Föstudagur 16. maí 2025

Móttaka íbúa af erlendum uppruna á Vestfjörðum

Það er ekki bara hitastigið sem er á uppleið þessa dagana  á Vestfjörðum heldur hefur íbúatalan risið einnig. Við teljum rétt um 7600 íbúa en árið 2014 vorum við um 6900. Atvinnulíf blómstrar, samgöngur batna og  samfélögin sveiflast með. Það er gömul saga og ný.

Við búum í fjölmenningarsamfélagi og hlutfall íbúa af erlendum uppruna er um fjórðungur af heildaríbúatölu. Þessa þróun þekkja Vestfirðingar vel enda hefur það verið staðreynd frá aldamótum.

Samfélagsþáttaka

Hvernig stöndum við okkur í inngildingu íbúa af erlendum uppruna? Ef maður lítur yfir sveitastjórnir eða nefndir og ráð hjá sveitarfélögunum þá endurspeglar sú staðreynd ekki að íbúar af erlendum uppruna eru 24% af íbúum fjórðungsins. Hvernig er með félagssamtök, þorrablót og kóra?

Við þekkjum öll hvað björgunarsveitir skipta miklu máli í okkar samfélagi. Endurspegla björgunarsveitir þessa íbúasamsetningu?

Þátttaka allra hópa í samfélögum er mjög mikilvæg. Hún stuðlar að jafnvægi, réttlæti og virkri þátttöku í ákvarðanatöku. Með því að allir hópar taki þátt er líklegt að samfélagið verði samfélag þar sem ólík sjónarmið og þörf eru virt, og þar með aukist réttlæti, samvinna og framfarir. Samfélagsleg þátttaka er grundvallarþáttur í lýðræði og samfélagslegri ábyrgð. Hérna eru sveitarfélögin lykillinn.

Samræmd móttaka og inngilding

Fjórðungssamband Vestfjarða fékk styrk í verkefni úr byggðaáætlun með vísan í aðgerð C.1 Sértæk verkefni sóknaráætlanasvæða. Vestfjarðastofa ber ábyrgð á verkefninu og markmiðið er að vinna að því að þróa samræmda móttökuferla fyrir öll sveitarfélögin á Vestfjörðum til að veita nýjum íbúum betri yfirsýn yfir þjónustu, félagsstarf, menningu og samfélögin sem þau eru að flytja til.

Þetta er í samræmi við gildandi framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda sem samþykkt var á Alþingi árið 2022.

Það er mikilvægt að við hugum að því að nýta allan þann mannauð sem býr hér á Vestfjörðum. Þannig höldum við áfram að vaxa og dafna til framtíðar.

Halla Signý Kristjánsdóttir

Verkefnastjóri

Auglýsing

Mest lesið

Auglýsing

Fleiri greinar