissa faglega eftirfylgni sem felst ekki síst í auknum stjórnunarkröfum.

Áætlaður launakostnaður vegna aukningarinnar er 7,3 m.kr. miðað við heilt ár. i. Á móti komi að skólinn hafi þegar náð fram sparnaði í rekstri sem nemur 7.320.000 kr. eftir að samið var við þrifafyrirtæki um umsjón með daglegum þrifum á ákveðnum svæðum í skólanum. Sú breyting varð eftir að tveir skólaliðar hættu störfum og er mikil ánægja með gæði þrifanna skv. stjórnendum
skólans segir í minnisblaðinu.

Bæjarráð tók jákvætt í erindið og vísaði því til afgreiðslu í skóla-, íþrótta- og tómstundanefnd.

Auglýsing

Arctic Fish: lág verð á erlendum mörkuðum

Daníel Jakobsson, framkvæmdastjóri Arctic Fish.

Arctic Fish birti í morgun upplýsingar um afkomu fyrirtækisins á fyrsta fjórðungi ársins.

Félagið slátraði 3.140 tonnum á tímabilinu sem er 24% aukning frá fyrra ári. Engu að síður lækkuðu tekjurnar og voru 3,2 milljarðar króna samanborið við 3,5 milljarðar í fyrra.

Tap upp á 2,1 milljarð króna varð af rekstri félagsins í fjórðunginum samanborið við 858 milljón króna hagnað á sama tíma í fyrra. Framlegð frá rekstri (e. Operational EBIT) var 75 milljónir (23,3 kr/kg) samanborið við 1,4 milljarð í fyrra (561 kr/kg).

„Á fyrsta ársfjórðungi hefur framleiðslan að mestu leiti gengið mjög vel. Hitastig í sjó hefur verið hagstætt og þrátt fyrir áskoranir á einni eldisstöð í byrjun árs hefur vöxtur eldisfisksins verið með besta móti síðan þá. Verð á mörkuðum hafa hinsvegar verið langt undir væntingum og fyrra ári, sem hefur haft neikvæð áhrif á reksturinn. Við gerum ráð fyrir að slátra 14.000 tonnum á árinu eða um 31% meira en í fyrra“ segir Daníel Jakobsson forstjóri Arctic Fish í tilkynningu fyrir fyrirtækinu.

Auglýsing

HVEST: vantar ekki í 79 stöðugildi

Lúðvík Þorgeirsson, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða.

Lúúðvík Þorgeirsson, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða segir að misskilnings gæti i frétt Bæjarins besta um skort á fólki í störf við Hvest. Vitnað er þar í þarfagreiningu Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða, dags. 26. febrúar 2025, vegna ívilnana námslána til að bregðast við skorti á heilbrigðisstarfsfólki og þarfa íbúa heilbrigðisumdæmisins fyrir heilbrigðisþjónustu skv. mati stjórnanda Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða.

flestar stöður mannaðar

„Það vantar ekki  79 stöðugildi á Heilbrigðisstofnun Vestfjarða. Þetta er í raun ítarleg greining stofnunarinnar á því hversu marga sérfræðinga við þurfum til að full manna sérfræðistörf innan stofnunarinnar. Flestar þessar stöður eru þegar mannaðar. Erindið sem vísað er til varðandi Ísafjarðabæ snýst um aðkomu sveitarfélagsins að ívilnun námslána fyrir sérfræðinga hjá stofnuninni.

Samkvæmt lögum og reglugerðum ber heilbrigðisstofnunum heilbrigðisumdæma að leggja mat á þörf íbúa heilbrigðisumdæmisins fyrir heilbrigðisþjónustu og leggja fram áætlun um hvernig þeim þörfum verður mætt.“

Tildrög málsins eru þau að Heilbrigðisráðuneytið hvatti heilbrigðisstofnanir til að hafa frumkvæði að samtali við sveitarfélögin sem tilheyra viðkomandi heilbrigðisumdæmi, um möguleika á ívilnunum, og vísaði til þeirra greininga og áætlana sem heilbrigðisstofnanir gera samkvæmt 16. gr. reglugerðar nr. 1111/2020.

verulegur skortur

Í bréfi Ísafjarðarbæjar dags. 28. apríl 2025 til Menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðuneytisins segir eftirfarandi:

