Föstudagur 2. maí 2025
Heim Blogg

Veðrið í Árneshreppi í apríl

Yfirlit yfir veðrið frá veðurstöðinni í Litlu-Ávík frá Jóni G Guðjónssyni veðurathugunarmanni.

Mæligögn:

Úrkoman mældist 21,0 mm. (í apríl 2024:21,9 mm.)

Úrkomu sem varð vart en mældist ekki var í 1 dag.

Þurrir dagar voru 10.

Mestur hiti mældist þann 10:+14,0 stig.

Mest frost mældist þann 19:-2,9 stig.

Meðalhiti mánaðarins var +3,9 stig.(í apríl 2024: +0,7 stig.)

Meðalhiti við jörð var -0,5 stig. (í apríl 2024: -2,2 stig.)

Alhvít jörð var í 1 dag.

Flekkótt jörð var í 11 daga.

Auð jörð var því í 18 daga.

Mesta snjódýpt mældist þann 1 og 2: 10.CM.

Yfirlit dagar eða vikur:

Frá 01 til 7 var hlýtt yfir daginn enn svalt á kvöldin og á nóttinni. Kalt var í þokunni Þ.8. Síðan var hlýtt aftur frá 9 og til 10.

Frá 11 voru norðlægar vindáttir með köldu veðri, él, slydda, snjókoma.

Það hlýnaði aðeins þ.24 og 25. Vel hlýtt var þ.26.

Þá Kólnaði aftur í norðan átt og þoku og súld.þ.27 og 28.

Vel hlýtt þ.29 enn svalara Þ.30.

Auglýsing
Auglýsing

Fræðslufundur um málefni kirkju­garða

Boðað hefur verið til fundar þriðju­daginn 6. maí kl 15:00 í sal Mennta­skólans á Ísafirði um ýmis málefni er varða skipulag og umhirðu kirkju­garða og samvinnu kirkju­garðs­stjórna og sveita­fé­laga.

Fyrirlesarar: Ágústa Erlingsdóttir framkvæmdastjóri kirkjugarðaráðs og  Smári Sigurðsson framkvæmdastjóri Kirkjugarða Akureyrar.

Á fundinn eru boðaðir fulltrúar sveitafélaga á Vestfjörðum, kirkjugarðsstjórnir og  fulltrúar stærstu trúfélaga á svæðinu.

Fjallað verður um eftirfarandi atriði:

Almennt um kirkjugarða

Kirkjugarðasjóð

Tekjur og gjöld kirkjugarða

Umhirðu og grafartöku

Auglýsing
Auglýsing

Meiri rækja við Snæfellsnes

Hafrannsóknastofnun leggur til í samræmi við nýtingarstefnu sem mun leiða til hámarksafraksturs til lengri tíma litið, að rækjuafli á svæðinu við Snæfellsnes frá 1. maí 2025 til 15. mars 2026 verði ekki meiri en 460 tonn. Þetta er aukning um 23% frá síðustu ráðgjöf, en veiðiálag hefur verið fyrir neðan kjörsókn (Fproxy) síðustu ár.

Stofnvísitala rækju hefur verið töluvert lægri á árunum 2017-2025 en á árunum 2008-2016. Vísitala ungrækju hefur verið lág frá árinu 2014. Lítið var af stærri þorski og ýsu (2 ára og eldri) en mikið hefur verið af 1 árs ýsu á svæðinu frá árinu 2020.

Auglýsing
Auglýsing

Fjögur verkefni á Vestfjörðum fengu styrk

Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra úthlutaði á miðvikudag úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða fyrir árið 2025. Að þessu sinni hljóta 28 verkefni styrk úr sjóðnum. Heildarúthlutun er 553,2 milljónir króna og dreifast verkefnin um land allt.

Eins og áður hefur verið sagt frá fékk Ísafjarðarbær 33,536,976 kr í styrk til byggingar útsýnispalls á Flateyri.

Önnur verkefni sem fengu styrki á Vestfjörðum voru:

Ungmennafélagið Leifur heppni – Stígagerð og útsýnispallur við Krossneslaug
Kr. 11.382.000,- styrkurinn felst í smíði útsýnispalls, þar sem hægt er að virða fyrir sér
laugina og strandlengjuna ofan frá, auk lagningar nýs göngustígs niður að lauginni.
Markmið verkefnisins er að auka öryggi, aðgengi og náttúruvernd við Krossneslaug í
Árneshreppi.

