Fimmtudagur 15. maí 2025
Heim Blogg

Kvennakór Ísafjarðar: vortónleikar í kvöld

Vortónleikar Kvennakórs Ísafjarðar verða haldnir í kvöld í Ísafjarðarkirkju og hefjast kl 20.

Stjórnandi er Rúna Esradóttir og undirleikari Judid Tobin.

Baldur Páll Hólmgeirsson leikur á slagverk.

Auglýsing

Sjómannadagurinn í Bolungarvík

Sjómannadagurinn 2025 er sunnudagurinn 1. júní og sjómannadagshelgin verður því 30. maí – 1. júní.

Samkvæmt venju verður fjölbreytt dagskrá í Bolungarvík, dorgveiðikeppni, fiskiveisla, Vestfjarðamót í sjómann og margt fleira eins og sjá má á meðfylgjandi dagskrá. Þá er rétt að vekja athygli á að sjófmaðurinn Elfar Logi mætir í Ósvör og rekur sína stuttu sjómannssögu svo úr verður dulítil sjófmannssaga.

Dagskrá:

Föstudagur 30. maí:

  • 13:00-16:00 Opið í Drymlu
  • 17:00-18:00 Dorgveiðikeppni fyrir krakka á öllum aldri á Brimbrjótum, verðlaun í boði fyrir stærsta fiskinn, minnsta fiskinn og flestu fiskana
  • 18:00-21:00 Þorskurinn 2025 á Einarshúsinu
  • 21:30-00:00 Vestfjarðamót í Sjómanni verður haldið í þriðja sinn á Verbúðinni. Keppt verður í opnum flokki karla og kvenna. Skráning hefst kl 19:00


Laugadagur 31. maí:

  • 10:00-11:00 Lagt á Djúpið – Hátíðarsiging frá Bolungarvíkurhöfn
  • 12:00-13:00 Leikhópurinn Lotta við félagsheimilið með sýninguna Hrói Höttur
  • 13:00-15:00 Fjölskyldudagskrá þar sem fram koma Friðrik Ómar og Jógvan og Leikfélag MÍ
  • 13:00-15:00 Fiskiveisla í boði Jakobs Valgeirs ehf, Arctic Fish ehf, FMS hf og Örnu ehf
  • 13:00-15:00 Sjómannadagskrá björgunarsveitarinnar Ernis með skemmtilega leiki fyrir alla:
    • Kappróður
    • Belgja slagur
    • Flekahlaup
    • Reipitog
  • 13:00-15:00 Andlitsmálning og hoppukastalar
  • 15:30-16:00 Sjófmennska  í Ósvör- kómedíuleikhúsið
  • 13:00-16:00 Opið í Drymlu
  • 20:00-23:00 Fyrirpartý á Verbúðinni
  • 20:00-23:00 Hátíðarkvöldverður í Félagsheimili Bolungarvíkur. Húsið opnar 19:00
  • 23:00-03:00 Sjómannadagsball í Félagsheimili Bolungarvíkur með ballhljómsveitinni „Alles Ókei?“


Sunnudagur 1. júni:

  • 13:30-14:00 Hópganga frá Brimbrjóti að Hólskirkju
  • 14:00-14:50 Hátíðarguðþjónusta í Hólskirkju. Fjölnir Ásbjörnsson prestur þjónar fyrir altari
  • 14:50-15:00 Að guðsþjónustunni lokinni verður gengið í Grundarhólskirkjugarð og lagðir blómsveigar að minnismerkjum sjómanna í garðinum
  • 15:00-17:00 Slysavarnadeildin Ásgerður verður með kaffisamsæti
Auglýsing

Mjólkárlína 3 á fimm ára áætlun Landsnets

Mjólkárlína. Mynd: Landsnet.

Í langtímaáætlun Landsnets eru tvítengingar, annars vegar með byggingu á nýrri flutningslínu á milli Kollafjarðar og Mjólkár, sem mun tryggja tvítengingu meginflutningskerfisins á Vestfjörðum og bæta afhendingaröryggi raforku á svæðinu og hins vegar tvítengingar Breiðadals við Mjólká með byggingu á Breiðadalslínu 2. Framkvæmdin er áætluð á árunum 2029 – 2031. Ekki er birt kostnaðaráætlun fyrir framkvæmdina.

Á kynningarfundi Landsnets á Ísafirði fyrir skömmu kom fram að Mjólkárlína 3 verður ný lína milli Kollafjarðar og Mjólkár lögð samhlið núverandi Vesturlínu. Afla þarf samþykkis landeigenda fyrir línunni og er farið um 70 jarðir.

