Sunnudagur 18. maí 2025
Heim Blogg

Umfangsmikil æfing á Ísafjarðardjúpi

Umfangsmikil fjöldabjörgunaræfing fór fram á Ísafjarðardjúpi í dag. Landhelgisgæsla Íslands stóð að æfingunni í samvinnu við almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra, lögregluna á Vestfjörðum, Slysavarnafélagið Landsbjörg, Rauða krossinn, Neyðarlínuna, slökkviliðin á Vestfjörðum og aðra viðbragðsaðila.

Í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni egir að afar mikilvægt sé að æfa með reglubundnum hætti þær krefjandi aðstæður sem upp kunna að koma og samhæfa viðbrögð íslenskra viðbragðsaðila.

Varðskipið Þór var í hlutverki farþegaskips á æfingunni í dag og kom það í  hlut þeirra viðbragðsaðila sem tóku þátt í æfingunni að vinna saman að því að koma farþegum frá borði og samræma aðgerðir.

Á undanförnum mánuðum hefur Landhelgisgæslan unnið að viðbragðsáætlun vegna fjöldabjörgunar á hafinu en henni er ætlað að ná yfir hópslys sem verða á leitar- og björgunarsvæði Íslands umhverfis landið. 

Landhelgisgæslan hefur það að markmiði að æfa viðbrögð sem þessi víða um land. Viðbrögð viðbragðsaðila og samvinna þeirra var til fyrirmyndar á æfingunni í dag sem heppnaðist sérlega vel.

Kobbi Láka á siglingu.

Þjörgunarþyrlan æfir hífingu.

Ljósmyndir: Halldór Sveinbjörnsson.

Auglýsing

Vísur úr Djúpi og víðar að II

Guðbrandur Baldursson frá Vatnsfirði í Ísafjarðardjúpi hefur tekið saman nokkrar vísur. Vonast hann til þess að slíkt megi verða til auðgunar íslensks máls og meðferðar í rituðu máli og einkum gamans aflestrar þeirra er leggja slíkt sér til.

Guðbrandur hefur þann formála að tilurð og „ástæður/vísna eru mismunandi eins og efni gefa til og oft er gott að rifja upp ástæður/aðstæður við birtingu, að mínu viti gefur það meiri sjarma og lyftingu svona eins og skrautborði í blómasal minninga og mannlegrar sögu.“

Hér kemur seinni hlutinn af vísnabréfi hans:

Ótal vísur á ég í gestabókum hér og þar og viðskilnaður oft með þeim hætti að niðurskrif voru með bágbornari hætti og verður því minnið að duga.

Hringhendur eru vísur mið innrími eða miðrími og eru nokkrar slíkar til.

Birtingarleyfi fær þessi :

Að vori einu hafði andinn lítt sótt mig heim um veturinn og varð þessi þá til.

Sólin getur sigrað hyl

sálartetur glæðist

af er vetur um það bil

ekkert letur frá mér læðist.

Birtingarleyfi fær þessi :

Stoltastur er ég þó af þessari sem hugsuð var til húsmæðra þessa lands og er hún tileinkuð þeim öllum. Þó einkum móður minnar Ólafíu Salvarsdóttur frá Reykjarfirði.

Ræktað hefur rætur garðs

úr rótum lífsins spunnið

Nýtur þessa nytjaarðs

nú sem til er unnið.

Birtingarleyfi fá þessar :

Þorvaldur Baldursson frá Vatnsfirði bróðir höfundar lést 4 janúar 2022 úr Covid sýkingu og er hann lá banalegu sína á Landsspítala er tók um 6 vikur tengdur öndunarvél komu þessar til mín skömmu fyrir andlát og náði hann því aldrei að lesa þessa brottfarargjöf. Áður birtar á samfélagsmiðli.

Biðin lamar hug og hönd

hægt þá tíminn líður

Kraftaverka bið um bönd

bærist andinn þíður.

Bróðir knár þú stríðin strjál

staðið hefur af þér

Hefur ætíð heimsins prjál

haldið burtu frá þér.

Sendum bænir bróður til

er berst nú fyrir lífi

Megi englar Guðs nú þekja þil

þrótt og styrk upp hífi.

