Þriðjudagur 6. maí 2025

Umhverfisráðherra: meira fé til ofanflóðavarna á næstu árum

Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis-,orku- og loftslagsráðherra ávarpaði málþing um snjóflóð og samfélög sem hófst á Ísafirði í gær og lýkur í dag. Í máli hans kom fram að í nýframlagði fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar til næstu 5 ára væri þrátt fyrir að þar sé lögð áhersla á aðhald í útgjöldum á flestum sviðum, væri ekki verið að skera niður heldur að gefa í þegar kemur að ofanflóðavörnum. Samhliða þessu væri ríkisstjórnin að vinna að heildstæðri stefnu um náttúruvá á Íslandi — með það að markmiði að tryggja forgangsröðun, samræmingu og markvissari nýtingu fjárheimilda.

Ávarp ráðherra í heild:

Kæru fundargestir, íbúar Vestfjarða, samstarfsfólk í ofanflóðamálum, góðir gestir.

Það er mér heiður að standa hér í dag og ávarpa þetta mikilvæga málþing, sem haldið er til að minnast þess að þrjátíu ár eru liðin frá snjóflóðunum hörmulegu í Súðavík og á Flateyri.

Þetta eru atburðir sem ristu djúp sár í íslenskt samfélag og meðvitund þjóðarinnar.

Við sem ekki upplifðum þetta á eigin skinni eigum erfitt með að setja okkur í spor þeirra sem urðu illa úti og þeirra hafa þurft að lifa með þessari lífsreynslu.

Við Íslendingar höfum glímt við náttúruhamfarir allt frá því land byggðist. En jafnvel langt fram eftir 20. öld ríkti ákveðið sinnuleysi gagnvart snjóflóðahættu, sú hætta féll í skuggann af öllu manntjóninu í sjóslysum og illviðrum á landi. Samfélagið tókst á við snjóflóðaslys af æðruleysi, með því að lagfæra skemmdir en harka af sér manntjónið – og svo var bara haldið áfram með tilveruna.

Snjóflóðin í Súðavík í janúar 1995 og á Flateyri í október sama ár ollu straumhvörfum í afstöðu Íslendinga til snjóflóðahættu. Mannskaðasnjóflóðin í Neskaupstað 1974, þar sem tólf fórust, leiddu til ákveðinnar vakningar um að bæta þyrfti viðbúnað við snjóflóðahættu en vinna við greiningu hættunnar á nokkrum stöðum landsins í framhaldinu leiddi ekki til umtalsverðra breytinga. Það var ekki fyrr en eftir flóðin 1995 sem gripið var til afgerandi aðgerða;  Ný lög um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum voru sett árið 1997 og stofnaður var Ofanflóðasjóður til þess að fjármagna hættumat, varnarvirki, uppkaup húsnæðis á hættusvæðum og búnað til rannsókna og eftirlits með ofanflóðahættu.

Veðurstofunni var falin ábyrgð á vöktun snjóflóðahættu og rýmingu húsnæðis í samvinnu við almannavarnir í heimabyggð, og á hættumati, skráningu upplýsinga og rannsóknum á snjóflóðum og snjóflóðahættu. Loks var stjórnsýsla ofanflóðamála færð á einn stað í ráðuneyti umhverfismála í stað þess að hún væri dreifð á fleiri ráðuneyti.

Stjórnvöld mörkuðu stefnu um að meta ofanflóðahættu á traustari forsendum en áður, að byggja upp varnarvirki gegn ofanflóðum eða flytja byggð til þess að íbúar byggju við ásættanlegt öryggi.  Veðurstofa Íslands vann álitsgerð árið 1996 um þörf fyrir snjóflóðavarnir á landinu í samvinnu við erlenda sérfræðinga og sú stefna var mörkuð að varnir fyrir hættulegustu svæði landsins yrðu komnar upp fyrir árið 2010. Það gekk ekki eftir. Áætluðum verklokum var seinkað til 2020 sem tókst heldur ekki – og þá var markið sett á 2030.

Í dag eru framkvæmdir við ofanflóðavarnir langt komnar.

