Miðvikudagur 21. maí 2025
Heim Blogg

Vesturbyggð: Raknadalshlíð fari inn á samgönguáætlun

Staparnir í Patreksfirði eru innan Raknadalshlíðar. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Heimastjórn fyrrum Barðastrandarhrepps og Rauðasandshrepps leggur til við bæjarstjórn Vesturbyggðar að beita sér fyrir því að vegurinn um Raknadalshlíð í Patreksfirði fari inn á samgönguáætlun með það að markmiði að auka umferðaröryggi um veginn.

Í bókun heimstjórnarinnar segir að þar sé „snjóflóðahætta og grjóthrun og auk annarra vegfarenda er skólabörnum frá Barðaströnd ekið um veginn daglega á skólatíma. Brýnt er að auka öryggi vegfarenda með vegskápum, vegriðum og/eða að færa veginn neðar í hlíðina eða með öðrum útfærslum sem tryggja öryggi sem best.“

Einnig telur heimastjórnin mjög áríðandi að setja vegrið á veginn um Kleifaheiði til að bæta öryggi vegfarenda þar, sérstaklega þar sem veghalli er ekki réttur.

Þá sé á báðum leiðum mjög mikilvægt að bæta fjarskiptaöryggi eins og kemur fram í bókun heimastjórnar Patreksfjarðar frá 05.02.2025 auk bókunar bæjarstjórnar Vesturbyggðar. Heimastjórn fyrrum Barðastrandarhrepps og Rauðasandshrepps tekur undir báðar þessar bókanir.

Auglýsing

Jóhann Birkir: erum tilbúin að hjálpa Í listanum

Jóhann Birkir Helgason, bæjarfulltrúi.

Jóhann Birkir Helgason, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokks í Ísafjarðarbæ var að ljúka fundi í kvöld með baklandi D listans í bæjarstjórn. Sagði hann að D listinn væri opinn fyrir öllum möguleikum og tilbúinn í viðræður. „Menn þurfa að vera sanngjarnir og við erum tilbúin til að hjálpa Í listanum og erum ekki með sérstakar kröfur af okkar hálfu.“

Jóhann sagði að ekki þyrfti endilega að ráða nýjan bæjarstjóra og borga biðlaun þetta ár sem eftir er af kjörtímabilinu. „Við viljum vinna áfram eftir okkar stefnu og vinna að fjármálum bæjarins.“

Jóhann sagðist aðspurður hafa heyrt í Þorbirni H. Jóhannesson og Kristjáni Kristjánssyni,oddvita Framsóknarflokksins og menn þyrftu að vera búnir að ná niðurstöðu fyrir vikulokin.

Auglýsing

Hafsjór af lykkjum

Hafsjór af lykkjum er klassísk og falleg prjónabók í stærðum fyrir karla, konur og börn og eru höfundar bókarinnar Lotte Rahbek og Gitte Verner Jensen.

Hér er að finna 23 einfaldar og stílhreinar uppskriftir, flestar að peysum en einnig að ýmsum öðrum flíkum og fylgihlutum, til dæmis húfu, sjali og barnateppi, sem koma sér vel bæði á sjó og landi. Flíkurnar eru í senn praktískar, hlýjar og fallegar.


Í bókinni eru fjölmargar gamlar ljósmyndir af sjómönnum og öðru fólki sem vann ýmist á sjó eða landi við fisksölu, netagerð og margt fleira sem tengdist sjósókn.

Það eru einmitt þessar myndir og stemningin í kringum sjómennskuna hér áður fyrr sem höfundarnir túlka í hönnun uppskriftanna og birtast ekki síst í litavali og margskonar munstrum.

Auglýsing

Bátahátíð á Breiðafirði 5 júlí

Félag áhugamanna um Bátasafn Breiðafjarðar á Reykhólum (FÁBBR) í samvinnu við Báta- og hlunnindasýninguna á Reykhólum (BogH), gengst nú fyrir bátahátíð á Breiðafirði þann 5 júlí nk.

