Fimmtudagur 15. maí 2025
Heim Blogg

Grásleppan komin í nefnd

Lilja Rafney Magnúsdóttir, alþm.

Lilja Rafney Magnúsdóttir, alþm mælti á þriðjudaginn á Alþingi fyrir frumvarpi meirihluta atvinnuveganefndar um veiðistjórn grásleppu.

Í frumvarpinu er lagt til að falla frá aflamarksstjórn á grásleppuveiðum, sem Alþingi samþykkti í fyrra og verður stjórnunin færð til fyrra horfs.

Tekin verði upp veiðistýring með útgáfu leyfa sem bundin eru við þá aðila sem veiðar stunduðu á tilteknu árabili. Ákvörðun um fjölda veiðidaga taki þá mið af leyfilegum heildarafla, þátttöku í veiðunum og þróun veiða á fyrstu vikum vertíðar. Frumvarpinu er ætlað að tryggja möguleika sjómanna til veiða sem stundað hafa þessar veiðar um árabil en hafa flestir ekki aflaheimildir í öðrum fisktegundum. Veiðarnar myndu því takmarkast við ákveðna stærð báta sem tryggir tilveru smærri útgerða og hinna dreifðu sjávarbyggða.

Flutningsmenn segja í greinargerð að grásleppuveiðar hafi ekki ógnað grásleppustofninum með nokkrum hætti sé litið til vísindalegrar veiðiráðgjafar Hafrannsóknastofnunar, enda hafi veiði nánast öll árin verið vel innan ráðgjafar stofnunarinnar. Frumvarpið falli því vel að markmiðum um verndun og hagkvæma nýtingu nytjastofna á Íslandsmiðum.

Töluverðar umræður urðu um frumvarpið við fyrstu umræðuna og lögðust þingmenn stjórnarandstöðunnar sem til máls tóku gegn frumvarpinu. Töldu þeir að nauðsynlegur fyrirsjáanleiki í útgerðinni væri ekki með stjórnun í fjölda veiðidaga og fleiri atriðum.

Stjórn grásleppuveiðanna í ár hefur verið með nýja sniðinu og kvótasetningunni en verður horfið frá því fyrir næstu vertíð ef frumvarpið verður að lögum.

Að umræðunni lokinni var málinu vísað til atvinnuveganefndar.

Auglýsing

Hvers vegna var Úlfar rekinn?

Fyrirvaralaust var Úlfar Lúðvíksson, fyrrverandi lögreglustjóri á Suðurnesjum, boðaður á fund Þorbjargar S. Gunnlaugsdóttur, dómsmálaráðherra og þingmanns Viðreisnar, í fyrradag þar sem honum var tilkynnt að ráðningarsamningur við hann yrði ekki endurnýjaður þegar hann rynni út í haust og að embættið yrði auglýst til umsóknar. Úlfari var ekki greint frá því fyrir fundinn hvert tilefni hans væri. Haft var eftir ráðherranum í fjölmiðlum að ákvörðunin hefði verið pólitísks eðlis.

„Fyrirhugaðar eru töluverðar breytingar á embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum sem eru í samræmi við áherslur nýrrar ríkisstjórnar um verulega aukinn þunga í landamærapólitík. Það liggur fyrir að ég mun leggja fram frumvarp í haust um brottfararstöð. Það eru sömuleiðis fyrirhugaðar breytingar um það að flytja komustöð svokallaða til Suðurnesja. Samhliða því að það er verið að skoða alvarlega að flytja ákveðin verkefni frá Ríkislögreglustjóra til lögreglustjórans.“

Með þessum hætti rökstuddi Þorbjörg ákvörðun sína um að segja Úlfari upp störfum í samtali við Vísi í gær sem er áhugavert í ljósi þess að hann hefur sjálfur ítrekað kallað eftir því í fjölmiðlum að stjórnvöld tækju landamæraeftirlitið fastari tökum og bent á brotalamir í þeim efnum. Bæði í tíð núverandi og síðustu ríkisstjórnar. Þá hefur ítrekað verið fjallað í fjölmiðlum um aukinn árangur lögreglunnar á Suðurnesjum til að mynda varðandi brottvísun erlendra afbrotamanna.

Fyrir vikið hefði mátt ætla að áframhaldandi störf Úlfars féllu einkar vel að áðurnefndum áherzlum dómsmálaráðherra og þær þar af leiðandi miklu fremur rök fyrir því að endurnýja ráðningarsamning hans frekar en að segja honum upp. Hins vegar hefur Úlfar einnig bent á ýmsar brotalamir varðandi aðild Íslands að Schengen-svæðinu. Sú gagnrýni fellur vitanlega illa að stefnu Viðreisnar um að gengið verði í Evrópusambandið en eins og ráðherrann sagði var ákvörðunin pólitísk.

