Arctic Fish birti í morgun upplýsingar um afkomu fyrirtækisins á fyrsta fjórðungi ársins.
Félagið slátraði 3.140 tonnum á tímabilinu sem er 24% aukning frá fyrra ári. Engu að síður lækkuðu tekjurnar og voru 3,2 milljarðar króna samanborið við 3,5 milljarðar í fyrra.
Tap upp á 2,1 milljarð króna varð af rekstri félagsins í fjórðunginum samanborið við 858 milljón króna hagnað á sama tíma í fyrra. Framlegð frá rekstri (e. Operational EBIT) var 75 milljónir (23,3 kr/kg) samanborið við 1,4 milljarð í fyrra (561 kr/kg).
„Á fyrsta ársfjórðungi hefur framleiðslan að mestu leiti gengið mjög vel. Hitastig í sjó hefur verið hagstætt og þrátt fyrir áskoranir á einni eldisstöð í byrjun árs hefur vöxtur eldisfisksins verið með besta móti síðan þá. Verð á mörkuðum hafa hinsvegar verið langt undir væntingum og fyrra ári, sem hefur haft neikvæð áhrif á reksturinn. Við gerum ráð fyrir að slátra 14.000 tonnum á árinu eða um 31% meira en í fyrra“ segir Daníel Jakobsson forstjóri Arctic Fish í tilkynningu fyrir fyrirtækinu.