Vegagerðin auglýsti á föstudaginn útboð á rannsóknarborunum vegna Fljótaganga.
Verkið felst í borun á kjarnaholum á mögulegri jarðgangaleið Fljótaganga, milli Fljóta og Siglufjarðar á Tröllaskaga.
Áætlaður fjöldi er 3 kjarnaholur í áætlaðri veglínu ganga til þess að safna 45-55 mm borsýnum. Fyrirhugað er að bora eina holu í Fljótum og tvær í Hólsdal í Siglufirði.
Verkinu skal lokið eigi síðar en 1. október 2025.
Fljótagöng eru 5,2 km löng göng milli Siglufjarðar og Fljóta í Skagafirði og áætlaður kostnaður er liðlega 20 milljarðar króna. Siglufjörður er tengdur með Héðinsfjarðargöngum við Ólafsfjörð og þaðan með Múlagöngum í Eyjafjörð. Úr Fljótunum er láglendisvegur í Skagafjörð. Um 90 manns búa í Fljótunum. Með göngunum styttist leiðin milli Fljóta og Siglufjarðar um 10 km. Um áhrifin af göngunum segir í skýrslu Vegagerðarinnar að þau séu jákvæð á vetrarferðaþjónustu og komi á láglendishringtengingu á Tröllaskaga.
Vegagerðin setti Fljótagöng nr 2 í forgangsröð 10 jarðganga á áætlun sinni frá 2023, sem síðar var lögð fram á Alþingi sem tillaga þáverandi ríkisstjórnar, en hlaut ekki afgreiðslu.
Núverandi ríkisstjórn hefur boðað nýja tillögu að samgönguáætlun og þar með jarðgangaáætlun í haust. Auglýsing Vegagerðarinnar bendir til þess að Fljótagöng séu áfram í forgangi.