Fyrir skömmu ritaði Guðni Ágústsson, fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins, grein í Morgunblaðið þar sem hann gagnrýndi aðildina að Schengen-svæðinu og vitnaði í nýleg ummæli Úlfars í Dagmálum um grafalvarlega stöðu mála á landamærunum að öðrum aðildarríkjum þess. Meðal annars þau ummæli að stjórnvöld yrðu að vakna í þeim efnum. „Viðtalið við lögreglustjórann er nánast samfellt neyðaróp. Ákall til stjórnmálamanna um að grípa í taumana.“

„Ég skora á dómsmálaráðherra að skoða þá fullyrðingu Úlfars Lúðvíkssonar lögreglustjóra að herða verði löggjöfina á landamærum,“ sagði Guðni áfram. Þorbjörg svaraði á síðum Morgunblaðsins og sagði áhyggjur Guðna ástæðulausar. Taldi hún síðan upp mál sem hún væri með í gangi en eiga það flest sameiginlegt að hafa átt upphaf sitt í tíð forvera hennar. Til að mynda brottfararstöð og hælissvipting vegna alvarlegra afbrota. Réttum tveimur vikum síðar rak hún Úlfar.

Hjörtur J. Guðmundsson er sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur

Auglýsing

Aðgerðabáturinn Óðinn

Óðinn er tíu metra langur strandgæslubátur sem smíðaður er af fyrirtækinu Rafnar ehf. Hann var afhentur Landhelgisgæslunni sumarið 2015.

Um er að ræða byltingarkennda bátasmíði sem byggir á nýrri hönnun á þessari tegund báta. Báturinn hefur mikla þýðingu fyrir Landhelgisgæsluna og eykur möguleika hennar á að sinna fjölbreyttum verkefnum sínum.

Þróun bátsins hófst árinu 2011 í samvinnu við Landhelgisgæsluna en báturinn er sérsmíðaður og sérstaklega hannaður eftir þörfum Landhelgisgæslunnar. Frumútgáfur bátsins voru í prófunum í þrjú ár við margvíslegar aðstæður og hefur báturinn reynst afar vel.

Með tilkomu Óðins í flota Landhelgisgæslunnar hafa möguleikar hennar aukist á að sinna fjölmörgum verkefnum og staðbundnu eftirliti á hagkvæmari og fljótlegri hátt en á stærri skipum. Báturinn eykur meðal annars stórlega möguleika Landhelgisgæslunnar til öryggis- og löggæslu á grunnslóð. Þá eru kostir bátsins miklir þegar kemur að æfingum með þyrluáhöfnum Landhelgisgæslunnar sem og varðskipum og öðrum björgunareiningum í landinu.

Báturinn nýtist einnig sem aðgerðabátur sprengju- og séraðgerðasveitar Landhelgisgæslunnar sem og í margvísleg löggæslu- og eftirlitsverkefni og önnur sérverkefni. Bátur af þessari stærðargráðu er hagkvæm eining bæði til eftirlits og þjálfunar og gerir Landhelgisgæslunni kleift að skipuleggja betur nýtingu báta og varðskipa og bregðast við aðstoðarbeiðnum á grunnslóð með skjótari hætti.

Óðinn er í umsjá sprengjueyðingar- og séraðgerðasveitar Landhelgisgæslunnar.

Af vefsíðunni lhg.is

Auglýsing

Spáð er blíðviðri um allt land næstu daga

Það lítur svo sannarlega vel út með veðrið næstu daga. Samkvæmt spá Veðurstofunnar verður mjög gott veður um helgina og hægt að segja að það verði blíðviðri um allt land.

Hlýindi, birta og lítill vindur. 

Samkvæmt vef verðurstofunnar er mesta hitanum er spáð á Austurlandi, 20 stigum síðdegis á laugardag en sólríkt og bjart um allt land. Meðal annars 16 stigum á höfuðborgarsvæðinu og 18 stigum á Borgarfjarðarsvæðinu. Á Vestfjörðum má búast við 14-16 stiga hita.

Á fimmtudag:
Suðlæg átt, víða 3-8 m/s, léttskýjað og hiti 16 til 22 stig, en suðaustan 8-13, dálítil væta öðru hvoru og hiti 10 til 16 stig vestantil.

Á föstudag:
Hæg suðlæg eða breytileg átt, en að 8 m/s suðvestanlands. Yfirleitt bjart, en sums staðar þokuloft við ströndina. Hiti 8 til 20 stig, hlýjast fyrir norðan.