Stokkar og steinar sf. – bílastæði við Kistuvog.
Kr. 8.546.675.- styrkurinn felur í sér stækkun á bílastæði. Allur frágangur mun taka mið
af umhverfinu með grjóthleðslum og renna inn í aðliggjandi landslag.

Remote Iceland ehf. – Hönnun og uppbygging brúarstæðis yfir Hallardalsá við
Goðafoss í Bjarnarfirði.
Kr. 2.000.000,- styrkur felst i að bæta við gönguleiðum með brú yfir ána, sem myndi
auka aðdráttarafl og draga úr slysahættu.

Auglýsing
Auglýsing

Fjölmenni á 1. maí hátíðarhöldum á Ísafirði

Kröfugangan að koma að Edinborgarhúsinu. Gengið var frá Alþýðuhúsinu.

Á annað hundrað manns tók þátt í kröfugöngu Verkalýðsfélags Vestfirðinga á Ísafirði í gær. Hátíðarhöldin fóru svo fram í Edinborgarshúsinu og var húsfyllir.

Lúðrasveit Tónlistarskóla Ísafjarðar lék og kvennakór Ísafjarðar söng nokkur lög fyrir gesti. Ræðumaður dagsins var Guðrún Anna Finnbogadóttir, teymisstjóri hjá Vestfjarðastofu og Sigríður Gísladóttir, verkefnastjóri hjá M.Í. flutti pistil dagsins.

Húsfyllir var í Edinborgarhúsinu.

Lúðrasveit Tónlistarskóla Ísafjarðar lék fyrir gesti.

Kvennakór Ísafjarðar söng. Kórinn verður með tónleika í Ísafjarðarkirkju 15. maí n.k.

Guðrún Anna Finnbogadóttir var ræðumaður dagsins.

Myndir: Kristinn H. Gunnarsson.

Auglýsing
Auglýsing

Sjávarréttaveisla Kiwanisklússins Bása á morgun

Kíwanisklúbburinn Básar á ísafirði stendur fyrir sjávarréttaveislu á morgun, laugardaginn 3. maí í húsnæði félagsins í Sigurðarbúð. Húsið opnar kl 19.

Í boði verða hinir ýmsu fiskréttir sem munu ýmist gæla við bragðlaukana eða láta þá loga. Um eldamennskuna sjá listakonurnar á Thai Tawee.

Árni H. Ívars mun sjá fyrir léttri skemmtun. Það eru allir innilega velkomnir, svo endilega mæta og njóta segir í tilkynningu.

Sjávarréttaveislan er ein af fjáröflunum klúbbsins og er afraksturinn nýttur til ýmissa góðar málefna í sveitarfélaginu.

Auglýsing
Auglýsing

Veiðigjöld: frítekjumark hækkað

Áskell og Vörður ÞH í Ísafjarðarhöfn. Mynd: Heimir Tryggvaason.

Ríkkisstjórnin hefur dreift frumvarpi sínu á Alþingi um hækkun veiðigjalda. Í því hefur verið gerð sú breyting á áður kynntum frumvarpsdrögum að svokölluðu frítekjumarki er breytt og það hækkað. Við það lækka áætlaðar tekjur af breytingunni um 1,5 milljarð króna.

Skv. frumvarpinu verður álagt veiðigjald á útgerðir landsins 19,5 milljarðar króna en hefðu orðið 12 milljarðar króna skv. gildandi reglum. Frá álagningunni dregst lækkun vegna frítekjumarksins. Er hún nú talin verða 2,2 milljarðar króna en hún var áður um hálfur milljarður króna.

Hækkunin er um 3 -4 milljarðar króna á uppsjávarfisktegundir og 5 -6 milljarðar króna á þorsk og ýsu skv. því sem fram kemur í greinargerð með frumvarpinu.

Innheimt veiðigjald verður því 17,3 milljarðar króna skv frumvarpinu en hefði orðið 11,2 milljarðar króna miðað við meðaltal síðustu þriggja ára. Hækkunin er um 6 milljarðar króna.

