Heimastjórn fyrrum Barðastrandarhrepps og Rauðasandshrepps leggur til við bæjarstjórn Vesturbyggðar að beita sér fyrir því að vegurinn um Raknadalshlíð í Patreksfirði fari inn á samgönguáætlun með það að markmiði að auka umferðaröryggi um veginn.
Í bókun heimstjórnarinnar segir að þar sé „snjóflóðahætta og grjóthrun og auk annarra vegfarenda er skólabörnum frá Barðaströnd ekið um veginn daglega á skólatíma. Brýnt er að auka öryggi vegfarenda með vegskápum, vegriðum og/eða að færa veginn neðar í hlíðina eða með öðrum útfærslum sem tryggja öryggi sem best.“
Einnig telur heimastjórnin mjög áríðandi að setja vegrið á veginn um Kleifaheiði til að bæta öryggi vegfarenda þar, sérstaklega þar sem veghalli er ekki réttur.
Þá sé á báðum leiðum mjög mikilvægt að bæta fjarskiptaöryggi eins og kemur fram í bókun heimastjórnar Patreksfjarðar frá 05.02.2025 auk bókunar bæjarstjórnar Vesturbyggðar. Heimastjórn fyrrum Barðastrandarhrepps og Rauðasandshrepps tekur undir báðar þessar bókanir.