Lögreglan á Vestfjörðum greinir frá því að við eftirlit lögreglu i gærkvöldi hafi vaknað grunur um mögulega dvöl fólks í íbúðarhúsum í eldri byggð Súðavíkur, þar sem dvöl er óheimil frá 1. nóvember til og með 30. apríl ár hvert.
Lögregla kannaði málið og fékkst staðfest að fólk héldi til í nokkrum húsanna, sumt með vitneskju um kvöð þá sem bannið byggir á.
Lögreglan segir slíkt verði að teljast ansi bagalegt, ekki síst þar sem ekki er alltaf öruggt að tíðin sé jafn góð og hún hefur verið síðustu vikur. Minnir lögreglan á að slíkar kvaðir eru til staðar víðar á Vestfjörðum en þær eru einmitt settar í þeim tilgangi að tryggja öryggi og auðvelda viðbragð almannavarna.
Bæjarins besta innti lögregluna eftir því hvort hún gæti ekki rýmt viðkomandi íbúðar og fékk þau svör að því miður eru þessar kvaðir sem settar voru á þessi hús, sem keypt voru upp, þannig úr garði gerðar að „við getum ekki beitt valdi eða viðurlögum við að rýma húsin, nema það hafi verið sett á hættu- eða neyðarstig almannavarna. Dagsetningarnar sem fram koma í kvöðunum, um að óheimilt sé að dvelja í þeim, frá 1. nóv. til 1. maí, duga ekki til þess.“
Helgi Jensson, lögreglustjóri segir í svarinu að „Við höfum reynt að ræða við þá sem þarna virðast dvelja, en sumir þeirra hafa áttað sig á stöðunni og vilja ekkert við okkur tala. Engin vöktun veðurstofunnar á svæðinu, vegna þess að þar er óheimilt að vera og þar á enginn að vera og því er hæpið að það verði almennt gefið út almannavarnarstig, vegna svæðisins.
Það er mjög bagalegt fyrir lögregluna að þurfa að eyða tíma sínum á hættutímum í að hafa áhyggjur af þessu svæði, þegar nóg annað er að gera. Siðferðislega, m.t.t. þess sem þarna gerðist og vegna þess að húsin hafa verið bætt, finnst mér þetta líka algerlega óforsvaranlegt.
Við höfum bent á þetta innan stjórnsýslunnar, til að þrýsta á um lagabreytingar, til þess að við getum framfylgt þessum kvöðum, en það gengur hægt.“