Í gildandi lögum er veittur afsláttur 40% af fyrstu 6 m.kr. álögðu veiðigjaldi eða samtals að hámarki 2,4 m.kr.

Í frumvarpinu er lagt til að afslátturinn verði 40% af fyrstu 50 milljónum kr. af álögðu veiðigjaldi af þorski og ýsu og til viðbótar 40% af fyrstu 9 m.kr. álögðu veiðigjaldi af öðrum fisktegundum. Samkvæt þessu verður afslátturinn 20 m.kr. og 3,2 m.kr. eða að hámarki 23,2 hjá þeim útgerðum sem geta nýtt afsláttinn að fullu.

50 – 59% hækkun í Ísafjarðarbæ

Birtar eru upplýsingar um áhrif frumvarpsins eftir sveitarfélögum og er miðað við skráningu greiðenda. Mest verður hækkunin í Árneshreppi 80 – 89%. Í Súðavík er hækkunin 70 – 79% og Ísafjarðarbæ og í Strandabyggð er hækkunin 50 – 59%.

Í Bolungavík, Kaldrananeshreppi, Vesturbyggð og Tálknafjarðahreppi er hækkunin 40 – 49%. Minnst eru áhrifin í Reykhólahreppi 0 – 9%.

Auglýsing
Auglýsing

Vikuviðtalið : Neil Shiran Þórisson

Starfa sem fjármálastjóri hjá Háafelli, sem er  laxeldisfyrirtæki sem Hraðfrystihúsið Gunnvör (HG) á.  Er búinn að vera í því starfi í um eitt og hálft ár, þurfti ekki mikinn aðlögunartíma þar sem ég kom úr laxeldisfyrirtæki og þekkti nokkuð vel til Háafells og HG.  Starfið er fjölbreytt þar sem ég er líka að sjá um sölumál félagsins en er auk þess að sinna öðrum rekstrartengdum verkefnum.  Þar sem við erum að slátra fiski þessa dagana er mikið um að vera.  Verð á mörkuðum hafa lækkað nokkuð og það er því talsverð áskorun að hámarka verðmætin úr þessari slátrun.  Þegar fiskinum er slátrað þá er búið að fjárfesta í honum í um þrjú ár með allri þeirri óvissu sem fylgir seiðaeldinu og eldinu í sjó. Það er því  gaman að vera inn í sölunni og sjá afrakstur fjárfestinganna verða að verðmætum í þeim viðskiptum sem við eigum í við okkar kaupendur.  Fjármálatengdu verkefnin eru kerfisbundin og regluleg og því gott að fá að vera virkur þáttakandi í daglegum rekstrartengdum verkefnum til þess að brjóta upp tilveruna og formfestuna. Er einnig lánsamur að vera með góða samstarfsfélaga og gaman að mæta í vinnuna daglega hjá fyrirtæki sem ég er stoltur af að tilheyra.

Utan vinnunnar hef ég sinnt mínum tveimur helstu áhugamálum.   Á veturna er það félagsstarfið hjá Körfuknattleiksdeild Vestra. Þar höfum við undanfarin ár verið að leggja áherslu á að byggja upp starfið á okkar elstu iðkendum úr barna- og unglingastarfinu. Þar er í mörg horn að líta en sem betur fer eru góðir félagar og foreldrar að starfa við þessi sjálfboðaliðastörf. Á sumrin er það Golfklúbbur Ísafjarðar, en auk stjórnarstarfa spila ég helst daglega  a.mk. 9 holur af golfi á sumrin ef ég get. Er þeirrar gæfu aðnjótandi að synir mínir spila mjög oft með mér og er það skemmtileg samvera.  Þá eru mínir bestu vinir mjög áhugasamir og líklega jafn forfallnir og ég í golfinu. Það eru sífellt fleiri sem átta sig á að með því að búa á Ísafirði gefst góður tími til þess að sinna félagsstörfum og áhugmálum. 

Ég er kvæntur Hafdísi Gunnarsdóttur, sviðsstjóra skóla og tómstundasviðs Ísafjarðarbæjar.  Við eigum þrjá syni, Jón Gunnar 18 ára er elstur, Guðmundur Arnór 15 ára er miðjubarnið og svo er sá yngsti Þórður Örn 6 ára.   Við Hafdís höfum búið á Ísafirði frá því að við kláruðum okkar háskólanám og vorum lánsöm að geta fundið störf sem hentuðu okkar námi og styrkleikum.  Fjölskyldan metur mikils þau lífsgæði sem við höfum á Ísafirði.