Allir bátar (ekki bara súðbyrðingar) eru velkomnir og við viljum hvetja sem flesta til að nýta sér þetta tækifæri til siglingar um þetta fallega umhverfi.

Í ár er gert ráð fyrir þægilegri og stuttri dagleið þannig að litlir bátar ættu ekki að eiga í neinum vandræðum að taka þátt.

Áætlunin er að sigla til Akureyja en Akureyjarbændur, Lilja Gunnarsdóttir og Birgir Bjarnason hafa verið svo vinsamleg að bjóða bátafólkið velkomið að stíga á land og skoða sig um.

Föstudagur 4. Júlí. Safnast saman.

Þáttakendur safnast saman á Reykhólum á föstudaginn 1 júlí. Flóð er um kl. 14:15 og þá er gott að setja bátana niður í höfninni á Reykhólum, þaðan sem farið verður í siglinguna daginn eftir.

Laugardagur 5. Júlí.

Á laugardagsmorgun verður haldið frá Reykhólum um kl. 10. Háflóð á laugardag, er um kl. 15:30. Gera má ráð fyrir að ferðin taki um 6-8 klst.

Auglýsing

Bikblæðingar víða

Vegagerðin biður ökumenn um að sýna aðgát á vegum landsins vegna bikblæðinga.

Hitabylgjan á landinu veldur því að víða er malbikið að losna.

Bikblæðinga hefur orðið vart víða á landinu. Tilkynningar hafa borist úr Borgarfirði, af Bröttubrekku, norðan Búðardals, á sunnanverðum Vestfjörðum, við Víðigerði, við Vatnsdalshóla, á Öxnadalsheiði, á Ólafsfjarðarvegi á Víkurskarðsvegi, Aðaldalsvegi, á Mývatnsöræfum, á Fagradal, Fjarðarheiði og við Kerið.

Vegagerðin biður vegfarendur um að sýna aðgát og að draga úr hraða.

Auglýsing

Í listinn: vonast til að halda áfram lítið breyttu starfiÍs

Bæjarfulltrúar Í listans eftir kosningarnar 2022.

Í tilkynningu frá Í listanum segir að það sé leiðinlegt að Þorbjörn vilji ekki áfram styðja Í-listann í bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar.

„Samstarfið við hina flokkana hefur gengið mjög vel allt þetta kjörtímabil. Við erum að skila frábærum rekstri og ná árangri í verkefnum okkar.

Lítill málefnalegur ágreiningur hefur verið milli flokka og þar sem hann hefur verið hafa náðst málamiðlanir. Í bæjarstjórastólnum hafa tveir fyrstu kvenbæjarstjórar sveitarfélagsins setið og verið farsælar í starfi.

Þar sem varamaður Þorbjörns er í Í-listanum yrði nýr meirihluti fallvaltur og því vonumst við til þess að halda áfram lítið breyttu starfi fram að kosningum. Samtalið við hina flokkana um framhaldið er á byrjunarstigi.“

Auglýsing

Hafís aðeins 28 sjómílur frá landi

Hafískort dregið eftir myndum AVHRR gervitunglsins frá 19. maí 2025. Ísinn var nokkuð gisinn og meginísröndin var næst landi um 28 sjómílur norður af Hælavíkurbjargi.

Stakir jakar geta þó leynst nær landi.

Það er sunnan og suðvestanáttin undanfarna daga sem hefur fært hafísinn nær

Það er útlit fyrir breytilega átt svæðinu næstu daga, suðvestlæg átt ætti þó að vera ríkjandi en í lok vikunnar snýst líklega í norðaustanátt.

Auglýsing

Ísafjarðarbær: meirihlutinn fallinn

Meirihluti Í listans í Ísafjarðarbæ er fallinn. Þorbjörn H. Jóhannesson staðfesti það í samtali við Bæjarins besta.

Í yfirlýsingu frá honum segir:

„Eftir mikla yfirsetu og hugsun, og vegna framkomu sumra Í lista samstarfsmanna við mig sem hefur verið þannig , að ég hef ákveðið að hætta frá og með deginum í dag, að styðja þennan meirihluta, Í listann í bæjarstjórn, en kem til með að styðja áfram góð málefni.“

Þorbjörn tók sæti í bæjarstjórninni sem aðalmaður þegar Arna Lára Jónsdóttir tók sæti á Alþingi og sagði af sér sem bæjarfulltrúi í kjölfarið.

