Mánudagur 12. maí 2025

Húnaþing vestra og Dalabyggð í formlegar sameiningarviðræður

Verkefnastjórn um óformlegar viðræður Húnaþings vestra og Dalabyggðar hefur lagt til við sveitarstjórnir sveitarfélaganna tveggja að gengið verði til formlegra viðræðna um sameiningu þeirra. Sveitarstjórnir Húnaþings vestra og Dalabyggðar samþykktu báðar í síðustu viku að hefja formlegar sameiningarviðræður. Málið verður þó afgreitt endanlega úr sveitarstjórnunum eftir tvær umræður en seinni umræða fer fram í júní.

Húnaþing vestra hefur skipað tvo aðalfulltrúa og tvo til vara í samstarfsnefnd um sameininguna en í henni sitja Magnús Magnússon og Magnús Vignir Eðvaldsson sem aðalmenn og Sigríður Ólafsdóttir og Þorleifur Karl Eggertsson sem varamenn. Fulltrúar Dalabyggðar eru Ingibjörg Þóranna Steinudóttir og Skúli Hreinn Guðbjörnsson.

Sveitarstjórn beggja sveitarfélaganna beina því til samstarfsnefndar að stefnt verði að kosningu um sameiningu eigi síðar en í desember 2025.

Samstarfsnefnd skal leita eftir sjónarmiðum og hugmyndum íbúa, starfsmanna og annarra hagsmunaaðila við undirbúning tillögu sem lögð verður fyrir íbúa í atkvæðagreiðslu.

Samstarfsnefnd er falið að gera verk- og tímaáætlun fyrir verkefnið og sækja um framlag úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga til að standa straum af kostnaði.

Með sameiningu verður til sveitarfélag með 1.927 íbúum. Í Dalabyggð eru 675 íbúar og í Húnaþingi vestra búa 1.252 íbúar.

Auglýsing

Nýtt á BB

Auglýsing

Fleiri fréttir