Læt ég nú staðar numið í bili og legg ég þetta í þínar hendur. Gef ég þér leyfi til að koma með inngang og umorðun ef þurfa þykir ekki síst prófarkalestur. Meira er til í skríni mínu en það bíður betri tíma þetta er þó eitthvað til að vinna úr.

Auglýsing

OV : milljarður kr. í framkvæmdir

Halldór V. Magnússon, Elías Jónatansson, Sölvi R. Sólbergsson ásamt Elenu Dís Víðisdóttur á verkstað við borun TD-09. Mynd: O.V. ársskýrsla 2024.

Í ársskýrslu Orkubús Vestfjarða sem lögð var fram á ársfundi fyrirtækisins í gær kemur fram að lítilsháttar hagnaður varð af rekstrinum 43,6 m.kr. af 4.298 m.kr. tekjum.

EBITDA lækkaði hins vegar um 271 millj. kr. á milli ára en hreinn kostnaðarauki við olíubrennslu í
kjölfar skerðinga á árinu nam 480 millj. kr. Rekja má aukningu rekstrartekna annars vegar til aukinna umsvifa í samfélaginu og hins vegar til verðhækkana á gjaldskrám fyrirtækisins.
Launakostnaður félagsins hækkaði um 5% á milli ára, en að teknu tilliti til breytinga lífeyrisskuldbindinga og eignfærslu launa við framkvæmdaverkefni þá lækka laun samkvæmt
rekstrarreikningi um 4,4%. Stöðugildum fjölgaði um eitt frá fyrra ári.

Tekjur raforkusölu jukust um 10,3% á milli ára og námu 1.038 millj. kr., en tekjur af dreifingu voru 1.839 millj. kr. og hækkuðu um 12,9%. Þá jukust tekjur af sölu á heitu vatni um 11,4% og voru samtals 1.035 millj. kr. og aðrar tekjur voru 386 millj. kr.


Eignir Orkubúsins námu í lok árs kr. 14.943 millj. kr. en skuldir voru 3.932 millj. kr. þannig að eigið fé félagsins nam 11.011 millj. kr.

Framkvæmdir 1.069 m.kr.

Heildarfjárfesting ársins 2024 nam 1.069 millj. kr. og voru stærstu verkefnin á sviði virkjanarannsókna og jarðhitaleitar. Allt bendir til að fram undan séu enn stærri framkvæmdaár hjá Orkubúinu, hvort sem litið er til framkvæmda við virkjanir eða jarðhita.

Þá er rétt að taka fram að í desember var undirritaður samningur um tengingu kalkþörungaverksmiðju í Súðavík, sem jafnframt mun auka afhendingaröryggi raforku til annarra notenda í Súðavík og í Álftafirði til muna, enda hefur Súðavíkurlína verið einn veikasti hlekkurinn í dreifikerfi Orkubús Vestfjarða. Þar er um að ræða framkvæmd sem áætlað er að kosti talsvert á annan milljarð króna.

Auglýsing

Bíldudalsvegur: þungatakmörkunum aflétt

Bíldudalsvegur í Arnarfirði eftir óveður.

Þeim sérstöku ásþungatakmörkunum, sem hafa verið í gildi á Bíldudalsvegi (63) á milli Bíldudals flugvallar og Helluskarðs, var aflétt í gær föstudaginn 16. maí kl. 17:00.

Auglýsing

Atvinnufrelsi !

Ég hef nú mælt fyrir mikilvægu frumvarpi á Alþingi um veiðistjórn á grásleppu sem færir veiðistjórnina í fyrra horf með dagakerfi sem tryggir sjómönnum aftur rétt sinn til veiða og afnemur þau ólög sem sett voru á 2024 með kvótasetningu og framsal.

Frumkvæðismá atvinnuveganefndar.

Meirihluti atvinnuveganefndar flytur þetta frumkvæðismál en annar meirihluti atvinnuveganefndar í fyrra vor flutti einnig það lagafrumvarp sem nú eru í gildi og hefur svipt fjölda sjómanna atvinnurétti sínum til grásleppuveiða og gert fjárfestingar þeirra verðlausar í kjölfarið sem er í raun eignaupptaka fyrir fjölmargar minni útgerðir og fjölskyldufyrirtæki. Núverandi lög  þjóna hvorki hagsmunum atvinnugreinarinnar né nytjastofnum og þar með ekki hagsmunum sjávarbyggðanna né almennings.

