Þriðjudagur 6. maí 2025

Flateyri: Walvis og Vestfirsk Flateyri fái 400 tonna byggðakvóta

Aflamarksnefnd Byggðastofnunar leggur til að 400 tonna byggðakvóta til Flateyrar næstu fimm ár verði úthlutað til Walvis ehf í samstarfi við Tjaldtanga ehf, sem fái árlega 200 tonn og Vestfirsk Flateyri ehf ásamt samstarfsaðilum, sem einnig fái 200 tonn á ári.

Auk þess sótti ÍS 47 ehf um en aflamarksnefndin leggur til að umsókn þess verði hafnað.

Tillaga aflamarksnefndar fer fyrir stjórn Byggðastofnunar á fimmtudaginn. Bæjarráð Ísafjarðarbæjar fékk tillöguna til umsagnar og bókaði í gær að það gerði ekki athugasemdir við tillöguna.

Í minnisblaði aflamarksnefndar kemur fram að umsóknirnar þrjár voru metnar á grundvelli tiltekinna matsþátta. Fékk umsókn ÍS 47 38,5 stig, umsókn Vestfirsk Flateyri fékk 57,9 stig og Walvis og Tjaldtangaumsóknin fékk 60,2 stig.

Í niðurstöðu minnisblaðsins segir:

„Samkvæmt ofangreindu fengu umsóknir Vestfisks ehf. og sameiginleg umsókn Walvis ehf. og Tjaldtanga ehf. álíka mörg stig. Báðir umsækjendur eru með starfsemi á Flateyri og er úthlutun til þeirra til þess fallin að styrkja starfsemi þeirra og þar með byggðafestu á Flateyri. Rök hníga því til þess að skipta því aflamarki sem er til ráðstöfunar jafnt á milli þessara aðila en hafna umsókn Ís 47 ehf. þar sem sú umsókn hlaut mun færri stig.“

Auglýsing
Auglýsing

Nýtt á BB

Auglýsing

Fleiri fréttir