Samkvæmt greiningu Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða (HVEST), dags. 26. febrúar 2025, er verulegur skortur á eftirfarandi heilbrigðisstéttum á svæðinu:
 Heimilislæknar: 5 stöðugildi
 Lyflæknar: 2 stöðugildi
 Skurðlæknir: 1 stöðugildi
 Geislafræðingar: 3 stöðugildi (70% starfshlutfall)
 Lífefnafræðingar: 3 stöðugildi
 Ljósmæður: 3 stöðugildi
 Hjúkrunarfræðingar -skurðhjúkrun: 4 stöðugildi
 Hjúkrunarfræðingar – svæfing: 2 stöðugildi
 Hjúkrunarfræðingar – heimahjúkrun, heilsugæsla, sjúkradeildir: 14 stöðugildi
 Hjúkrunarfræðingar – heilsugæsla/heimahjúkrun/stoðdeildir: 20 stöðugildi
 Hjúkrunarfræðingar – hjúkrunarheimili: 4 stöðugildi
 Sjúkraliðar – hjúkrunarheimili : 12 stöðugildi

Sálfræðingar: 3 stöðugildi
 Sjúkraþjálfarar: 3 stöðugildi
 Alls 79 stöðugildi
Þessi skortur hefur áhrif á getu HVEST til að veita örugga og stöðuga heilbrigðisþjónustu á
svæðinu, sem leiðir til skerts aðgengis íbúa að nauðsynlegri þjónustu. Ívilnanir til námsmanna
í viðeigandi greinum geta dregið úr þessum vanda og laðað að menntað starfsfólk til svæðisins.“

Auglýsing

Íslenska sem annað mál við Háskóla Íslands – vandað nám fyrir fólk á Vestfjörðum

Í tilkynningu frá Háskólasetri Vetsfjarða er bent á nám í íslensku sem öðru máli við HÍ-fjarnám sem ætti að henta fólk búsettu á Vestfjörðum. Umsóknarfrestur rennur út á þriðjudaginn kemur.

Samhliða þeim gríðarlegu lýðfræðilegu breytingum sem orðið hafa á íslensku samfélagi undanfarin ár eykst þörfin á góðu og fjölbreyttu námi í íslensku sem öðru máli. Góðu heilli er stígandi í þeim efnum. Möguleikunum fjölgar jafnt og þétt.

Einn liður í þeim möguleikum er nám í íslensku sem öðru máli við Háskóla Íslands. Er þar hvort tveggja í boði fjarnám sem og staðnám og mismunandi námsleiðir.

Þar ætti fjarnám vissulega að geta gagnast fólki sem búsett er á Vestfjörðum og hefir hug á því að læra íslensku á ítarlegan hátt.  Hafa og ófáir aðilar á Vestfjörðum til dæmis nýtt sér íslensku sem annað mál, hagnýtt nám -grunndiplóma – 60 einingar sem kennd er í fjarkennslu en einnig í staðkennslu fyrir sunnan.

Að því námi loknu ættu nemendur að geta verið ágætlega á veg komnir í máltileinkun sinni og grunnur kominn að því að notast eingöngu við íslensku í daglegum samskiptum. En eins og með allt í lífinu veltur það á iðjusemi og einurð viðkomandi. Alltént hafa margir sem útskrifuðust af brautinni lýst náminu sem stökkpalli í þessum efnum.

Á Ísafirði er Háskólasetur Vestfjarða er tengiliður nemenda og sér um prófahald og hagnýt mál. Auk þess er einn kennari deildarinnar, Ólafur Guðsteinn Kristjánsson, búsettur á Ísafirði og má leita til hans sé þörf þar á. Hann er allajafna í Háskólasetrinu.

Hér má endilega hvetja fólk til að kynna sér það sem er í boði. Það má gera með því að opna hlekkina hér fyrir neðan. Auk þess má hvetja fólk til að láta þá sem hafa hug á að læra málið vita af þessum möguleikum. Taka má og fram að mörg dæmi eru þess að fólk sinni náminu samhliða vinnu. Og þótt ekki sé endilega mælt með því þá auðnast sumum það ágætlega að samtvinna nám og vinnu.