Þessi framkvæmd er í beinu framhaldi af tengingu væntanlegri tengingu Hvalár við flutningskerfið með línu þaðan í Miðdal ofan Lágadals og svo áfram í Kollafjörð við Breiðafjörð. Þeirri framkvæmd á að vera lokið 2030 þegar áformuð er gangsetning Hvalárvirkjunar.

Landsnet setur fyrirvara við tengingu Hvalár og eru áformin bundin því að af virkjunarframkvæmdum verði. Ekki kemur fram hvað verður um Mjólkárlínu 3 ef Hvalárvirkjun seinkar.

Auglýsing

Ný stjórn Sóknarhóps 2025–2027

Guðmundur Fertram Sigurjónsson var kosinn í stjórn sóknarhóps Vestfjarðastofu.

Tilkynnt hefur verið um niðurstöður kosninga til stjórnar sóknarhóps Vestfjarðastofu fyrir næstu 2 ár, 2025 – 2027. Tíu buðu sig fram.

Kjörnir voru sem aðalmenn í stjórninni:

  • Guðmundur Fertram Sigurjónsson (Innviðafélag Vestfjarða – AB)
  • Gauti Geirsson (Háafell -AB)
  • Anna Björg Þórarinsdóttir (Strandagaldur ses. – MM)
  • Sif Huld Albertsdóttir (Dokkan Brugghús – MM)
  • Lilja Sigurðardóttir (Oddi -AB)

Varamenn

  • Elísabet Gunnarsdóttir (Kol & salt ehf. -MM)
  • Rebekka Eiríksdóttir (Báta og hlunnindasýningin Reykhólum -MM)
  • Sædís Ólöf Þórsdóttir (Fantastic Fjords -MM)
  • Halldór Halldórsson (Íslenska kalkþörungafélagið ehf -AB)
  • Jónas Heiðar Birgisson (Arnarlax ehf -AB)
Auglýsing

Vestfirðir: 10 -11 milljarða kr. fjárfesting í tveimur framkvæmdum

Frá undirritun viljayfirlýsingarinnar vorið 2023. Mynd: Strandabyggð.

Fram kom á opnu málþingi, sem haldið var í gær í Súðavík á vegum Vestfjarðastofu, þar sem fjallað verður um frumkvæði og fjárfestingar á Vestfjörðum að tvær stórar framkvæmdir í fjórðungnum kosti 10 – 11 milljarða króna.

Annars vegar er um að ræða nýja kalkþörungaverksmiðju í Súðavík á vegum Íslenska kalkþörungafélagsins sem áætlað er að kosti 7 – 8 milljarða króna. Undirbúningur er þegar hafinn með hafnargerð á Langeyri með landfyllingu og viðlegukanti. Sú framkvæmd er langt komin. Fyrirtæki hefur tryggt sér leyfi til nýtingar á kalþörungum í Ísafjarðardjúpi til næstu 30 ára og má taka 3,5 milljónir rúmmetra af um 100 milljónum rúmmetra sem talið er að námurnar séu. Eigendur að 99% hlutafjár eru írska félagið Marigot Ltd.

Hins vegar eru áform um byggingu á 62 herbergja hóteli á Hólmavík. Það er Fasteignaumsýslan ehf sem stendur fyrir málinu og sagði Friðjón Sigurðsson að áætlaður kostnaður væri um 3 milljarðar króna og að það þyrfti um helming þess í hlutafé. Verið er að kynna verkefnið og leita að fjárfestum. Skipulagsvinna stendur yfir hjá Strandabyggð og er á lokastigi. Friðjón sagði að hugmyndin væri að færa meira af ferðamönnum inn á Vestfjörðum og litið væri til hótelsins m.a. sem lífsstílshótel og skíðahótel. Viljayfirlýsing milli Fasteignaumsýslunnar og sveitarstjórnar var undirrituð vorið 2023.

Auglýsing

Skotís: þrír Íslandsmeistaratitlar

Félagar í Skotís með verðlaun sín.

Keppnistímabilinu í skotíþróttum er nýlokið. Uppskera Skotíþróttafélags Ísafjarðarbæjar var býsna góð eða þrír Íslandsmeistaratitlar

Lið Skotís í keppnisgreininni 50 skotum liggjandi varð Íslandmeistari. Liðið skipuðu Guðmundur Valdimarsson, Valur Richter og Lefur Bremnes.

Íslandsmeistari í þrístöðu karla varð Leifur Bremnes og Valur Richter varð Íslandsmeistari í loftriffli.

Auk þess unnu félagar í Skotís verðlaunasæti í öllum skotkeppnum sem þeir tóku þátt í.

