Mánudagur 19. maí 2025

Vegagerðin fær aukafjárveitingu

Í frumvarpi til fjáraukalaga sem kynnt var í ríkisstjórn í síðustu viku er gert ráð fyrir þriggja milljarða króna aukafjárveitingu til Vegagerðarinnar.

Vegagerðin hafði því óskað eftir aukafjárveitingu og unnar voru nokkrar sviðsmyndir miðað við mismunandi upphæðir. Fyrir þrjá milljarða er mikið hægt að gera. Til dæmis væri hægt að byggja upp 50 km af vegum í stað 30 km eins og verið hefur undanfarin ár.

Þessi aukafjárveiting verður fyrst og fremst nýtt í endurbyggingu vega og endurnýjun slitlaga þar sem viðhaldsástand er hvað verst.

Vegagerðin áætlar að láta malbika þekkta blæðingakafla, svo sem hluta af Bröttubrekku fyrir vestan og Bakkaselsbrekku fyrir norðan. Umræddir vegir eru með bundnu slitlagi sem kallast klæðing, sem þolir illa mikla og þunga umferð.

Með auknu fjármagni  verður einnig hægt að fara í fjölmörg brýn styrkingarverkefni þar sem sérstök áhersla verður lögð á Vesturland þar sem burður vega er á köflum afar bágborinn.

Þá verður lögð áhersla á endurnýjun bundinna slitlaga, sérstaklega á Suðurlandi. Með auknu fjármagni til viðhalds bundinna slitlaga munu vegfarendur ekki einungis verða varir við greinilegar umbætur á vegakerfinu, heldur stuðla aðgerðirnar einnig að því að hægja á niðurbroti samgöngukerfisins til lengri tíma.

Þau verkefni við styrkingar og endurbyggingu vega sem hér eru nefnd voru tilbúin til útboðs en hefðu ekki verið boðin út á þessu ári nema með tilkomu þessarar aukafjárveitingar.

Auglýsing
Auglýsing

Nýtt á BB

Auglýsing

Fleiri fréttir