Mánudagur 12. maí 2025
Heim Blogg

Svör óskast, Arna Lára, áður en lengra verður haldið

Arna Lára Jónsdóttir, fyrrverandi bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar og þingmaður okkar hér í Ísafjarðarbæ, skrifaði nýlega grein á Vísi þar sem hún dásamar frumvarp ríkisstjórnarinnar um tvöföldun á veiðigjaldi. Í greininni segir: ”Af hverju er verið að hækka veiðigjaldið? Þetta er fyrst og fremst réttlætismál fyrir þjóðina að fá leiðrétt afgjald fyrir eignina sína og það er verið að sækja tekjur til að vinna á innviðaskuldinni.“

Í þessu felast augljós öfugmæli. Það er fyrst og fremst réttlætismál að samfélög þar sem sjávarútvegur er stundaður fái að blómstra og að fyrirtækin sem þar starfa geti sótt fram, búið til störf og aflað tekna sem seytlast niður í samfélagið í formi afleiddra starfa. Þetta samhengi þekkir Arna Lára mætavel.

Það er afbökun að halda því fram að með því að hækka skatta á vestfirsk sjávarútvegsfyrirtæki séu meiri möguleikar á að byggja upp innviði hér fyrir vestan. Því hefur verið haldið fram að fyrir hverjar tvær skattkrónur sem við Vestfirðingar greiðum sé annarri eytt hér á svæðinu en hin fari í miðlæg kerfi á höfuðborgarsvæðinu. Í höfuðborginni er þessu öfugt farið. Það er, báðum krónum skattgreiðenda á höfuðborgarsvæðinu eytt, auk þeirra sem koma að vestan. 

Það er blekking að halda því fram að hækkun skatta á vestfirsk fyrirtæki skili sér aftur hingað til baka.

Með þetta í huga finnst mér mikilvægt að hagsmunir kjósenda á Vestfjörðum og í Ísafjarðarbæ þar sem þú varst bæjarstjóri þar til fyrir ekki svo löngu séu skýrir. Þess vegna langar mig að biðja þig um að svara einföldum spurningum um þetta svo hægt sé að átta sig á því hvað tvöföldun á veiðigjaldi hefur á okkur hér vestra. Það má kalla þetta grundvallarspurningar þegar ráðist er í kerfisbreytingar í grundvallaratvinnugrein. 

  1. Hvaða þýðingu hefur þessi hækkun fyrir fjögur stærstu sjávarútvegsfyrirtækin á Vestfjörðum?
  2. Hvað borga þau núna og hvað munu þau borga ef þetta nær fram að ganga?
  3. Hvernig bætir þetta frumvarp hagsmuni íbúa Ísafjarðarbæjar?
  4. Mun tvöföldun á veiðigjaldi auka framboð á störfum á Vestfjörðum?
  5. Mun hækkunin hvetja fyrirtækin til þess að fjárfesta í samfélaginu?
  6. Og að lokum, telur þú líkur á því að fyrirtæki muni í auknum mæli sameinast og hvaða áhrif telur þú að það muni hafa á Vestfirði?

Höfundur er kjósandi Norðvesturkjördæmi

Daníel Jakobsson

Auglýsing

Húnaþing vestra og Dalabyggð í formlegar sameiningarviðræður

Verkefnastjórn um óformlegar viðræður Húnaþings vestra og Dalabyggðar hefur lagt til við sveitarstjórnir sveitarfélaganna tveggja að gengið verði til formlegra viðræðna um sameiningu þeirra. Sveitarstjórnir Húnaþings vestra og Dalabyggðar samþykktu báðar í síðustu viku að hefja formlegar sameiningarviðræður. Málið verður þó afgreitt endanlega úr sveitarstjórnunum eftir tvær umræður en seinni umræða fer fram í júní.

Húnaþing vestra hefur skipað tvo aðalfulltrúa og tvo til vara í samstarfsnefnd um sameininguna en í henni sitja Magnús Magnússon og Magnús Vignir Eðvaldsson sem aðalmenn og Sigríður Ólafsdóttir og Þorleifur Karl Eggertsson sem varamenn. Fulltrúar Dalabyggðar eru Ingibjörg Þóranna Steinudóttir og Skúli Hreinn Guðbjörnsson.

Sveitarstjórn beggja sveitarfélaganna beina því til samstarfsnefndar að stefnt verði að kosningu um sameiningu eigi síðar en í desember 2025.

Samstarfsnefnd skal leita eftir sjónarmiðum og hugmyndum íbúa, starfsmanna og annarra hagsmunaaðila við undirbúning tillögu sem lögð verður fyrir íbúa í atkvæðagreiðslu.

