Dagmar Ýr Stefánsdóttir, bæjarstjóri í Múlaþingi segir það sé í skoðun hjá sveitarfélaginu hvaða áhrif dómur Landsréttar um ólögmæti aflagjalds af eldisfiski hafi fyrir Múlaþing. Ekki sé um skriflegan samning að ræða við eldisfyrirtækin um gjöldin en sami skilningur hefur verið milli aðila um greiðslur og fjárhæð þeirra. Vísað sé í gjaldskrá hafnarinnar og ekki hafi verið gerðar athugasemdir.
Hún segir að breyta þurfi orðalagi í gjaldskránni, þar sem talað er um aflagjald en nú hafi verið lögfest heimild til þess að taka eldisgjald, en taldi óvíst að nokkuð frekar þurfi að gera.
Dagmar Ýr kvast ekki hafa neinar fréttir af því að eldisfyrirtækin á Austurlandi myndu krefast endurgreiðslu á greiddu aflagjaldi og það kæmi sér verulega á óvart ef það gerðist.
Eldisfiski er að langmestu leyti landað til slátrunar í þremur höfnum landsins, á Bíldudal, í Bolungavík og á Djúpavogi.
Hafnasambandið tekur ekki afstöðu
Lúðvík Geirsson, formaður stjórnar Hafnasambands Íslands segir að stjórnin hafi ekki tekið afstöðu til fullyrðinga Gerðar B. Sveinsdóttur bæjarstjóra Vesturbyggðar um að dómurinn geti haft víðtæk áhrif á aðrar hafnir og almenna gjaldtöku. Gerður kynnti fyrir stjórninni dóm Landsréttar í máli Vesturbyggðar gegn Arnarlax með ofangreindum hætti.
Bolungavík: engin áhrif
Jón Páll Hreinsson, bæjarstjóri hefur sagt að ekki sé tilefni fyrir bæjarfélagið til þess að bregðast við dómi Landsréttar, þar sem skriflegur samningur liggi fyrir við eldisfyrirtækin og að enginn ágreiningur sé um greiðslurnar.
Gerður B. Sveinsdóttir, bæjarstjóri í Vesturbyggð hefur ekki svarað fyrirspurn Bæjarins besta þar sem hún er innt eftir nánari skýringum á þeim ummælum sínum “að dómurinn geti haft víðtæk áhrif á aðrar hafnir og almenna gjaldtöku hafna.”