Kári Viðarsson, Frystiklefanum á Rifi, er handhafi Landstólpans 2025. Landstólpinn, samfélagsviðurkenning Byggðastofnunar, var afhentur í fjórtánda sinn á ársfundi Byggðastofnunar sem fram fór í Breiðdalsvík 8. maí sl. en Landstólpinn er veittur árlega einstaklingum, fyrirtækjum og hópum sem þykja hafa skarað fram úr í verkefnum sínum og störfum.
Landstólpanum er ætlað að vekja athygli á því góða og fjölbreytta starfi sem fram fer í landsbyggðunum og um leið að vekja athygli á starfi Byggðastofnunar.
Við val á Landstólpa ár hvert er leitast eftir því að viðkomandi hafi gefið jákvæða mynd af landsbyggðinni, aukið virkni íbúa eða jafnvel fengið þá til beinnar þátttöku í tilteknu verkefni og aukið samstöðu og jákvæðni íbúa.
Í ár bárust 35 tilnefningar og niðurstaða dómnefndar varð sú að veita Kára Viðarssyni, Frystiklefanum á Rifi Landstólpann árið 2025.
Viðurkenningargripurinn í ár er trélistaverk, lágmynd úr tré, eftir myndlistarkonuna Aðalheiði Eysteinsdóttur.
Einnig hlýtur Landstólpinn 1.000.000 krónur í verðlaun.