Auglýsing
Auglýsing

Styrkur til útsýnispalls á Flateyri

Horft eftir Brimnesvegi á Flateyri.

Á miðvikudaginn var tilkynnt um úthlutun styrkja úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða. Það er atvinnuvegaráðherra Hanna Katrín Friðriksson sem staðfestir styrkveitingarnar.

Meðal verkefna sem styrk hlaut að þessu sinni var bygging útsýnispalls við Brimnesveg á Flateyri, auk skábrauta og stiga, ásamt frágangi á svæðisinu. Einnig verður komið upp bekkjum, rennibraut og klifurvegg við og af pallinum. Megináhersla er lögð á algilda hönnun og aðgengi hreyfihamlaðra að mannvirkinu. Fjárhæð styrksins er 33,5 m.kr.

Í lýsingu á verkefninu segir að markmið verkefnisins sé að bæta aðgengi að stórbrotnu útsýni út Önundarfjörð og minnka slysahættu. Verkefnið er hluti af áfangastaðaáætlun Vestfjarða og fellur að
markmiðum sjóðsins um bætt aðgengi og öryggi ferðafólks. Ekki skal nýta styrkfé í gróðursetningu plantna en slíkt getur verið hluti af mótframlagi.

Grenndarkynning á pallinum fór fram í mars og apríl á síðasta ári og bárust nokkrar athugasemdir. Skipulag- og mannvirkjanefnd Ísafjarðarbæjar bókaði þá að nefndin teldi að athugasemdir eigi rétt á sér og taka þurfi tillit til þeirra.

Auglýsing
Auglýsing

  Sálfræðihernaður og blekkingar

Mín kynslóð man vel eftir LÍÚ sem stóð fyrir Landsamband íslenskra útvegsmanna – þessi félagsskapur var ekki lagður niður – í dag heitir hann Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi – skammstafað SFS.

Kannski má líkja þessari breytingu við kennitöluflakk – ekkert breytist í raun nema nafnið.

Einu sinni var sjávarútvegsráðuneytið eitt af mikilvægustu ráðuneytunum – nú hefur það verið lagt niður og sjávarútvegsmálin komin undir nýtt ráðuneyti atvinnu og matvæla. Málefnum er varðar dýrmætustu auðlind þjóðarinnar hefur sem sé verið komið fyrir í einni skúffu í nýju ráðuneyti sem hefur ótal margt annað á sinni könnu – eins og til að mynda landbúnaðinn sem nú  stendur frammi fyrir stórum áskorunum er varða  fæðuöryggi og sjálfbærni á viðsjárverðum tímum.

Sjávarútvegurinn er grunnurinn að velferð þjóðarinnar og ætti að öllu eðlilegu að vera hennar helsta tekjulind svo þessi ráðstöfun verður að teljast undarleg í meira lagi. Það er eins vísvitandi sé verið að reyna að draga úr mikilvægi sjávarútvegs í hugum fólks og deyfa vitund þess gagnvart auðlindinni – þannig að eignatilfærslan  sem hefur verið að eiga sér stað í skjóli margra fyrri stjórnvalda verið ekki eins áberandi.

Það er mikið talað um og varað við falsfréttum og upplýsingaóreiðu nú á dögum. Fáir fjölmiðlar hér á landi teljast áræðanlegir svo hverjum á almenningur að treysta þegar kemur að upplýsingagjöf – varla þeim fjölmiðlum sem ítrekað hafa gerst sekir um einhliða áróðurskenndan fréttaflutning. Við hljótum að þurfa að treysta á eigið innsæi og dómgreind því hálfsagðar sögur geta aldrei talist tæmandi fréttir.

Það hefur örugglega ekki farið fram hjá hugsandi fólki sem fylgst hefur með fréttaflutningi í gegnum tíðina að um langa hríð hafa flestir fjölmiðlar hér grímulaust dregið taum stórútgerðanna og látið eins og þeir sem hafa þurft að líða vegna aðgerða þeirra séu ekki til – ekki mjög traustvekjandi það.

