Á miðvikudaginn var tilkynnt um úthlutun styrkja úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða. Það er atvinnuvegaráðherra Hanna Katrín Friðriksson sem staðfestir styrkveitingarnar.
Meðal verkefna sem styrk hlaut að þessu sinni var bygging útsýnispalls við Brimnesveg á Flateyri, auk skábrauta og stiga, ásamt frágangi á svæðisinu. Einnig verður komið upp bekkjum, rennibraut og klifurvegg við og af pallinum. Megináhersla er lögð á algilda hönnun og aðgengi hreyfihamlaðra að mannvirkinu. Fjárhæð styrksins er 33,5 m.kr.
Í lýsingu á verkefninu segir að markmið verkefnisins sé að bæta aðgengi að stórbrotnu útsýni út Önundarfjörð og minnka slysahættu. Verkefnið er hluti af áfangastaðaáætlun Vestfjarða og fellur að
markmiðum sjóðsins um bætt aðgengi og öryggi ferðafólks. Ekki skal nýta styrkfé í gróðursetningu plantna en slíkt getur verið hluti af mótframlagi.
Grenndarkynning á pallinum fór fram í mars og apríl á síðasta ári og bárust nokkrar athugasemdir. Skipulag- og mannvirkjanefnd Ísafjarðarbæjar bókaði þá að nefndin teldi að athugasemdir eigi rétt á sér og taka þurfi tillit til þeirra.