Auglýsing

Farþegabátur í Djúpinu tók niðri -engin hætta

Frá Ögri. Myndin er frá 1991. Mynd: Mats Wibe Lund.

Tvær þyrlur Landhelgisgæslunnar, áhöfnin á TF-SIF eftirlitsflugvél Landhelgisgæslunnar, sjóbjörgunarsveitir á Vestfjörðum og áhöfnin á varðskipinu Þór voru kallaðar út laust fyrir klukkan 12 í kjölfar þess að skipstjóri farþegaskips hafði samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar á uppkallsrásinni VHF 16 og tilkynnti að báturinn hefði tekið niðri í Ísafjarðardjúpi, út af Ögri.

47 eru um borð í bátnum en engar tilkynningar hafa borist um slys á fólki né verið tilkynnt um að leki hafi komið að honum. Sjólag á vettvangi er með besta móti en mikil þoka.

Vegna fjölda farþega um borð í skipinu var hópslysaáætlun virkjuð og óskað eftir því að samhæfingarstöð almannavarna yrði mönnuð.

Í tilkyningu frá Landhelgisgæslunni segir að á þessari stundu sé unnið að skipulagi þess að koma farþegum frá borði áður en reynt verður að koma skipinu á flot.

Uppfært kl 12:58. Lögreglan á Vestfjörðum upplýsir að enginn sé í hættu og hefur þjónustubátur frá fiskeldisfyrirtækinu Háafelli, sem var skammt frá, auk björgunarbátanna Kobba Láka frá Bolungarvík, Gísla Jóns frá Ísafirði og Svans frá Súðavík farið á vettvang og hefur farþegabáturinn verið tekinn í tog.

Frá aðgerðunum í dag.

Myndir: Landsbjörg.

Auglýsing

Brjánslækur: leitað að bát

Brjánslækur.

Þyrlusveit Landhelgisgæslunnar auk sjóbjörgunarsveita Slysavarnafélagsins Landsbjargar á Patreksfirði, Grundarfirði, Rifi og Stykkishólmi voru kallaðar út á öðrum tímanum í nótt í kjölfar þess að staðsetningarmerki fiskibáts bárust ekki lengur stjórnstöð Landhelgisgæslunnar í Skógarhlíð. Að auki svaraði eigandi bátsins ekki köllum Landhelgisgæslunnar í gegnum talstöð og ekki náðist í viðkomandi í síma.

Varðstjórar í stjórnstöð Landhelgisgæslunnar óskuðu eftir því að bátar í grenndinni héldu á vettvang til að svipast um eftir bátnum sem saknað var auk þess sem sjófarendum á norðanverðum Breiðafirði var tilkynnt um leitina á rás 16.

Síðasta þekkta staðsetning bátsins var um 5,6 sjómílur suðaustur af Brjánslæk. Fyrsti bátur sem kom á leitarsvæðið sá ekki til fiskibátsins en skyggni til leitar var slæmt á Breiðafirði sökum þoku.

Landhelgisgæslan óskaði einnig eftir því við lögregluna á Vestfjörðum að kanna hvort báturinn kynni að vera kominn til hafnar þrátt fyrir að slíkar upplýsingar hefðu ekki borist stjórnstöð Landhelgisgæslunnar.

Laust fyrir klukkan þrjú kom í ljós að báturinn sem leitað var að var kominn til hafnar á Brjánslæk og var leit þá afturkölluð.

Landhelgisgæslan áréttar mikilvægi þess að sjófarendur tilkynni sig úr höfn við brottför, hlusti vel á rás 16 og fari vel yfir virkni þess öryggisbúnaðar sem um borð er. Einnig er mjög mikilvægt að sjómenn tilkynni um breytt símanúmer um borð.

Auglýsing

Nýjustu fréttir