Veiðistýring með dögum tekin upp aftur.

Með frumvarpinu verði aftur tekin upp veiðistýring með útgáfu leyfa og fjölda veiðidaga  sem tekur mið af leyfilegum heildarafla ,þátttöku í veiðunum og þróun veiða á fyrstu vikum vertíðar. Frumvarpið hefur það markmið að tryggja aftur þeim sjómönnum rétt til veiða sem stundað hafa þessar veiðar um árabil og einnig nýliðum sem hafa verið að fjárfesta í greininni og fengu enga eða það litla úthlutun kvóta með núverandi lögum að þeir eiga enga möguleika á að stunda veiðar að óbreyttu.

Stærðarmörk báta.

Veiðarnar myndu með þessu laga frumvarpi takmarkast við ákveðna stærð báta sem tryggir tilveru smærri útgerða og hinna dreifðu sjávarbyggða.  Í núverandi ólögum eru engin stærðarmörk á bátum sem þýðir áframhaldandi samþjöppun í sjávarútvegi í þágu stórútgerða og kvótaeigenda með því framsali sem sett var á og er strax farið að sýna á sér klærnar.

Ef ekkert verður að gert má reikna með að grásleppuréttindi færist yfir á stór skip og farið er að ræða um veiðar á grásleppu í botnvörpu á úthafinu sem er algjörlega á skjön við aðvaranir hins þekkta vísindamanns Davids Attenborough gegn botnvörpuveiðum sem fara illa með lífríki sjávar og hvetur hann til eflingar umhverfisvænna veiða smábáta með umhverfisvæn veiðarfæri eins og netaveiðar og krókaveiðar eru við strendur landsins.

Veiðiráðgjöf Hafró áhyggjuefni.

Það er áhyggjuefni hve Hafró hefur í raun litlar rannsóknir til að byggja á varðandi veiði ráðgjöf um stofnstærð grásleppunnar og eingöngu sé byggt á togararalli en ekki á sama hátt og aðrar uppsjávartegundir.  Mikilvægt er að taka fleiri þætti inn í rannsóknir svo byggja megi á traustri ráðgjöf.

Ég treysti því að með því að færa veiðistjórnina í fyrra horf og lagfæra það sem þarf til hagsbóta fyrir greinina séum við að treysta smábátaútgerð og atvinnu í landsbyggðunum með samspili grásleppu og strandveiða.

Lilja Rafney Magnúsdóttir alþingismaður Flokks fólksins.

Auglýsing

Tveir leikir í fótboltanum í dag

Tveir leikir fara fram í meistaraflokki hjá Vestra og Herði á í dag.

Vestri mætir Dalvík/Reyni í 2. deild kvenna kl 14:00 á Kerecisvellinum. Þetta er fyrsti heimaleikur stelpnanna í sumar en þær lögðu Smára að velli, 1-0, á síðustu helgi.

Strákarnir í Herði mæta Knattspyrnufélaginu Miðbæ (KM) í Kórnum í Kópavogi kl 14:00 en það er fyrsti leikur beggja liða í A-riðli 5. deildarinnar í sumar.

Auglýsing

Logi heimsækir Vestfirði

Logi Einarsson, menningar,- nýsköpunar og háskólaráðherra, mun á kjörtímabilinu reglulega heimsækja sveitarfélög utan höfuðborgarsvæðisins. Með þessu vill ráðherra styrkja beint samtal við íbúa, fyrirtæki, stofnanir og sveitarstjórnarfólk um allt land og um leið tryggja að sjónarmið fólks víðs vegar að fái að heyrast beint inn í stefnumótun ráðuneytisins.

Fyrsta heimsóknin verður á Ísafjörð 21. maí nk. og í haust verður haldið áfram með ferðir í fleiri landshluta. Fundadagskrá næsta vetrar verður auglýst sérstaklega í september.

Í hverri heimsókn verða opnir viðtalstímar þar sem almenningi gefst tækifæri til að ræða við ráðherra um málefni sem heyra undir menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðuneytið. Þá mun ráðherra einnig heimsækja fyrirtæki og stofnanir á svæðinu og funda með kjörnum fulltrúum.