Umsóknarfrestur er 20. maí fyrir umsækjendur sem eru búsettir á Íslandi og hafa íslenska kennitölu.

https://hi.is/islenskustod_grunndiploma

Íslenskustoð – Grunndiplóma | Háskóli Íslands

https://hi.is/islenska_sem_annad_mal

Íslenska sem annað mál

https://hi.is/islenska_sem_annad_mal_hagnytt_nam_grunndiploma

Íslenska sem annað mál, hagnýtt nám – Grunndiplóma

https://hi.is/grunnnam_islensku_og_menningardeild/inntokuprof_i_islenskustod_og_ba_nam_i_islensku_sem_odru_mali

Inntökupróf í Íslenskustoð og BA-nám í íslensku sem öðru máli

Auglýsing

Vestri körfuknattleiksdeild endurnýjan samning við Arnarlax

Arnarlax hefur endurnýjað samning sinn við Körfuknattleiksdeild Vestra til þriggja ára.  Arnarlax hefur verið einn af  lykil styrktaraðilum Körfuknattleiksdeildar Vestra undanfarin ár. Það er því gleðilegt að samstarfið mun halda áfram til næstu ára.

Körfuknattleiksdeild Vestra stefnir á að tefla fram meistaraflokki kvenna á næsta keppnistímabili og verður það rökrétt framhald af því góða starfi sem hefur verið í yngri flokka starfi félagsins.  Samningar eins og þessi eru gríðarlega mikilvægir svo að íþróttastarf eins og þetta sé mögulegt. Meistaraflokkur félagsins verður skipaður þeim leikmönnum sem eru í dag í elsta stúlknaflokki félagsins og þar með næst sú samfella sem er stefna félagsins. Þetta er sambærilegt við hvernig starf meistaraflokks karla er starfrækt í dag. 

Arnarlax er eitt af stærstu laxeldisfyrirtækjum landsins og er með sínar höfuðstöðvar og aðalstarfssemi á Vestfjörðum.  Fyrirtækið hefur lagt áherslu á að styðja við barna- og unglingastarf félagasamtaka á svæðinu.  Með þessum langtíma samningi við Körfuknattleiksdeild Vestra er félagið áfram að styðja við mikilvægt félagsstarf á starfssvæði sínu með áherslu á eflingu barna- og unglinga sem svo styrkir samfélagið í heild.

Auglýsing

Ísafjörður: eigið verk eða stolin mynd?

Mynd Hauks Sigurðssonar af Ísafirði.

Haukur Sigurðsson, ljósmyndari á Ísafirði vekur athygli á því að listamaðurinn Ingvar Thor Gylfason auglýsir til sölu nýtt verk eftir sig sem hann nefnir Ísafjörður.

Ingvar segir á Facebook að verkið hafi klárast hjá sér í beinu framhaldi af “Aldrei fór ég suður”. Segir hann að „Við hjónin eigum bæði ættir að rekja til Vestfjarða. Nánar til Ísafjörðs og Bíldudals. Íslenskara verður það ekki.“ Tölusett eftirprent séu í boði „. ef einhver vill hafa Ísafjörðinn fagra uppi á vegg hjá sér“.

Haukur birtir eigin ljósmynd af Ísafirði. Haukur segir um svör Ingvars: „Aðspurður segir hann málverkið innblásið af mörgum mismunandi ljósmyndum sem hann tók. Hann kannast samt ekkert við mína ljósmynd, og sér engin líkindi.“

Verkið sem auglýst er til sölu. Segir að verkið sé 100×140 cm, Olía.

Auglýsing

Illt er að kljást við kollóttan

Varðhundar stórútgerðanna á Alþingi hafa staðið í ströngu undanfarið og til að draga yfir sérhagsmunagæsluna og réttlæta málþófið hafa þeir borið fyrir sig hagsmuni landsbyggðar. það eru sannarlega nýjar fréttir fyrir okkur sem fylgst hafa með pólutíkinni í gegnum tíðina að flokkarnir sem staðið hafa með stórútgerðinni í blíðu og stríðu eins og í heilögu hjónabandi skuli nú hafa áhyggjur af afkomu landsbyggðar. Þarna er um flokka að ræða sem setið hafa við stjórnvölin á þessu djöflaskeri nánast allar götur frá lýðveldisstofnun og skipt með sér landsins gæðum og völdum í mesta bróðerni á tillits til ein eða neins. Það voru bara eigin og sérhagsmunir útvaldra sem réðu för – staða landsbyggðar hefur að líkindum aldrei verið þeirra hjartansmál.