Samstarfsnefnd er falið að gera verk- og tímaáætlun fyrir verkefnið og sækja um framlag úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga til að standa straum af kostnaði.

Með sameiningu verður til sveitarfélag með 1.927 íbúum. Í Dalabyggð eru 675 íbúar og í Húnaþingi vestra búa 1.252 íbúar.

Auglýsing

Tungumála-Tinder!

Nú kann að vera að einhverjir kannist við mitt miður fríða smetti (afsakið það) og þá einkum í sambandi við verkefnið Gefum íslensku séns – íslenskuvænt samfélag sem ég stofnaði til í byrjun ársins 2021 hjá Háskólasetri Vestfjarða og þróaði til febrúarmánaðar ársins 2025. Ekki er ólíklegt að einhverjir hér kannist við hvernig ég lagði mig í líma við að kynna það og mikilvægi íslensku í samfélaginu og hvernig samfélagið geti gert sitt til að hjálpa til við máltileinkun þeirra sem læra íslensku og vilja aðlagast samfélaginu sem best.

Nú er ég hættur þeirri vitleysu enda langeinfaldast að tala bara ensku á Íslandi. Það hefir ekkert upp á sig að púkka upp á frónlensku lengur. Það er búið spil.

En ég nenni ekki að sitja með hendur í skauti og langar því að kynna nýtt verkefni fyrir Vestfirðingum sem einmitt eru svo lukkulegir að búa í fjölmálasamfélagi.

Þannig er mál með vexti að fyrir ekki fyrir svo löngu hafði maður að nafni Nathan samband við mig. Hann hafði heyrt mig gaspra á Samstöðinni hjá Oddnýju Eir Ævarsdóttur er hún fór þess á leit við mig að ég myndi segja aðeins frá Tungumálaskiptunum sem ég stend að ásamt MÍ og Bókasafninu. Þar ámálgaði Oddný þá hugmynd að réttast væri að útbúa e.k. Tungumála-Tinder-app sem hefði það að markmiði að tengja fólk saman svo það geti æft tungumál hvor annars. Frábær hugmynd.

Á þeim tímapunkti var bara verið að fabúlera, að ég hélt. Nú fljótlega eftir mitt gaspur hefir téður Nathan samband við mig, hann hafði heyrt mig þvaðra á Samstöðinni, og segir mér að viðlíka app sé í þróun (hann á heiðurinn að því) og fer þess á leit við mig að ég veiti liðsinni. Mér finnst hugmyndin það góð að ég jánka.

Og þá er ég kominn að aðalatriði þessa greinastúfs eða hvað sem kalla má þennan barning. Til þess að þróa þetta verkefni þarf að mata appið. Til þess væri liðsinni þeirra sem e.t.v. hefðu áhuga á þessu uppátæki (engin skuldbinding fólgin í þessu) vel þegið, s.s. liðsinni þeirra sem langar ef til vill að æfa sig í spænsku, þýsku, frönsku, arabísku eða ensku og bjóða sitt mál á móti. Þetta er sem sagt ekki íslenskuátak sem slíkt.

Hér er sumsé eyðublað sem þið gætuð fyllt út séuð þið áhugasöm og hafið hug á að hjálpa þessu verkefni við að ýta úr vör:  

Upplýsingar frá nemendum

Information from students

Ég tek fram að ég hefi engan efnahagslegan ábáta af þessu og er ekki að kynna þetta til að mata krókinn. Mér finnst þetta bara svo ansi góð hugmynd að hún verði að verða að veruleika.

Ólafur Guðsteinn Kristjánsson, áhugamaður um tungumálalega fjölbreytni

Auglýsing

Vestri vann Aftureldingu – í 2. sæti Bestu deildarinnar

Fjölmenni var í stúkunni á Kerecis vellinum á Torfnesi. Áætlað er að um 400 manns hafi verið þar. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Gott gengi Vestra í Bestu deild karla hélt áfram um helgina. Afturelding frá Mosfellsbæ kom í heimsókn. Vestri hagaði leik sínum eins og í fyrri leikjum, lék vel skipulagðan varnarleik og sótti hratt þegar færi gafst. Þessi leikaðferð skilaði góðum árangri. Þrátt fyrir að Afturelding hafi verið meira með boltann og sótt nokkuð fékk liðið fá færi til að skora, en Vestri nýtti hraðar sóknir og gerði usla í vörn Mosfellinganna og skoraði tvö mörk, þar fyrra eftir að vítaspyrna var dæmd.