Auglýsing

Unnur Valborg nýr stjórnarformaður OV

Á ársfundi Orkubús Vestfjarða í dag var tilkynnt um nýja stjórn Orkubúsins. Unnur Valborg Hilmarsdóttir Hvammstanga er nýr stjórnarformaður. Aðrir í stjórn eru Ástvaldur Jóhannsson, Seltjarnarnesi, Sigríður Kristjánsdóttir, Ísafirði, Þröstur Söring Hafnarfirði og Viktoría Rán Ólafsdóttir, Hólmavík.

Í varastjórn eru Magnús Björnsson, Reykjavík, Vaka Óttarsdóttir, Akureyri, Eiríkur Valdimarsson, Hólmavík, Kjartan Már Kjartansson, Keflavík og Erla Jónsdóttir, Blönduósi.

Það er fjármálaráðherra sem skipar stjórnina enda OV að fullu í eigu ríkisins.

Auglýsing

Enginn frá Túrkimenistan, Kómoreyjum, Dóminiku og Belís skráður með búsetu hér á landi

Alls voru 81.277 erlendir ríkisborgarar skráðir með búsetu hér á landi þann 1. maí sl. og fjölgaði þeim um 731 einstaklinga frá 1. desember 2024 eða um 0,9%. Þetta kemur fram í tölum frá Þjóðskrá

Ríkisborgurum frá Úkraínu og Palestínu heldur áfram að fjölga. Úkraínskum ríkisborgurum fjölgaði um 153 eða 3,2% og ríkisborgurum frá Palestínu fjölgaði um 31 eða 3,8% frá 1. desember sl. Pólskum ríkisborgurum fækkaði um 123 og eru nú 26.416 pólskir ríkisborgarar með lögheimili á Íslandi.

Á sama tímabili fjölgaði íslenskum ríkisborgurum um 685 einstaklinga eða um 0,2%.

Hér á Íslandi er fólk frá flestum löndum heims þó er enginn frá Túrkimenistan, Kómoreyjum, Dóminiku og Belís.

Samtals eru ríkisborgarar frá 165 þjóðríkjum búsettir á Íslandi.

Auglýsing

Sköpunarmiðstöðin á Stöðvarfirði hlýtur Eyrarrósina 2025

Eyrarrósin er viðurkenning sem veitt er fyrir framúrskarandi menningarverkefni utan höfuðborgarsvæðisins og voru verðlaunin afhent í nítjánda sinn í gær við hátíðlega athöfn í Alþýðuhúsinu á Siglufirði.

Hr. Björn Skúlason maki forseta og verndari Eyrarrósarinnar veitti verðlaunin. Sköpunarmiðstöðin á Stöðvarfirði hlýtur verðlaunin að þessu sinni og skipar sér í hóp framúrskarandi verkefna sem hlotið hafa verðlaunin á síðustu 20 árum.

Una B. Sigurðardóttir, stjórnarmaður og fyrrum framkvæmdastjóri Sköpunarmiðstöðvarinnar tók á móti viðurkenningunni og verðlaunafé að fjárhæð 2,5 m.kr. Nýjum Eyrarrósarhafa er jafnframt boðið að standa að viðburði á Listahátíð 2026 og framleitt verður heimildamyndband um verkefnið.

Alls bárust 34 umsóknir um Eyrarrósina og hvatningarverðlaunin hvaðanæva af landinu.

Hvatningarverðlaun Eyrarrósarinnar voru nú veitt í þriðja sinn. Viðurkenningin er veitt þremur metnaðarfullum verkefnum sem þykja hafa listrænan slagkraft, jákvæð áhrif á nærsamfélagið og alla burði til að festa sig í sessi. Hvatningarverðlaun Eyrarrósarinnar 2025 hlutu Gletta á Borgarfirði Eystri, Afhverju Ekki á Laugum, Þingeyjarsveit og Tankarnir á Raufarhöfn. Hljóta þau hvert um sig verðlaunafé að fjárhæð 750.000 auk gjafakorts frá Icelandair að fjárhæð 100.000.

Eyrarrósin er samstarfsverkefni Listahátíðar í Reykjavík, Byggðastofnunar og Icelandair.

Auglýsing

Nýjustu fréttir