Skotís loftriffill, frá vinstri Karen Rós Valsdóttir 2 sæti unglingaflokki, Valur Richter íslandsmeistari í loftriffli, 1 sæti í sínum flokki, 2 sæti í liðakeppni, Ingvar Bremnes 2 sæti liðakeppni, Leifur Bremnes 2 sæti í sínum flokki, 2 sæti liðakeppni.

Auglýsing

Patreksfjörður: fjögurra daga sjómannadagshátíðahöld

Á Patreksfirði er lagt mikið í hátíðahöld um sjómannadagshelgina. Boðið er upp á veglega og fjölbreytta dagskrá í fjóra daga.

Hefst hátíðin með Eyfahlaupinu, sem er víðavangshlaup, fimmtudaginn 29. maí og því er svo fylgt eftir með golfmóti í Vesturbotni. Kappróður verður í Patrekshöfn og síðan götugrill. Deginum lýkur með Begga í Sóldögg í Félagsheimili Patreksfjarðar.

Meðal dagskrárliða á föstudeginum er myndlistarsýning Sollu Magg, Landsbankagrill og leikhópurinn Lotta kemur fram.

Á laugardeginum verður skemmtidagskrá við leikskólann og ball sumarins í Félagsheimilinu um kvöldið.

Á sjómannadaginn sjálfan verður sjómannamessa og kaffisala kvefélagsins Sifjar.

Auglýsing

Grásleppan komin í nefnd

Lilja Rafney Magnúsdóttir, alþm.

Lilja Rafney Magnúsdóttir, alþm mælti á þriðjudaginn á Alþingi fyrir frumvarpi meirihluta atvinnuveganefndar um veiðistjórn grásleppu.

Í frumvarpinu er lagt til að falla frá aflamarksstjórn á grásleppuveiðum, sem Alþingi samþykkti í fyrra og verður stjórnunin færð til fyrra horfs.

Tekin verði upp veiðistýring með útgáfu leyfa sem bundin eru við þá aðila sem veiðar stunduðu á tilteknu árabili. Ákvörðun um fjölda veiðidaga taki þá mið af leyfilegum heildarafla, þátttöku í veiðunum og þróun veiða á fyrstu vikum vertíðar. Frumvarpinu er ætlað að tryggja möguleika sjómanna til veiða sem stundað hafa þessar veiðar um árabil en hafa flestir ekki aflaheimildir í öðrum fisktegundum. Veiðarnar myndu því takmarkast við ákveðna stærð báta sem tryggir tilveru smærri útgerða og hinna dreifðu sjávarbyggða.

Flutningsmenn segja í greinargerð að grásleppuveiðar hafi ekki ógnað grásleppustofninum með nokkrum hætti sé litið til vísindalegrar veiðiráðgjafar Hafrannsóknastofnunar, enda hafi veiði nánast öll árin verið vel innan ráðgjafar stofnunarinnar. Frumvarpið falli því vel að markmiðum um verndun og hagkvæma nýtingu nytjastofna á Íslandsmiðum.

Töluverðar umræður urðu um frumvarpið við fyrstu umræðuna og lögðust þingmenn stjórnarandstöðunnar sem til máls tóku gegn frumvarpinu. Töldu þeir að nauðsynlegur fyrirsjáanleiki í útgerðinni væri ekki með stjórnun í fjölda veiðidaga og fleiri atriðum.

Stjórn grásleppuveiðanna í ár hefur verið með nýja sniðinu og kvótasetningunni en verður horfið frá því fyrir næstu vertíð ef frumvarpið verður að lögum.

Að umræðunni lokinni var málinu vísað til atvinnuveganefndar.

Auglýsing

Hvers vegna var Úlfar rekinn?

Fyrirvaralaust var Úlfar Lúðvíksson, fyrrverandi lögreglustjóri á Suðurnesjum, boðaður á fund Þorbjargar S. Gunnlaugsdóttur, dómsmálaráðherra og þingmanns Viðreisnar, í fyrradag þar sem honum var tilkynnt að ráðningarsamningur við hann yrði ekki endurnýjaður þegar hann rynni út í haust og að embættið yrði auglýst til umsóknar. Úlfari var ekki greint frá því fyrir fundinn hvert tilefni hans væri. Haft var eftir ráðherranum í fjölmiðlum að ákvörðunin hefði verið pólitísks eðlis.