Helmingaskiptaflokkarnir hafa ekki bara nánast verið einráðir á Alþingi svo lengi sem menn muna – þeir hafa einnig að mestu ráðið ferðinni í bæjar og sveitarstjórnum hringin í kringum landið. Fulltrúar í þeim hafa svo samþykkt allar tillögur sem frá félögum á þingi hafa komið er varðar landsbyggðina athugasemdalaust og án þess er virðist að íhuga á nokkurn hátt afleiðingarnar.

Nú hins vegar hafa fulltrúar nokkurra bæjarfélaga stigið fram til að lýsa áhyggjum sínum af hækkun veiðigjalda og mögulegum neikvæðum afleiðingum fyrir brotnar byggðir – sem hingað til hefur gleymst að taka tillit til í hrókeringum ýmsum – en nú eru allir virkjaðir til að verja þá stóru í nafni brotinna byggða – trúðarnir hafa verið trekktir upp og kjölturakkarnnir farnir að gjamma.

Ragnar Þór Ingólfsson þingmaður Flokks fólksins rifjaði upp á dögunum í facebookfærslu sem birtist í DV brot úr ræðu sem Sigurður Kári Kristjánsson hélt á landsfundi Sjálfstæðisflokksins árið 2009. Þar sagði Sigurður Kári: „Vilji Sjálfstæðisflokkurinn halda yfirráðum sínum yfir sjálvarauðlindinni, þá felur það í sér að flokkurinn vill standa utan Evrópusambandsins og því fagna ég.“

Og við eigum að trúa því að flokkurinn sá taki hagsmuni þjóðarinnar fram yfir sérhagsmuni eins og nú er látið í veðri vaka í yfirstandandi áróðursherferð.

Það er ekki hægt að kenna neinum um bágborið ástand á landsbyggðinni nema helmingaskiptaflokkunum sem nú virðast hafa gleymt aðkomu sinni að pólutíkinni hingað til – líklega vegna þess að hjá þeim ristir ábyrgðartilfinningin ekki svo djúpt né þá heldur siðferðið í vitundina

Ég veit að norðmenn furða sig á hversu fyrirhafnarlítið ránið var á gjöfulustu auðlind íslensku þjóðarinnar – þeir fagna því vissulega að rétt skuli hafa verið staðið að málum þegar olían fannst á þeirra landgrunni. Í þessum eðlislíku málum skiptu pólutískar ákvarðanir sköpum – annars vegar fyrir sérhagsmuni – hins vegar fyrir þjóðarhag.

Fróðlegt væri að vita hvað norðmönnum finnst um auglýsingar íslenskra stórútgerðamanna með einum af þeirra kunnasta leikara úr EXIT þáttunum. Þessar auglýsingar eru mjög svo á siðferðilegu lágu plani og það er með ólíkindum að enginn sem kom að gerð þeirra skuli hafa áttað sig á því. Norski EXITleikarinn er holdgervingur siðblindunnar í þeim þáttum og svo dúkkar hann upp í auglýsingu íslenskra auðmanna sem sams konar týpa.

Þessar auglýsingar eru óþægilegar vegna þess að þeir sem að þeim stóðu eru gríðalega valdamiklir í þjóðfélaginu.

Síðust daga hefur njósnamálið svokallaða verið til umræðu í fjölmiðlum. Þetta er alvarlegt mál og ber vott um vanhugsuð og óvönduð vinnubrögð eins og svo margt annað í þessu þjóðfélagi.

En þó þetta sé alvarlegt mál þá er það sem spörður í yfirfullum flór og það má velta fyrir sér hvers vegna það hafi verið dregið upp úr glatkistunni núna þegar af nógu er að taka sem nær er í tíma. Er kannski verið að reyna að beina athygli almennings í miðri auðlindagjaldaumræðunni að mögulegri spillingu innan lögreglunnar og þá í leiðinni að lögreglumönnunum sem nú tilheyra meirihlutanum á Alþingi ? 

Sjálfstæðismenn sumir hafa jú lýst því yfir opinberlega að þeir muni og ætli sér að vera duglegir við að minna þingmenn meirihlutans á þeirra aðild að spillingunni hér á landi og kannski að heimfæra eitthvað af sínu upp á þá. Þeir vita sjálfsagt manna best hvar sperðina er að finna í flórnum – það er hægt að verða samdauna eigin skítalykt en það gegnir öðru máli með annarra.

Þetta njósnamál mun ekki breyta miklu ef þá nokkru hvað varðar traust almennings á kerfinu – það hefur lengi verið lítið því það er löngu hætt að þjóna sínum rétta tilgangi hvar sem á það reynir.