Var niðurstaða leiksins fyllilega verðskulduð og með sigrinum hélt Vestri 2. sætinu í deildinni eftir 6 umferðir. Reyndar hefur ekkert lið fengið fleiri stig en Vestri. Breiðablik og Víkingur hafa jafnmörg stig og Vestri eða 13.

Arnór Borg Guðjohnsen skorar seinna mark Vestra.

Auglýsing

Leikfélag Hólmavíkur fær viðurkenningu

Formaður dómnenfdar var Vala Farrel. Ólöf Þórðardóttir formaður Bandalagsins tók við viðurkenningunni fyrir hönd þeirra Hólmvíkinga. Mynd: þjóðleikhúsið.

Þjóðleikhúsið hefur greint frá því að sýning Leikfélags Hólmavíkur á 39 þrepum hafi verið valin áhugaverðasta áhugaleiksýning ársins. Þetta er í þrítugasta og þriðja sinn sem Þjóðleikhúsið stendur fyrir vali á áhugaleiksýningu ársins. Að þessu sinni sóttu alls tólf leikfélög um að koma til greina við valið með þrettán sýningar.

Leikstjóri er Eyvindur Karlsson.

Í umsögn dómnefndar segir:

„Það er samdóma álit dómnefndar að sýning Leikfélags Hólmavíkur á 39 þrep íleikstjórn Eyvindar Karlssonar skuli verða fyrir valinu sem athyglisverðasta áhugaleiksýning leikársins 2024-2025. Sýningin er unnin af miklum metnaði og gríðarlegaskapandi hugsun Umgjörð sýningarinnar er einföld en áhrifarík og unun að fylgjst með skemmtilegum og skapandi lausnum þar sem leikhúslistin er knúin til hins ítrasta. Ljós og hljóð eru vel unnin, af hugviti og kímni. Leikgervi og búningar eru til fyrirmyndar og vel leyst úr persónufjöld og hraðaskiptingum. Leikhópurinn er smár en mjög sterkur og skemmtilegur og samband þeirra við áhorfendur feikigott. Leikkonurnar vinna vel með mikinnfjölda hlutverka og gera hverri og einni persónu skýr oggóð skil. Leik- og sköpunargleði ráða ríkjum frá upphafi til enda og úr verður heildstæð og kraftmikil sýning.“

Formaður dómnefndar var Vala Fannell, en með henni í dómnefnd sátu Elín Smáradóttir sýningarstjóri og Oddur Júlíusson leikari.

Leikfélaginu er boðið að koma og sýna 39 Þrep í Þjóðleikhússins í lok maí.

Auglýsing

Sigur hjá Vestra eftir draumamark

Meistaraflokkur kvenna hjá Vestra hóf tímabilið á sigri í 2. deild kvenna með sannkölluðu draumamarki.

Liðið mætti Smára í Kópavogi í gær og sigraði 1-0 en Lilja Borg Jóhannsdóttir var hetja Vestra eftir að hafa skorað sigurmarkið á 4 mínútu uppbótartíma.

Þess má geta að með liði Smára spila Ísfirðingurinn Sigrún Gunndís Harðardóttir og Súgfirðingurinn Þórdís Ösp Benediktsdóttir.

Eftir leikinn er Vestri í fimmta sæti en næsti leikur liðsins er næstkomandi laugardag er það mætir Dalvík/Reynir á Kerecis-vellinum.

Staðan í deildinni

Auglýsing

Á fimmta hundrað manns á handboltamóti

Frá leik milli ÍBV og Þórs frá Akureyri. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Íþróttafélagið Hörður hafði veg og vanda af móti í 5. flokki drengja yngri sem haldið var um helgina á Vestfjörðum. Alls tóku 16 félög þátt í mótinu. Komu tvö frá Akureyri, eitt frá Vestmannaeyjum og Selfossi og tólf félög frá höfuðborgarsvæðinu sendu lið. Frá sumum félögunum voru send fleiri en eitt lið svo þau voru fleiri en tuttugu.

Keppt var frá föstudeginum til sunnudags og spilað bæði í Torfnesi á Ísafirði og í íþróttahúsinu í Bolungavík.

Alls má ætla að nokkuð á fimmta hundrað manns hafi tekið þátt í mótinu sem keppendur og aðstandendur og var mikið um að vera á svæðinu meðan á mótinu stóð. Gist var í Grunnskólanum á Ísafirði og í Menntaskólanum á Ísafirði og mötuleyti var í Grunnskólanum.

Auglýsing

Þorskafjörður: fyrsti sláttur

Frá Múla. Mynd: Ingólfur Kjartansson.