Á laugardag, sunnudag og mánudag:
Hægir breytilegir vindar, bjartviðri og hlýtt, en sums staðar þoka og heldur svalara við sjávarsíðuna.

Auglýsing

Stjörnu-Sævar með erindi um sólmyrkva

Sævar Helgi Bragason, jafnan þekktur sem Stjörnu-Sævar, heldur erindi í Skjald­borg­ar­bíói á Patreksfirði í dag miðviku­daginn 14. maí kl. 20:00.

Síðdegis miðvikudaginn 12. ágúst 2026 munu allra augu beinast til himins. Þá verður almyrkvi á sólu, eitt allra glæsilegasta sjónarspil náttúrunnar.

Á jörðinni er myrkvinn lengstur á landi í Vesturbyggð svo búast má við að talsverður fjöldi fólks leggi leið sína hingað til að fylgjast með. Í erindinu segir Sævar Helgi Bragason frá almyrkvanum og hvernig hægt er að fylgjast með honum á öruggan hátt.

Aðgangur er ókeypis og hentar bæði krökkum og fullorðnum.

Sævar verður með sólmyrkvagleraugu til sölu á staðnum.

Auglýsing

Helgi Dan Stefánsson er nýr svæðisfulltrúi íþróttahéraðanna á Vestfjörðum

„Ég hef sérstakan áhuga á að efla aðgengi íþrótta fyrir jaðarsett börn. En góða greiningu virðist vanta fyrir marga hópa, það er vinna sem við þurfum að fara í,“ segir Helgi Dan Stefánsson.

Hann er nýr svæðisfulltrúi íþróttahéraðanna á Vestfjörðum og mun taka við starfinu af Gubjörgu Ebbu Högnadóttur, sem hefur verið í tímabundnu leyfi frá kennarastörfum. Hún mun vinna með Helga út júní.

Á Vestfjörðum eru tveir svæðisfulltrúar. Hinn er Birna Hannesdóttir, sem býr á Patreksfirði.

Helgi kom til starfa í byrjun mánaðar. Hann er fertugur fjölskyldumaður með meistaragráðu í félagsfræði frá Háskóla Íslands, Ísfirðingur í húð og hár en flutti um nokkurra ára skeið suður og hefur unnið sem ráðgjafi sjóða og teymisstjóri hjá Bandalagi háskólamanna (BHM) síðastliðin átta ár. Helgi og fjölskylda hans flutti aftur vestur fyrir rúmu ári.

Starfsfólk svæðisstöðva íþróttahéraðanna eru sextán talsins um allt land og í öllum landshlutum. Hver svæðistöð styður við íþróttahéruð á sínu svæði og hjálpar þeim að innleiða stefnu íþróttahreyfingarinnar og ríkisins í íþróttamálum.

Starfsemi svæðisstöðvanna hófst fyrir um ári.

Ein af áherslum svæðisstöðvanna er að auka þátttöku barna og ungmenna í skipulögðu íþróttastarfi á Íslandi, sérstaklega börn með fatlanir, frá tekjulægri heimilum og þau sem hafa fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn.

Auglýsing

Grunnskóli Ísafjarðar: aukið um hálft stöðugildi hjá stjórnendum

Grunnskóli Ísafjarðar.

Sviðsstjóri skóla- og tómstundasviðs og mannauðsstjóri Ísafjarðarbæjar leggja til að bætt verði við 50% stöðu deildarstjóra við skólann vegna fjölgunar nemenda og aukinna sérþarfa barna. Starfið yrði auglýst sem deildarstjóri yngsta stigs með 50% stjórnun og 50% kennslu á móti. Tilefni beiðninnar eru auknar kröfur og fjölgun nemenda, sem hafa í för með sér verulega aukið álag á núverandi stjórnendur.

Í dag eru 4 stjórnendur við Grunnskólann á Ísafirði í samtals 3,5 stöðugildum. Þetta eru:

  • Skólastjóri
  • Aðstoðarskólastjóri
  • Deildarstjóri stoðþjónustu
  • Deildarstjóri unglingastigs sem er 50% stjórnandi og sinnir 50% kennslu á móti.

Í minnisblaði til bæjarráðs segir að nemendafjöldi hafi aukist um tæplega 24% á síðustu 10 árum, úr 327 nemendum í 405.
Starfsmenn skólans eru um 70 talsins og fjölgun nemenda hefur haft áhrif á alla þætti skólastarfs. Á sama tíma hafi nemendum með miklar sérþarfir fjölgað, sem og nemendum af erlendum uppruna. Þetta kalli á aukið utanumhald, teymisvinnu, samþættingu þjónustu og markvissa faglega eftirfylgni sem felst ekki síst í auknum stjórnunarkröfum.