Kerfið í heild sinni er orðið sem einn af mörgum samtryggingaklúbbum í landinu – sem hafa það eitt að markmiði að þjóna sérhagsmunaklíkum – það vita þeir sem lent hafa í því og orðið leiksoppar þess í áraraðir og jafnvel tugi.

Þeir eru orðnir margir til að mynda sem lent hafa illa í heilbrigðiskerfinu og ekki beðið þess bætur. Það er illt að lenda í því – lögfræðingar ráða jafnvel fólki frá því að fara í mál við það og margir þeirra eru tregir til að taka að sér mál því viðkomandi. Þetta er dapurleg staðreynd því hér er um að ræða kerfi sem við öll viljum geta treyst fullkomlega.

Það væri forvitnilegt að vita hversu mörg mál hafa dagað uppi í heilbrigðiskerfinu síðustu 20-30 árin og hversu mörg mál hafi verið afgreidd af lítilsvirðingu gagnvart þolendum og hvað tekið hafi langan tíma að meðaltali að afgreiða þau mál sem fengið hafa afgreiðslu.

Það er ekki hægt að ætlast til að fólk treysti velferðarkerfinu að óbreyttu.

Velferðarkerfið var byggt upp til að þjóna almenningi og verja í ágjöf – en þegar á reynir er þar ekki annað að finna en veruleikafirringu, skilningsleysi og meðvirkt óréttlæti. Það er ekki hlustað á fólk því fyrirfram er búið að ákveða að það sé ómarktækt – þar af leiðandi fær það ekki tækifæri til að verja sig og sinn hag – því er bara þröngvað út í horn og settir afarkostir – kannski eftir baráttu sem yfirtekið hefur stóran hluta lífs þess.

Velferðarkerfið er í raun óvirkt eftir áratuga ágang sérhagsmunaafla að vanhæfu starfsfólki þess – „rétt“ ættuðu, „rétt“ tengdi og „rétt trúuðu.“

Umræðan um auðlindagjöldin hefur varpað ljósi á forherðingu spillingarinnar – henni hefur tekist að hreiðra vel um sig á þessu volaða skeri því aðhaldið hefur verið lítið. 

Erum við heimskari en aðrar þjóðir ? Erum við kannski þess vegna ofurseld spillingaröflum eða er það atgervisflótti sem veldur ?

Við höfum verið að missa menntunina úr landi – menntafólkið okkar segist búið að fá nóg af vitleysunni hér sem bjóði ekki upp á neitt annað en skuldsetningu og þrældóm – svo flótti er eina leiðin fyrir marga. Þar glötum við þekkingunni sem ætti að hafa getuna til að lesa í aðstæður áður en yfir er vaðið. útverðirnir yfirgefa landið.

Það er reynt að láta allt líta vel út á yfirborðinu – glansmyndum er otað að almenningi sem sýna alltígúddífólkið í koktelboðum hjá hvert öðru – Smartland segir svo frá hvað spjarirnar þeirra og fylgihlutir hafi kostað margföld mánaðarlaun verkamanns. Þetta eru kannski lífsbætandi upplýsingar fyrir einhverja en staðfesting á veruleikafirringu fyrir aðra – firringu sem sumir kjósa að halda dauðahaldi í til að þurfa ekki að horfast í augu við dapran veruleika sem víða blasir við.

Það er þó hægt að fagna því að verkalýðshreifingin skuli loks vöknuð eftir langan svefn – hún mun veita aðhald en það þarf meira að koma til – það þarf almenna vakningu.

Það verður ekki við það unað að bjargirnar sem almenningur á að geta treyst á séu misnotaðar af öflum sem vilja allt annað en vel – þannig að öryggisnet kerfisins verði sem köngulóarvefir sem ómögulegt getur reynst að losna úr. Eftir grimma sjúkdómavæðingu til margra ára sitja því miður margir fastir í vefnum – þeim er síðan mörgum gert að lifa eftir frelsisskerðandi skilyrðum félagsþjónustunnar – sem er auðvitað ekkert annað en kúgun.

Það er ekki traustvekjandi þegar ráðamenn afneita ástandinu með því að lýsa því yfir ítrekað opinberlega að kerfin okkar séu góð og betri en víðast hvar annars staðar – því við vitum flest að það er ekki rétt.