Fyrsti sláttur sumarsins er þegar yfirstaðinn í Múla í Þorskafirði. Eins og sjá má er heimatúnið orðið vel grænt og gras sprottið á því. Verður þetta að teljast óvenjusnemmt enda enn fyrri hluti maímánaðar.

Múli er vestasti bærinn í gamla Reykhólahreppi. Hreppamörkin voru um Múlaá sem rennur um Þorgeirsdal aðeins fyrir utan Múla. Þar tók við Gufudalshreppur og fyrsti bærinn var Hjallar.

Auglýsing

Ferðafélag Ísfirðinga – gönguferð og kynning á ferðaáætlun í Safnahúsinu

Seljalandshlíð – Bæjarhlíð — 1 skór —
Ísfirskir göngustígar og kynning á ferðaáætlun
Laugardaginn 17. maí

Umsjón: stjórn Ferðafélags Ísfirðinga.

Mæting kl. 12.30 við Netagerðina á Grænagarði.
Gengið upp frá Grænagarði inn á göngustíga milli fjalls og byggðar. Endað í Safnahúsinu á Eyrartúni þar sem ferðaáætlun gönguársins 2025 verður kynnt í máli og myndum.
Boðið verður upp á veitingar með kynningunni.
Göngutími: tæp klukkustund. Kynning: tæpar tvær klukkustundir.

Allir velkomnir, félagsmenn jafnt sem aðrir, til að kynna sér gönguferðirnar sem í boði verða á vegum félagsins.

Auglýsing

„Verður engin þjóðaratkvæðagreiðsla“

„Það verður alltaf einhver umræða en það verður engin þjóðaratkvæðagreiðsla að ég tel næstu fjögur árin. Ástæða þess er sú staðreynd að þetta er alltof langt ferli, við horfum upp á mjög mikla ókyrrð í kringum okkur og við þurfum að einbeita okkur að mikilvægustu verkefnunum,“ segir Erna Solberg, leiðtogi norska Hægriflokksins, í samtali við norska fréttavefinn E24 í dag og vísar þar til næsta kjörtímabils í Noregi en þingkosningar fara fram þar í landi næsta haust.

Málflutningur Solbergs, sem hefur líkt og Hægriflokkurinn lengi talað fyrir inngöngu í Evrópusambandið, er á sömu nótum og hjá Jonas Gahr Støre, forsætisráðherra Noregs og leiðtoga Verkamannaflokksins, í ræðu hans á landsfundi flokksins nýverið. Flokkur Støres var áður hlynntur því að ganga í sambandið en hefur í seinni tíð ekki haft það á stefnuskrá sinni og var tillögum um að setja málið á dagskrá og boða til þjóðaratkvæðis í þeim efnum hafnað á fundinum.

„Við þurfum nú að beina orkunni að því að standa vörð um norska hagsmuni. Ekki að eyða henni í langt, krefjandi umsóknarferli [að Evrópusambandinu] sem hætta er á að sundri okkur,“ sagði Støre í ræðunni en sjálfur hefur hann lengi verið hlynntur inngöngu í sambandið. Þjóðaratkvæði um Evrópusambandið væri ekki það bezta fyrir Noreg í ljósi heimsmálanna. „Við erfiðar aðstæður vil ég frekar halda Noregi sameinuðum en setja af stað ný átök með eða á móti.“

Hægriflokkurinn og Verkamannaflokkurinn hafa allajafna verið stærstu stjórnmálaflokkar Noregs og nær undantekningalaust skipzt á að leiða ríkisstjórnir landsins. Hins vegar hafa þeir þurft að vinna með flokkum andvígum inngöngu í Evrópusambandið til þess að mynda ríkisstjórnir. Til þess að mynda ríkisstjórn eftir næstu kosningar þarf Hægriflokkurinn þannig meðal annars að vinna með Framfaraflokknum sem er alfarið andsnúinn því að Noregur gangi í sambandið.

Hvað afstöðu almennings í Noregi varðar hafa allar skoðanakannanir þar í landi undanfarin 20 ár sýnt fleiri andvíga inngöngu í Evrópusambandið en hlynnta. Fátt ef eitthvað bendir þannig til þess að Norðmenn séu á leið í sambandið þrátt fyrir tíðar fullyrðingar um annað í röðum íslenzkra Evrópusambandssinna. Jafnvel leiðtogi samtaka norskra Evrópusambandssinna, Heidi Nordby Lunde, hefur lýst þeirri skoðun sinni að sú verði ekki raunin í fyrirsjáanlegri framtíð.

Hjörtur J. Guðmundsson er sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur

Auglýsing

Nýjustu fréttir