Fimmtudagur 15. maí 2025

Hvers vegna var Úlfar rekinn?

Fyrirvaralaust var Úlfar Lúðvíksson, fyrrverandi lögreglustjóri á Suðurnesjum, boðaður á fund Þorbjargar S. Gunnlaugsdóttur, dómsmálaráðherra og þingmanns Viðreisnar, í fyrradag þar sem honum var tilkynnt að ráðningarsamningur við hann yrði ekki endurnýjaður þegar hann rynni út í haust og að embættið yrði auglýst til umsóknar. Úlfari var ekki greint frá því fyrir fundinn hvert tilefni hans væri. Haft var eftir ráðherranum í fjölmiðlum að ákvörðunin hefði verið pólitísks eðlis.

„Fyrirhugaðar eru töluverðar breytingar á embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum sem eru í samræmi við áherslur nýrrar ríkisstjórnar um verulega aukinn þunga í landamærapólitík. Það liggur fyrir að ég mun leggja fram frumvarp í haust um brottfararstöð. Það eru sömuleiðis fyrirhugaðar breytingar um það að flytja komustöð svokallaða til Suðurnesja. Samhliða því að það er verið að skoða alvarlega að flytja ákveðin verkefni frá Ríkislögreglustjóra til lögreglustjórans.“

Með þessum hætti rökstuddi Þorbjörg ákvörðun sína um að segja Úlfari upp störfum í samtali við Vísi í gær sem er áhugavert í ljósi þess að hann hefur sjálfur ítrekað kallað eftir því í fjölmiðlum að stjórnvöld tækju landamæraeftirlitið fastari tökum og bent á brotalamir í þeim efnum. Bæði í tíð núverandi og síðustu ríkisstjórnar. Þá hefur ítrekað verið fjallað í fjölmiðlum um aukinn árangur lögreglunnar á Suðurnesjum til að mynda varðandi brottvísun erlendra afbrotamanna.

Fyrir vikið hefði mátt ætla að áframhaldandi störf Úlfars féllu einkar vel að áðurnefndum áherzlum dómsmálaráðherra og þær þar af leiðandi miklu fremur rök fyrir því að endurnýja ráðningarsamning hans frekar en að segja honum upp. Hins vegar hefur Úlfar einnig bent á ýmsar brotalamir varðandi aðild Íslands að Schengen-svæðinu. Sú gagnrýni fellur vitanlega illa að stefnu Viðreisnar um að gengið verði í Evrópusambandið en eins og ráðherrann sagði var ákvörðunin pólitísk.

Fyrir skömmu ritaði Guðni Ágústsson, fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins, grein í Morgunblaðið þar sem hann gagnrýndi aðildina að Schengen-svæðinu og vitnaði í nýleg ummæli Úlfars í Dagmálum um grafalvarlega stöðu mála á landamærunum að öðrum aðildarríkjum þess. Meðal annars þau ummæli að stjórnvöld yrðu að vakna í þeim efnum. „Viðtalið við lögreglustjórann er nánast samfellt neyðaróp. Ákall til stjórnmálamanna um að grípa í taumana.“

„Ég skora á dómsmálaráðherra að skoða þá fullyrðingu Úlfars Lúðvíkssonar lögreglustjóra að herða verði löggjöfina á landamærum,“ sagði Guðni áfram. Þorbjörg svaraði á síðum Morgunblaðsins og sagði áhyggjur Guðna ástæðulausar. Taldi hún síðan upp mál sem hún væri með í gangi en eiga það flest sameiginlegt að hafa átt upphaf sitt í tíð forvera hennar. Til að mynda brottfararstöð og hælissvipting vegna alvarlegra afbrota. Réttum tveimur vikum síðar rak hún Úlfar.

Hjörtur J. Guðmundsson er sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur

Auglýsing

Mest lesið

Auglýsing

Fleiri greinar