Sviðsstjóri skóla- og tómstundasviðs og mannauðsstjóri Ísafjarðarbæjar leggja til að bætt verði við 50% stöðu deildarstjóra við skólann vegna fjölgunar nemenda og aukinna sérþarfa barna. Starfið yrði auglýst sem deildarstjóri yngsta stigs með 50% stjórnun og 50% kennslu á móti. Tilefni beiðninnar eru auknar kröfur og fjölgun nemenda, sem hafa í för með sér verulega aukið álag á núverandi stjórnendur.
Í dag eru 4 stjórnendur við Grunnskólann á Ísafirði í samtals 3,5 stöðugildum. Þetta eru:
- Skólastjóri
- Aðstoðarskólastjóri
- Deildarstjóri stoðþjónustu
- Deildarstjóri unglingastigs sem er 50% stjórnandi og sinnir 50% kennslu á móti.
Í minnisblaði til bæjarráðs segir að nemendafjöldi hafi aukist um tæplega 24% á síðustu 10 árum, úr 327 nemendum í 405.
Starfsmenn skólans eru um 70 talsins og fjölgun nemenda hefur haft áhrif á alla þætti skólastarfs. Á sama tíma hafi nemendum með miklar sérþarfir fjölgað, sem og nemendum af erlendum uppruna. Þetta kalli á aukið utanumhald, teymisvinnu, samþættingu þjónustu og markvissa faglega eftirfylgni sem felst ekki síst í auknum stjórnunarkröfum.
Áætlaður launakostnaður vegna aukningarinnar er 7,3 m.kr. miðað við heilt ár. i. Á móti komi að skólinn hafi þegar náð fram sparnaði í rekstri sem nemur 7.320.000 kr. eftir að samið var við þrifafyrirtæki um umsjón með daglegum þrifum á ákveðnum svæðum í skólanum. Sú breyting varð eftir að tveir skólaliðar hættu störfum og er mikil ánægja með gæði þrifanna skv. stjórnendum
skólans segir í minnisblaðinu.
Bæjarráð tók jákvætt í erindið og vísaði því til afgreiðslu í skóla-, íþrótta- og tómstundanefnd.