Gott gengi Vestra í Bestu deild karla hélt áfram um helgina. Afturelding frá Mosfellsbæ kom í heimsókn. Vestri hagaði leik sínum eins og í fyrri leikjum, lék vel skipulagðan varnarleik og sótti hratt þegar færi gafst. Þessi leikaðferð skilaði góðum árangri. Þrátt fyrir að Afturelding hafi verið meira með boltann og sótt nokkuð fékk liðið fá færi til að skora, en Vestri nýtti hraðar sóknir og gerði usla í vörn Mosfellinganna og skoraði tvö mörk, þar fyrra eftir að vítaspyrna var dæmd.
Var niðurstaða leiksins fyllilega verðskulduð og með sigrinum hélt Vestri 2. sætinu í deildinni eftir 6 umferðir. Reyndar hefur ekkert lið fengið fleiri stig en Vestri. Breiðablik og Víkingur hafa jafnmörg stig og Vestri eða 13.

Arnór Borg Guðjohnsen skorar seinna mark Vestra.