Lokið hefur verið við að reisa um 70% þeirra varna sem nauðsynlegar eru til að verja íbúðarhús á fimmtán þéttbýlisstöðum víðs vegar um landið.

Það er mikilvægt að hafa í huga að í lögunum sem mótuðu þessa stefnu var lögð sérstök áhersla á að verja fólk á heimilum sínum — þar sem það dvelur mestan hluta sólarhrings og þar sem uppsöfnuð áhætta er mest.

Þetta eru framkvæmdir sem hafa aftur og aftur sannað gildi sitt. Mér er sagt að 58 snjóflóð hafa fallið á nýlega varnargarða, víðs vegar á landinu og sum þeirra hefðu, ekki ef ekki væri fyrir þessi mannvirki, náð niður að byggð.

Atburðir undanfarinna fimm ára í Neskaupstað, á Flateyri, Seyðisfirði og Patreksfirði eru auðvitað áminning um að verkinu er ekki lokið. Og líka óþægileg áminning um að uppbyggingin hefur ekki gengið eins hratt og stefnt var að í upphafi.

Þetta er eitthvað sem ný ríkisstjórn horfist í augu við. Og áherslur okkar í þessum efnum eru skýrar. Nýlega kynntum við okkar fyrstu fjármálaáætlun, og þrátt fyrir að þar sé lögð áhersla á aðhald í útgjöldum á flestum sviðum, þá erum við ekki að skera niður heldur að gefa í þegar kemur að ofanflóðavörnum. Við erum að setja meiri fjármuni í ofanflóðavarnir heldur en áður var gert ráð fyrir, til þess einmitt að flýta brýnum framkvæmdum.

Samhliða þessu erum við að vinna að heildstæðri stefnu um náttúruvá á Íslandi — með það að markmiði að tryggja forgangsröðun, samræmingu og markvissari nýtingu fjárheimilda.

Við ætlum að efla getu Veðurstofunnar til að greina og leggja mat á áhættu, því hún gegnir lykilhlutverki í þeirri vegferð að vera einu skrefi á undan vánni.

Við vitum líka að uppbygging varna gegn ofanflóðum er sífelluverkefni. Við þurfum að viðhalda varnarmannvirkjum, og skapa rými — bæði fjárhagslega og skipulagslega — fyrir endurskoðun og uppfærslu varna með tilkomu nýrrar þekkingar, þróaðri reiknilíkana og aukinnar gagnasöfnunar.

Fjárfesting í öryggi samfélaga skilar sér margfalt til baka. Hún skilar sér í auknu trausti, í öflugri byggðaþróun, og í lífsgæðum og vellíðan fólks. Við berum sameiginlega ábyrgð á því að skapa umgjörð þar sem öryggi fólks er í forgrunni.

Það gleður mig að hér hafi safnast saman fólk úr öllum helstu stofnunum, sveitarfélögum og fagsamfélaginu. Það er á grunni þessarar samvinnu og samtals sem árangur næst.

Við minnumst þeirra þrjátíuogfjögurra sem létust í flóðunum 1995. Við minnumst einnig annarra mannskaðasnjóflóða undanfarinna áratuga.

Og ég vil nota tækifærið hér til að votta aðstandendum og ástvinum þeirra sem létust samúð mína og jafnframt færa öllum þeim þakklæti sem hafa sinnt björgunaraðstæðum við erfiðar aðstæður.

Við heiðrum minningu þeirra sem létust og við heiðrum hugrekki þeirra sem brugðust við, og þetta gerum við einna best með því að halda áfram að fjárfesta í öryggi fólks og varnarmannvirkjum sem bjarga mannslífum.

Það er mér sérstakt ánægjuefni að fá að verja deginum með ykkur — bæði í samtali og í vettvangsferð um Ísafjörð og Flateyri, þar sem við fáum að sjá með eigin augum hvernig snjóflóðahættan hefur mótað byggð og umhverfi þessara fallegu staða.

Auglýsing
Auglýsing

Nýtt á BB

Auglýsing

Fleiri fréttir