Arna Lára Jónsdóttir, fyrrverandi bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar og þingmaður okkar hér í Ísafjarðarbæ, skrifaði nýlega grein á Vísi þar sem hún dásamar frumvarp ríkisstjórnarinnar um tvöföldun á veiðigjaldi. Í greininni segir: ”Af hverju er verið að hækka veiðigjaldið? Þetta er fyrst og fremst réttlætismál fyrir þjóðina að fá leiðrétt afgjald fyrir eignina sína og það er verið að sækja tekjur til að vinna á innviðaskuldinni.“
Í þessu felast augljós öfugmæli. Það er fyrst og fremst réttlætismál að samfélög þar sem sjávarútvegur er stundaður fái að blómstra og að fyrirtækin sem þar starfa geti sótt fram, búið til störf og aflað tekna sem seytlast niður í samfélagið í formi afleiddra starfa. Þetta samhengi þekkir Arna Lára mætavel.
Það er afbökun að halda því fram að með því að hækka skatta á vestfirsk sjávarútvegsfyrirtæki séu meiri möguleikar á að byggja upp innviði hér fyrir vestan. Því hefur verið haldið fram að fyrir hverjar tvær skattkrónur sem við Vestfirðingar greiðum sé annarri eytt hér á svæðinu en hin fari í miðlæg kerfi á höfuðborgarsvæðinu. Í höfuðborginni er þessu öfugt farið. Það er, báðum krónum skattgreiðenda á höfuðborgarsvæðinu eytt, auk þeirra sem koma að vestan.
Það er blekking að halda því fram að hækkun skatta á vestfirsk fyrirtæki skili sér aftur hingað til baka.
Með þetta í huga finnst mér mikilvægt að hagsmunir kjósenda á Vestfjörðum og í Ísafjarðarbæ þar sem þú varst bæjarstjóri þar til fyrir ekki svo löngu séu skýrir. Þess vegna langar mig að biðja þig um að svara einföldum spurningum um þetta svo hægt sé að átta sig á því hvað tvöföldun á veiðigjaldi hefur á okkur hér vestra. Það má kalla þetta grundvallarspurningar þegar ráðist er í kerfisbreytingar í grundvallaratvinnugrein.
- Hvaða þýðingu hefur þessi hækkun fyrir fjögur stærstu sjávarútvegsfyrirtækin á Vestfjörðum?
- Hvað borga þau núna og hvað munu þau borga ef þetta nær fram að ganga?
- Hvernig bætir þetta frumvarp hagsmuni íbúa Ísafjarðarbæjar?
- Mun tvöföldun á veiðigjaldi auka framboð á störfum á Vestfjörðum?
- Mun hækkunin hvetja fyrirtækin til þess að fjárfesta í samfélaginu?
- Og að lokum, telur þú líkur á því að fyrirtæki muni í auknum mæli sameinast og hvaða áhrif telur þú að það muni hafa á Vestfirði?
Höfundur er kjósandi Norðvesturkjördæmi
Daníel Jakobsson