Mánudagur 19. maí 2025

OV: brenndi 3,6 milljónir lítra af olíu

Elías Jónatansson, Orkubússtjóri rekur sögu orkukaupasamninga við Landsvirkjun vegna rafkyntra hitaveitna í ársskýrslu Orkubúsins fyrir 2024.

Orkubúið hefur um áratugaskeiðverið með orkukaupasamninga vegna rafkyntra hitaveitna sem byggst hafa á því að fá hagstætt orkuverð gegn því að orkusalinn, Landsvirkjun, hefði heimild til skerðingar á afhendingu raforku ef staða í uppistöðulónum væri lág. Undanfarna áratugi hefur sjaldan reynt á þessa heimild.
Slík staða kom þó upp árið 2014, þegar veruleg skerðing átti sér stað. Nær í tíma er talsverð skerðing árið 2022 og svo aftur á árinu 2024. Vegna skerðingarinnar þurfti að grípa til olíukatla til að kynda hitaveiturnar og var 3,6 milljónum lítra af olíu brennt á árinu vegna þessa. Til samanburðar var olíubrennslan 2,2 milljónir lítra vegna skerðingarinnar 2022. Nettó útgjöld OV urðu alls 680 m.kr. meiri en ella hefði orðið, þessi tvö ár.

„Í september 2024 var undirritaður nýr samningur við Landsvirkjun sem gjörbreytir þessari áhættu. Í nýjum samningi er skerðingarheimildin einungis 100 klst. í stað 120 sólarhringa. Ófyrirséð áföll líkt og 2022 og 2024 með tilheyrandi umhverfisáhrifum vegna olíubrennslu eru því að mestu úr sögunni. Á móti kemur að Orkubúið þarf að greiða hærra verð fyrir orkuna. Samningurinn er tímabundinn til 4 ára. Orkubúið hefur sett sér það markmið að á þeim tíma fáist niðurstaða í framtíðar rekstrarform rafkyntra hitaveitna á Ísafirði, í Bolungarvík, á Flateyri og á Patreksfirði.“

Elías segir að stór áfangi hafi náðist í fyrra þegar heitt vatn fannst loksins í Tungudal á Ísafirði og markaði sá fundur mikil kaflaskil í 60 ára jarðhitaleit Orkubúsins á svæðinu.

Fram kemur í ársskýrslunni að ekki hafi náðist að ljúka rannsóknarborunum vegna jarðhita á Patreksfirði og á Ísafirði á síðasta ári og verður borunum haldið áfram í vor og í sumar. Í vetur hefur verið unnið að forhönnun vegna nýtingar jarðhita á Ísafirði með notkun varmadælna.
Reiknað er með að það muni gerast í tveimur áföngum, fyrsti áfangi snýr að tengingu íbúabyggðarinnar í firðinum, en annar áfangi er svo tenging við byggðina utar í firðinum og á eyrinni.

Auglýsing
Auglýsing

Nýtt á BB

Auglýsing

Fleiri fréttir