„Fyrirhugaðar eru töluverðar breytingar á embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum sem eru í samræmi við áherslur nýrrar ríkisstjórnar um verulega aukinn þunga í landamærapólitík. Það liggur fyrir að ég mun leggja fram frumvarp í haust um brottfararstöð. Það eru sömuleiðis fyrirhugaðar breytingar um það að flytja komustöð svokallaða til Suðurnesja. Samhliða því að það er verið að skoða alvarlega að flytja ákveðin verkefni frá Ríkislögreglustjóra til lögreglustjórans.“

Með þessum hætti rökstuddi Þorbjörg ákvörðun sína um að segja Úlfari upp störfum í samtali við Vísi í gær sem er áhugavert í ljósi þess að hann hefur sjálfur ítrekað kallað eftir því í fjölmiðlum að stjórnvöld tækju landamæraeftirlitið fastari tökum og bent á brotalamir í þeim efnum. Bæði í tíð núverandi og síðustu ríkisstjórnar. Þá hefur ítrekað verið fjallað í fjölmiðlum um aukinn árangur lögreglunnar á Suðurnesjum til að mynda varðandi brottvísun erlendra afbrotamanna.

Fyrir vikið hefði mátt ætla að áframhaldandi störf Úlfars féllu einkar vel að áðurnefndum áherzlum dómsmálaráðherra og þær þar af leiðandi miklu fremur rök fyrir því að endurnýja ráðningarsamning hans frekar en að segja honum upp. Hins vegar hefur Úlfar einnig bent á ýmsar brotalamir varðandi aðild Íslands að Schengen-svæðinu. Sú gagnrýni fellur vitanlega illa að stefnu Viðreisnar um að gengið verði í Evrópusambandið en eins og ráðherrann sagði var ákvörðunin pólitísk.

Fyrir skömmu ritaði Guðni Ágústsson, fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins, grein í Morgunblaðið þar sem hann gagnrýndi aðildina að Schengen-svæðinu og vitnaði í nýleg ummæli Úlfars í Dagmálum um grafalvarlega stöðu mála á landamærunum að öðrum aðildarríkjum þess. Meðal annars þau ummæli að stjórnvöld yrðu að vakna í þeim efnum. „Viðtalið við lögreglustjórann er nánast samfellt neyðaróp. Ákall til stjórnmálamanna um að grípa í taumana.“

„Ég skora á dómsmálaráðherra að skoða þá fullyrðingu Úlfars Lúðvíkssonar lögreglustjóra að herða verði löggjöfina á landamærum,“ sagði Guðni áfram. Þorbjörg svaraði á síðum Morgunblaðsins og sagði áhyggjur Guðna ástæðulausar. Taldi hún síðan upp mál sem hún væri með í gangi en eiga það flest sameiginlegt að hafa átt upphaf sitt í tíð forvera hennar. Til að mynda brottfararstöð og hælissvipting vegna alvarlegra afbrota. Réttum tveimur vikum síðar rak hún Úlfar.

Hjörtur J. Guðmundsson er sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur

Auglýsing

Aðgerðabáturinn Óðinn

Óðinn er tíu metra langur strandgæslubátur sem smíðaður er af fyrirtækinu Rafnar ehf. Hann var afhentur Landhelgisgæslunni sumarið 2015.

Um er að ræða byltingarkennda bátasmíði sem byggir á nýrri hönnun á þessari tegund báta. Báturinn hefur mikla þýðingu fyrir Landhelgisgæsluna og eykur möguleika hennar á að sinna fjölbreyttum verkefnum sínum.

Þróun bátsins hófst árinu 2011 í samvinnu við Landhelgisgæsluna en báturinn er sérsmíðaður og sérstaklega hannaður eftir þörfum Landhelgisgæslunnar. Frumútgáfur bátsins voru í prófunum í þrjú ár við margvíslegar aðstæður og hefur báturinn reynst afar vel.

Með tilkomu Óðins í flota Landhelgisgæslunnar hafa möguleikar hennar aukist á að sinna fjölmörgum verkefnum og staðbundnu eftirliti á hagkvæmari og fljótlegri hátt en á stærri skipum. Báturinn eykur meðal annars stórlega möguleika Landhelgisgæslunnar til öryggis- og löggæslu á grunnslóð. Þá eru kostir bátsins miklir þegar kemur að æfingum með þyrluáhöfnum Landhelgisgæslunnar sem og varðskipum og öðrum björgunareiningum í landinu.

Báturinn nýtist einnig sem aðgerðabátur sprengju- og séraðgerðasveitar Landhelgisgæslunnar sem og í margvísleg löggæslu- og eftirlitsverkefni og önnur sérverkefni. Bátur af þessari stærðargráðu er hagkvæm eining bæði til eftirlits og þjálfunar og gerir Landhelgisgæslunni kleift að skipuleggja betur nýtingu báta og varðskipa og bregðast við aðstoðarbeiðnum á grunnslóð með skjótari hætti.

Óðinn er í umsjá sprengjueyðingar- og séraðgerðasveitar Landhelgisgæslunnar.

Af vefsíðunni lhg.is

Auglýsing

Nýjustu fréttir