Það hefur heldur ekki farið fram hjá þeim sem fylgjast með hvernig stríðið í Úkraínu hefur beinlínis verið látið skyggja á fjöldamorðin á Gasa í fjölmiðlum. Volodymyr Selensky hefur  óspart verið hampað sem hetju og honum fylgt eftir hvar sem hann hefur farið um snapandi úr almannasjóðum Natóríkja til að fjármagna stríðsrekstur sem stofnar heimsfriðnum í hættu. Og svona til að kóróna ótrúverðuleika Evrópskra sjónvarpsstöðva þá virðist það aldrei hafa verið inn í myndinni að refsa Ísrael með sama hætti og rússum.

Á dögunum bárust okkur fréttir af rafmagnsleysi á Spáni sem setti mannlífið þar víða úr skorðum. Pútin talin saklaus af þessu fári en ójafnvægi í kerfinu kennt um eða sérstökum veðurskilyrðum. Ótrúverðugt verður að teljast að land á suðrænum slóðum  skuli treysta á kerfi sem lætur undan í logni og sól. 

Þessi uppákoma virkjaði samsæriskenningastöðvarnar hjá mér því ef líkja má þessu við eitthvað þá helst innrásinni frá Mars – sem á sínum tíma setti Bandaríkin á annan endann.

Það er vitað að orkan er gullgæsin sem einkavæðingin vill helst komast yfir um þessar mundir – orkan er jú feitur biti í að komast og því ólíklegt að einkavæðingasinnar ætli að láta happ úr hendi sleppa – svo velta má fyrir sér hvort þarna hafi þeir verið að ýta út vör áróðursherferð um orkuöryggi á heimsvísu. 

Það er ekki bara á Íslandi sem einkavæðingin ásælist orkuna – það gera einnig auðhringar um heim allan – þeir vinna skipulega saman að settu marki og treysta á gangandi mútubauka í almannaþjónustu.

Frjálshyggjan vill svo gjarnan telja okkur trú um að ekkert geti gengið án hennar aðkomu – þó hún hafi skilið eftir sig sviðna jörð hvar sem hún hefur drepið niður fæti.

Rafbílavæðingin snýst ólíklega um umhverfisvernd – ef verið væri í alvöru að hugsa um umhverfið þá væri metan lausnin – enda  smellpassar það inn í hringrásina. Reynslan af rafbílum er heldur ekki góð – þeir þykja hættulegir í umferðinni vegna tíðra sjálfíkveikju – svo er það til umhugsunar hvort þeir geti mögulega haft slæm heilsufarsleg áhrif.

Þegar áróðri er beint að lifnaðarháttum almennings er mjög líklega verið að draga athygli hans frá einhverju öðru – það sem kann að virðast umhyggja í fyrstu getur þegar öllu er á botninn hvolft reynst blekking.

Ég er umhverfisverndarsinni og geri mér fulla grein fyrir að plast er umhverfisógn – ég læt samt einhliða plastáróðu fara í taugarnar á mér því ég tel svo margt annað sem ekki hefur fengið pláss í umræðunni hættulegra lífríkinu til lands og sjávar. Það hefur til að mynda alveg verið skautað framhjá lyfjaframleiðslu og áti sem og fíkniefnaframleiðslu og neyslu – þarna er um að ræða mikið magn af mjög skaðlegum efnum sem enda í hafinu með mennskum úrgangi. Það væri klárlega hægt að draga mikið úr mengun á þessu sviði með því að nýta mennskan úrgang til orkuframleiðslu svo um munaði. Við hljótum að þurfa að hugsa í lausnum til framtíðar fremur en að láta stjórnast af stundargróðrarhyggju auðvaldsins sem hugsar um það eitt að græða meira í dag en í gær.

Við vitum ekki hvernig eftirliti er háttað með lyfjaframleiðslu – ólíklega er hún með „geislabaug“ fremur en önnur stórgróðrarstarfsemi.

Lyf eru nauðsynleg – þau bjarga mannslífum og breyta til hins betra í mörgum tilfellum – en þeim er líka frjálslega ávísað og þau misnotuð í miklu mæli og telja má víst að spillingin teygi anga sína inn í þennan iðnað eins og annan þar sem gróðra er von.

