Föstudagur 16. maí 2025

Vikuviðtalið: Anna Lind Ragnarsdóttir

Ég heiti Anna Lind Ragnarsdóttir og er 61 árs, fædd og uppalin í Súðavík. Æskan mín var yndisleg, mikið frelsi til þess að nota ímyndunaraflið til leiks og skemmtunar. Ég er yngst sex systkina en tvö þeirra eru látin, aðeins 54 ára og 44 ára. Móðir mín Guðrún Jónasdóttir var frá Súðavík og lést aðeins sextug, árið 1990. Faðir minn Ragnar Þorbergsson fæddur í Miðvík (Aðalvík) kom til Súðavíkur um fermingaraldur eftir að amma og afi hættu störfum á Galtarvita. Hann er 97 ára og er ný fluttur á Eyri Ísafirði eftir að hafa búið á Bergi í Bolungarvík undanfarin ár.

Ég var í grunnskólanum í Súðavík út 7.bekk en fór þá í héraðsskólann í Reykjanesi og kláraði 8.-9.bekk þar, eða grunnskólann, eins og hann var þá. Eftir að grunnskóla lauk fór ég norður á Sauðárkrók og tók eitt ár í framhaldsskólanum þar. Að því loknu hætti ég námi og fór að vinna og ferðaðist um heiminn. Fór til Evrópu, suðaustur Asíu, Singapoor, Bali, Ástralíu og Nýja Sjálands og vann þar um tíma, gríðarlega þroskandi að sjá hvað heimurinn hefur uppá að bjóða, bæði það góða og það slæma.

Ég hef unnið hin ýmsu störf m.a. í frystihúsi, verslunarstörf, og að setja upp og reka fyrstu eiginlegu sjoppuna í Súðavík.  Ég fór í kvöldskóla til þess að klára stúdentsprófið, sem ég lauk við MÍ 1991. Þá var ég byrjuð að kenna í Súðavíkurskóla sem leiðbeinandi og sótti um í fjarnám við Kennaraháskóla Íslands. Lauk B.ed kennaraprófi 1996. Tók leikskóladiplómu 2004 og kláraði M.ed /meistarprófi 2015, allt í fjarnámi. Hef unnið í Súðavíkurskóla síðan 1990, tók við sem skólastjóri 1998 og er enn að😊

Það hlýtur að vera gaman í vinnunni þegar maður er búin að vera í sama starfinu í 35 ár og það er það svo sannarlega.  Þetta er ákaflega gefandi starf, þar sem enginn dagur er eins. Að vinna með börnum er oftar enn ekki gríðarlega skemmtilegt og býður upp á allskonar áskoranir. Uppeldi til ábyrgðar er einhver besta uppeldisstefna sem ég hef komist í kynni við en þar erum við að kenna okkur og börnunum m.a. um grunnþarfir okkar allra og að allir verði að læra að bera ábyrgð á sjálfum sér í stað þess að kenna öðrum um. Þegar við þekkjum og viðurkennum eigin tilfinningar þá erum við færari um að setja okkur í spor annarra og sýna samkennd. Þetta þýðir þó ekki að manni líði aldrei illa eða er laus við öll vandamál, heldur að vera betur undir það búinn þegar eitthvað bjátar á. Lífið er ekki eilífur dans á rósum, það er eðlilegt að eiga stundum slæma daga. Það tilheyrir því að vera manneskja. Við lærum og mætum erfiðleikum af þrautseigju og gefumst ekki upp þótt á móti blási. Við erum færari um að njóta lífsins og finna gleði í því sem lífið hefur upp á að bjóða. En að sjálfsöguðu hefur margt breyst í skólahaldi á þessum árum. Sumt til hins betra en ég verð líka að segja að sumt er ekki eins gott að mínu mati, án þess að fara nánar út í það hérna.

Maðurinn minn heitir Garðar Sigurgeirsson og rekur fyrirtækið Vestfirskir Verktakar á Ísafirði. Við eigum 3 börn, Sigurgeir 1995. Elmar Atli 1997 og Birtu Lind 2000. Við eigum orðið tvö afa og ömmu börn og erum svo heppin að þau búa líka í Súðavík.

Það er oftar en ekki að maður horfir yfir líf sitt þegar eitthvað bjátar á hjá manni. Ég man eftir þegar snjóflóðið í Súðavík féll 16. janúar 1995 þá var ég þrítug og varð 31 árs tveimur dögum síðar eða 18.janúar. það kvöld fór ég einmitt aðeins yfir lífið mitt. Það eina sem mér fannst vanta þá voru börn, við höfðum lengi reynt að eignast barn en ekki tekist. Sú ósk rættist í nóvember sama ár og mér fannst líf mitt fullkomið. Það er ekki fyrr en árið 2009 eftir að hafa fundið mjög litla bólu á öðru brjóstinu að ég fór til læknis og við nánari skoðanir, reyndist þetta vera illkynja karabbamein.  

Maður verður einhvern veginn dofinn og þar sem mikið er af krabbameini í minni ætt, þá varð maður hræddur og hugsaði ,,jæja það er þá komið að mér,, Ég ræddi mikið við guð og bað mikið, ég vildi meina að guð gæti nýtt mig og mína krafta lengur og ég væri til í hvað sem væri, ef ég fengi annað tækifæri. Maður lifnar við og telur í sig kjark til að hefja baráttuna. Ég var ótrúlega heppin allt gekk upp hjá mér, en að sama skapi verður maður viðkvæmur og meyr því ég hef horft á eftir svo mörgum sem töpuðu sinni baráttu við krabbamein.

Þetta var vakning hvað varðar lífið. Ég ákvað að ég skyldi reyna að gera allt sem í mínu valdi væri til að verða betri manneskja, ekki bara fyrir mig og mína heldur líka fyrir samfélagið og aðra.

Ég las mikið um sjúkdóminn og hvað væri ráðlegt að gera í framhaldinu og eitt af því var hreyfing. Þannig varð hreyfing eitt af mínum aðal áhugamálum. Ég tók þetta allt inn og byrjaði að fara í fjallgöngur og það hefur að mínu mati breytt öllu mínu lífi til batnaðar.

Fyrir mig eru fjallgöngur ekki bara líkamleg áreynsla og vellíðan heldur ekki síst fyrir andlegu hliðina. Það að ganga ein hefur gefið mér hvað mest hvað varðar andlega heilsu, það er ekkert sem getur toppað það að vera einn út í náttúrinni, njóta og fara yfir hin ýmsu mál í huganum og leysa úr því sem þarf að leysa. Þetta er eins og snerta ,,hið ósnertanlega,, fegurðin og friðurinn verður hvergi meiri og betri. Maður fyllist lotningu og þakklæti, að fá að upplifa þetta því maður þarf alltaf að muna að það eru margir sem komast aldrei á fjöll, ekki af því að þeir vilji það ekki, heldur komast ekki af ýmsum ástæðum eins og veikindi og fleira.

Áhugamálin eru allskonar en fyrst og síðast að vera sáttur við sjálfan sig og umhverfið sitt, upplifa jafnvægi, öryggi og ánægju af lífi og starfi, upplifa og njóta.

Auglýsing

Fleiri fréttir

Auglýsing

Fleiri fréttir