Fram kom á opnu málþingi, sem haldið var í gær í Súðavík á vegum Vestfjarðastofu, þar sem fjallað verður um frumkvæði og fjárfestingar á Vestfjörðum að tvær stórar framkvæmdir í fjórðungnum kosti 10 – 11 milljarða króna.
Annars vegar er um að ræða nýja kalkþörungaverksmiðju í Súðavík á vegum Íslenska kalkþörungafélagsins sem áætlað er að kosti 7 – 8 milljarða króna. Undirbúningur er þegar hafinn með hafnargerð á Langeyri með landfyllingu og viðlegukanti. Sú framkvæmd er langt komin. Fyrirtæki hefur tryggt sér leyfi til nýtingar á kalþörungum í Ísafjarðardjúpi til næstu 30 ára og má taka 3,5 milljónir rúmmetra af um 100 milljónum rúmmetra sem talið er að námurnar séu. Eigendur að 99% hlutafjár eru írska félagið Marigot Ltd.
Hins vegar eru áform um byggingu á 62 herbergja hóteli á Hólmavík. Það er Fasteignaumsýslan ehf sem stendur fyrir málinu og sagði Friðjón Sigurðsson að áætlaður kostnaður væri um 3 milljarðar króna og að það þyrfti um helming þess í hlutafé. Verið er að kynna verkefnið og leita að fjárfestum. Skipulagsvinna stendur yfir hjá Strandabyggð og er á lokastigi. Friðjón sagði að hugmyndin væri að færa meira af ferðamönnum inn á Vestfjörðum og litið væri til hótelsins m.a. sem lífsstílshótel og skíðahótel. Viljayfirlýsing milli Fasteignaumsýslunnar og sveitarstjórnar var undirrituð vorið 2023.