Og svo er það kjarnorkan – stærsta og hættulegasta „boðflennan“ á jörðinni. Það er eitthvað svo léttvægt að ræða um plastagnir í fatnaði og ilmefni í sápum sem ógn við lífríkið þegar „stórir strákar“ í vígahug eru að smíða og gera tilraunir með vopn sem geta gjöreytt jörðinni mörgu sinnum

Auðvitað skiptir þetta allt máli en við megum ekki láta litlu hlutina yfirtaka umræðuna.

Umhverfisvernd getur í sumum tilfellu að mínu mati snúist upp í andhverfu sína – í því sambandi vil ég nefna hvalafriðun – sem er mikið tilfinningamál hjá mörgum. Hvalafriðunarsinnar  hafa alltaf átt greiðan aðgang að fjölmiðlum sem  hafa þá látið umræðuna snúast að mestu um ferðaþjónustuna og afkomu hennar sem og ásýnd landsins út á við. Umræða um skynsemi hvalafriðunar hins vegar ekki verið í boði – sem hlýtur að vera álitamál og varasamt getur verið að treysta á þann kost sem við helst kjósum – því meiri líkur eru á en minni að hvalafriðun geti valdið röskun í lífríki sjávar.  Það virðist svo augljóst að það geti ekki gengið upp að friða stærstu skepnuna til sjávar á sama tíma og verið er að ofnýta flesta nytjastofna.

Umhverfissjónarmiðin eru því miður of oft látin víkja fyrir gróðrarhyggjunni.

Peningarnir ráða öllu og leyfa sér allt – umfjöllun í síðast Kveikþætti undirstrikaði þá staðreynd. Spillingin hér kemur örugglega ekki mörgum á óvart – nema þá helst þeim sem eiga að hafa eftirlit með henni – en þeir láta eins og hún sé latína sem þeir kunna engin skil á. Ég varð ekkert hissa – en ég verð mjög hissa ef umræddu máli verður ekki stungið undir stól gleymskunnar.

Persónunjósnir eru langt í frá nýtilkomnar á Íslandi. Það er vissulega ekki á hvers manns færi að fjármagna slíkar „þarfir“. það er ekki bara að fjarmagna eltingaleik – í einhverjum tilfellum er líka verið að kaupa persónuupplýsingar og eða fölsun á slíkum. Það er svo óspart notast við frændsemi og vinskap á réttum stöðum við tálmanir af ýmsum toga og fjárhagslegt ofbeldi. Ótrúlega margir virðast vera tilbúnir til að vera þátttakendur í að leika sér að lífi annarra og taka þannig aurinn fram yfir orðsporið.

Þetta er allt ógeðslegt – Ísland er ógeðslegt sagði Styrmir heitinn Gunnarsson – við hljótum að trúa honum því hann þekkti vel til á æðstu stöðum og þeirra vinnubragða sem þar tíðkuðust.

En við skulum ekki gleyma að hvert samfélag mótast af íbúum þess og þá kannski helst af sjálfskipuðum forystusauðum og þjónum þeirra.

——————–

Ég sit á herðum manns, þjarma að honum og læt hann bera mig og samt fullvissa ég sjálfan mig og aðra um, að ég finni mjög til með honum og vilji með öllum tiltækum ráðum létta honum byrgðina – nema með því að fara af baki hans.

                                                                                Leo Tolstoj

——————-

Mér hefur verið tíðrætt um íslenskt okur ég vil því að gefnu tilefni ráðleggja fólki að kanna verðlagningu á bifreiðaverkstæðum áður en farið er með bíl á viðgerð.

Ég á tíma á verkstæði þann 5. maí – áður uppgefinn kostnaður var 140.000 kr en eftir að „verkstæðisformaðurinn“ hafði farið yfir málið hækkaði hann upp í 270.000 kr

Um er að ræða tímareimaskipti og endurnýjun á vatnsdælu og umfelgun (ég á dekkjaganginn) 

en bíllinn minn er subaru impresa – lítið ekinn.

Lifið heil !

Vilhelmína H. Guðmundsdóttir

Lífsreyndur eldri borgari.

Auglýsing
Auglýsing

Nýjustu fréttir