Áætlaður launakostnaður vegna aukningarinnar er 7,3 m.kr. miðað við heilt ár. i. Á móti komi að skólinn hafi þegar náð fram sparnaði í rekstri sem nemur 7.320.000 kr. eftir að samið var við þrifafyrirtæki um umsjón með daglegum þrifum á ákveðnum svæðum í skólanum. Sú breyting varð eftir að tveir skólaliðar hættu störfum og er mikil ánægja með gæði þrifanna skv. stjórnendum
skólans segir í minnisblaðinu.

Bæjarráð tók jákvætt í erindið og vísaði því til afgreiðslu í skóla-, íþrótta- og tómstundanefnd.

Auglýsing

Arctic Fish: lág verð á erlendum mörkuðum

Daníel Jakobsson, framkvæmdastjóri Arctic Fish.

Arctic Fish birti í morgun upplýsingar um afkomu fyrirtækisins á fyrsta fjórðungi ársins.

Félagið slátraði 3.140 tonnum á tímabilinu sem er 24% aukning frá fyrra ári. Engu að síður lækkuðu tekjurnar og voru 3,2 milljarðar króna samanborið við 3,5 milljarðar í fyrra.

Tap upp á 2,1 milljarð króna varð af rekstri félagsins í fjórðunginum samanborið við 858 milljón króna hagnað á sama tíma í fyrra. Framlegð frá rekstri (e. Operational EBIT) var 75 milljónir (23,3 kr/kg) samanborið við 1,4 milljarð í fyrra (561 kr/kg).

„Á fyrsta ársfjórðungi hefur framleiðslan að mestu leiti gengið mjög vel. Hitastig í sjó hefur verið hagstætt og þrátt fyrir áskoranir á einni eldisstöð í byrjun árs hefur vöxtur eldisfisksins verið með besta móti síðan þá. Verð á mörkuðum hafa hinsvegar verið langt undir væntingum og fyrra ári, sem hefur haft neikvæð áhrif á reksturinn. Við gerum ráð fyrir að slátra 14.000 tonnum á árinu eða um 31% meira en í fyrra“ segir Daníel Jakobsson forstjóri Arctic Fish í tilkynningu fyrir fyrirtækinu.

Auglýsing

HVEST: vantar ekki í 79 stöðugildi

Lúðvík Þorgeirsson, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða.

Lúúðvík Þorgeirsson, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða segir að misskilnings gæti i frétt Bæjarins besta um skort á fólki í störf við Hvest. Vitnað er þar í þarfagreiningu Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða, dags. 26. febrúar 2025, vegna ívilnana námslána til að bregðast við skorti á heilbrigðisstarfsfólki og þarfa íbúa heilbrigðisumdæmisins fyrir heilbrigðisþjónustu skv. mati stjórnanda Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða.

flestar stöður mannaðar

„Það vantar ekki  79 stöðugildi á Heilbrigðisstofnun Vestfjarða. Þetta er í raun ítarleg greining stofnunarinnar á því hversu marga sérfræðinga við þurfum til að full manna sérfræðistörf innan stofnunarinnar. Flestar þessar stöður eru þegar mannaðar. Erindið sem vísað er til varðandi Ísafjarðabæ snýst um aðkomu sveitarfélagsins að ívilnun námslána fyrir sérfræðinga hjá stofnuninni.

Samkvæmt lögum og reglugerðum ber heilbrigðisstofnunum heilbrigðisumdæma að leggja mat á þörf íbúa heilbrigðisumdæmisins fyrir heilbrigðisþjónustu og leggja fram áætlun um hvernig þeim þörfum verður mætt.“

Tildrög málsins eru þau að Heilbrigðisráðuneytið hvatti heilbrigðisstofnanir til að hafa frumkvæði að samtali við sveitarfélögin sem tilheyra viðkomandi heilbrigðisumdæmi, um möguleika á ívilnunum, og vísaði til þeirra greininga og áætlana sem heilbrigðisstofnanir gera samkvæmt 16. gr. reglugerðar nr. 1111/2020.

verulegur skortur

Í bréfi Ísafjarðarbæjar dags. 28. apríl 2025 til Menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðuneytisins segir eftirfarandi:

Samkvæmt greiningu Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða (HVEST), dags. 26. febrúar 2025, er verulegur skortur á eftirfarandi heilbrigðisstéttum á svæðinu:
 Heimilislæknar: 5 stöðugildi
 Lyflæknar: 2 stöðugildi
 Skurðlæknir: 1 stöðugildi
 Geislafræðingar: 3 stöðugildi (70% starfshlutfall)
 Lífefnafræðingar: 3 stöðugildi
 Ljósmæður: 3 stöðugildi
 Hjúkrunarfræðingar -skurðhjúkrun: 4 stöðugildi
 Hjúkrunarfræðingar – svæfing: 2 stöðugildi
 Hjúkrunarfræðingar – heimahjúkrun, heilsugæsla, sjúkradeildir: 14 stöðugildi
 Hjúkrunarfræðingar – heilsugæsla/heimahjúkrun/stoðdeildir: 20 stöðugildi
 Hjúkrunarfræðingar – hjúkrunarheimili: 4 stöðugildi
 Sjúkraliðar – hjúkrunarheimili : 12 stöðugildi

Sálfræðingar: 3 stöðugildi
 Sjúkraþjálfarar: 3 stöðugildi
 Alls 79 stöðugildi
Þessi skortur hefur áhrif á getu HVEST til að veita örugga og stöðuga heilbrigðisþjónustu á
svæðinu, sem leiðir til skerts aðgengis íbúa að nauðsynlegri þjónustu. Ívilnanir til námsmanna
í viðeigandi greinum geta dregið úr þessum vanda og laðað að menntað starfsfólk til svæðisins.“

Auglýsing

Íslenska sem annað mál við Háskóla Íslands – vandað nám fyrir fólk á Vestfjörðum

Í tilkynningu frá Háskólasetri Vetsfjarða er bent á nám í íslensku sem öðru máli við HÍ-fjarnám sem ætti að henta fólk búsettu á Vestfjörðum. Umsóknarfrestur rennur út á þriðjudaginn kemur.

Samhliða þeim gríðarlegu lýðfræðilegu breytingum sem orðið hafa á íslensku samfélagi undanfarin ár eykst þörfin á góðu og fjölbreyttu námi í íslensku sem öðru máli. Góðu heilli er stígandi í þeim efnum. Möguleikunum fjölgar jafnt og þétt.

Einn liður í þeim möguleikum er nám í íslensku sem öðru máli við Háskóla Íslands. Er þar hvort tveggja í boði fjarnám sem og staðnám og mismunandi námsleiðir.

Þar ætti fjarnám vissulega að geta gagnast fólki sem búsett er á Vestfjörðum og hefir hug á því að læra íslensku á ítarlegan hátt.  Hafa og ófáir aðilar á Vestfjörðum til dæmis nýtt sér íslensku sem annað mál, hagnýtt nám -grunndiplóma – 60 einingar sem kennd er í fjarkennslu en einnig í staðkennslu fyrir sunnan.

Að því námi loknu ættu nemendur að geta verið ágætlega á veg komnir í máltileinkun sinni og grunnur kominn að því að notast eingöngu við íslensku í daglegum samskiptum. En eins og með allt í lífinu veltur það á iðjusemi og einurð viðkomandi. Alltént hafa margir sem útskrifuðust af brautinni lýst náminu sem stökkpalli í þessum efnum.

Á Ísafirði er Háskólasetur Vestfjarða er tengiliður nemenda og sér um prófahald og hagnýt mál. Auk þess er einn kennari deildarinnar, Ólafur Guðsteinn Kristjánsson, búsettur á Ísafirði og má leita til hans sé þörf þar á. Hann er allajafna í Háskólasetrinu.

Hér má endilega hvetja fólk til að kynna sér það sem er í boði. Það má gera með því að opna hlekkina hér fyrir neðan. Auk þess má hvetja fólk til að láta þá sem hafa hug á að læra málið vita af þessum möguleikum. Taka má og fram að mörg dæmi eru þess að fólk sinni náminu samhliða vinnu. Og þótt ekki sé endilega mælt með því þá auðnast sumum það ágætlega að samtvinna nám og vinnu.

Umsóknarfrestur er 20. maí fyrir umsækjendur sem eru búsettir á Íslandi og hafa íslenska kennitölu.

https://hi.is/islenskustod_grunndiploma

Íslenskustoð – Grunndiplóma | Háskóli Íslands

https://hi.is/islenska_sem_annad_mal

Íslenska sem annað mál

https://hi.is/islenska_sem_annad_mal_hagnytt_nam_grunndiploma

Íslenska sem annað mál, hagnýtt nám – Grunndiplóma

https://hi.is/grunnnam_islensku_og_menningardeild/inntokuprof_i_islenskustod_og_ba_nam_i_islensku_sem_odru_mali

Inntökupróf í Íslenskustoð og BA-nám í íslensku sem öðru máli

Auglýsing

Nýjustu fréttir