Velkomin á opnun sýningarinnar „Tilfinningaleg staðartengsl – Söfn fólks á Vestfjörðum“ kl. 15:00 sunnudaginn 18. maí í Bryggjusal.
Sýningin stendur frá 18. maí til 7. júní, 2025
Opnunartímar eftir opnun: Mánudaga til fimmtudaga 15:00-17:30 – listamaðurinn er viðstaddur og tekur á móti gestum.
Hvernig tvinnast hversdagurinn og landslagið saman í sameiginlega sögu? Hvaða tilfinningar eru bundnar stöðum og hvernig eru þær skrásettar í hversdagslegum ljósmyndun almennings?
Þetta er meðal spurninga sem danski listamaðurinn og rannsakandinn Peter Kærgaard Andersen spyr sig í vettvangsrannsókn sinni á Vestfjörðum. Í tengslum við rannsóknina setur hann upp sýninguna „Tilfinningaleg staðartengsl“ og er hún hluti af nýdoktorsrannsókn hans í alþjóðlega verkefninu Hversdagssögur (e. Everyday Histories) sem er unnið við mannfræðideild Árósaháskóla í Danmörku. Í verkefninu er kannað hvernig hversdagslegar minningar eru samtvinnaðar landslaginu og hvernig þær eru tjáðar í gegnum ljósmyndir úr einkasöfnum. Auk þess fjallar verkefnið um það hvernig unnt er að varðveita slíkar óopinberar sögur og hvernig hægt er að endursegja þær og miðla.
„Hér í Edinborgarhúsinu er ég að setja upp lifandi sýningu sem vonandi vex á sýningartímanum. Sýningin er samansafn af efni úr einkasöfnum sem hafa verið gefin til varðveislu á söfnin hér á svæðinu. Ég vonast til að eiga samtal við gesti sýningarinnar um þessar ljósmyndir og hluti sem hér verður að finna, og sjá hvort það veki tilfinningatengsl við landslagið. Ef fólk býr yfir myndum sem það tengir mikilvægum minningum eða sögum úr hverdagslífinu væri mjög gaman að fá fólk í heimsókn hingað til að deila því. Það væri því einstaklega gaman að heyra frá fólki sem hefur áhuga á að deila ljósmyndum og sögum þeim tengdum,“ segir Peter og bætir því við að hann bjóðist einnig til að færa fjölskyldualbúm fólks yfir á stafrænt form og myndir þátttakenda yrðu hluti af varðveittu safni.
Sýningin opnar sunnudaginn 18. maí í Bryggjusal og stendur til 7. júní. Peter verður á staðnum mánudaga til fimmtudags allan tímann frá kl. 15:00 til 17:30.
Sýningin er hluti af vettvangsrannsókn og skapar því einnig rými til að velta fyrir sér sögum, lífi og hversdegi og hvernig megi miðla þessu áfram.
Verkefnið er tilkomið í samstarfi við Byggðasafn Vestfjarða og Safnahúsið á Ísafirði með aðstoð frá Háskólasetri Vestfjarða. Stefnt er að því að setja sýninguna upp í Moesgaard safninu í Danmörku í kjölfarið.