Íslenska dómskerfið til að mynda er ekki ætlað almenningi – það er sem sniðið fyrir þá efnameiri – orða þeirra virðast alltaf vega þyngra á vogaskálum réttlætisins fyrir íslenskum dómstólum. Félagsþjónustan er svo eins og betrunarhæli fyrir afbrotafólk – þar sem sjálfsmynd fólks í veikri stöðu er rifin niður og það smættað. Heilbrigðiskerfið er verst af öllu vondu – í því mætir fólk á sínum viðkvæmustu augnablikum of oft yfirlæti og lítilsvirðingu svo því langar einna helst að biðjast afsökunar á tilveru sinni.

Kerfin okkar sem eiga að hafa bjargráðin og tryggja almenningi réttlæti og sanngirni gera ekkert annað en að draga fólk niður og eða á asnaeyrunum með innantómum loforðum. Það er ekki nema von að þjóðin sé þunglynd þegar fólk er alls staðar farið að upplifa sig sem aukaatriði.

Heilbrigðiskerfið er í miklum vanda er kemur að vinnubrögðum – sumt er að þeim snýr er lyginni líkast – því er brýnt að hlustað sé á þá sem reynt hafa og þeim trúað svo ráða megi bót á.

Nú kunna einhverjir að halda að ég sé mikil bölsýnismanneskja – en það er ég ekki – ég hef aðeins með skrifum mínum verið að reyna að varpa ljósi á þá veggi sem ég hef verið að ganga á síðustu 20 árin eða svo og þann „félagsskap“ sem þá reisti.

Ég reyni enn að halda í vonina um betri tíð með blóm í haga og að það muni á endanum verða pláss fyrir okkur öll sólarmegin í lífinu.

Lifið heil !

Vilhelmína H. Guðmundsdóttir

Lífsreyndur eldri borgari.

Auglýsing

Hrafnreyður KÓ 100 áður Valur ÍS 18

1324. Hrafnreyður KÓ 100 ex Valur ÍS 18. Ljósmynd Jón Páll Ásgeirsson 2013.

Hrefnubátnum Hrafnreyður KÓ 100 er hér á mynd sem Jón Páll Ásgeirsson tók á miðunum sumarið 2013.

Báturinn var smíðaður hjá Vélsmiðju Seyðisfjarðar hf. árið 1973 og er 101 brl. að stærð. Hann hét upphaflega Ottó Wathne NS 90 og var í eigu Gyllis hf. á Seyisfirði.

Ottó Wathne NS 90 var seldur til Hornafjarðar árið 1981 þar sem hann fékk nafnið Bjarni Gíslason SF 90. 

Árið 2005 var báturinn seldur til Vestmannaeyja og varð Bjarni Gíslason VE 30, 2007 fékk hann nafnið Valur ÍS 18, heimahöfn Súðavík. 

Árið 2010 fékk hann að nafn sem hann ber á myndinni, Hrafnreyður KÓ 100. Stundaðar voru hrefnuveiðar á bátnum en í júní 2018 hóf hann veiðar á sæbjúga.

Sumarið 2019 fékk báturinn fékk nafnið Halla ÍS 3 með heimahöfn á Flateyri.

Báturinn var seldur úr landi sumarið 2021.

Af skipamyndir.com

Auglýsing

Verð á matvöru hækkar samkvæmt mælingum Verðlagseftirlits ASÍ

Verðlag á dagvöru hækkaði um 0,61% milli mars og apríl samkvæmt dagvöruvísitölu ASÍ. Var það þriðji mánuðurinn í röð þar sem verðlag á matvöru hækkaði um meira en hálft prósent, sem er meðalhækkun á matvöru undanfarið ár og jafngildir 6% ársverðhækkun. Þó er útlit fyrir að hækkanirnar séu að dragast saman að magni og umfangi.

Áhrifin eru að mestu rekjanleg til tveggja þátta. Sá fyrri er hækkun á verðlagi innlendra vörumerkja, en það hefur frá áramótum hækkað mun hraðar en verðlag erlendra vörumerkja. Munurinn á hækkunartaktinum var mestur í janúar og febrúar.

Síðari þátturinn er slaknandi verðaðhald hjá Nettó og Kjörbúðinni, sem hafa haldið aftur af verðhækkunum frá miðju síðasta ári en hafa gefið eftir frá áramótum.

Auglýsing

Nýjustu fréttir