Landsnet kynnti tillögu að kerfisáætlun næstu 10 ára og framkvæmdaáætlun næstu þriggja ára á fundi á Ísafirði á miðvikudaginn. Fram kom að á árunum 2027 – 2030 verður unnið að tengingu Hvalárvirkjunar við flutningskerfið með línu frá Ófeigsfirði að Miðdal á Steingrímsfjarðarheiði, þar sem verður tengivirki og annarri línu þaðan í Kollafjörð við Breiðafjörð sem tengist í Vesturlínu með nýju tengivirki.
Tekið er fram að verkefnið er birt í framkvæmdaáætlunar með þeim fyrirvara að framkvæmdir hefjist aðeins þegar samkomulag um tengingu Hvalárvirkjunar hefur verið náð.
Í skýrslu Landsnets segir að Landsnet hafi unnið að undirbúningi verkefna á Vestfjörðum með það að markmiði að auka afhendingaröryggi raforku. Sé það í samræmi við stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku.
Ekki fengust svör við því hvernig afhendingaröryggið yrði betur tryggt ef framkvæmdir við Hvalárvirkjun drægjust á langinn eða frestuðust.
Heildarkostnaður við tengingu Hvalárvirkjunar við flutningskerfi Landsnets er á bilinu 8,7- 10,8 milljarðar m.v. nýjustu áætlanir. Er þar átt við heildarkostnað við þessi tvö aðskildu verkefni, þ.e. annars vegar tengingu Hvalárvirkjunar við nýjan afhendingarstað í Miðdal og hins vegar byggingu á nýjum afhendingarstað í Miðdal ásamt tengingu hans við flutningskerfi Landsnets í Kollafirði.
Fyrra verkefnið, nýr afhendingarstaður í Miðdal, er útvíkkun á meginflutningskerfinu og kostar sú framkvæmd um 4 milljarða króna. Seinna verkefnið, tenging Hvalárvirkjunar, felur í sér aukinn orkuflutning.
Tenging Hvalárvirkjunar við meginflutningskerfið felur ekki í sér gjaldskrárbreytingar þegar horft er á framkvæmdina sem eina heild, sem er nauðsynleg forsenda þar sem ekki verður af nýjum afhendingarstað við Ísafjarðardjúp án Hvalárvirkjunar eða sambærilegrar virkjunar.
Línan milli Miðdals og Kollafjarðar verður 26 km löng. Frá Hvalá í Miðdal verður lögð um 40 km löng raflína, þar af verða um 14 km í jarðstreng.
Landsnet áformar að vinna að þessu verki á árunum 2027 og að ljúka því 2030 þegar Hvalárvirkjun verður gangsett skv. áætlunum.