Starfshópur sem heilbrigðisráðherra skipaði til að móta aðgerðaáætlun til að fækka sjálfsvígum á Íslandi hefur skilað ráðherra skýrslu sinni þess efnis.
Áætlunin tekur til áranna 2025–2030 og felur í sér 26 aðgerðir um markvissar og gagnreyndar sjálfsvígsforvarnir á öllum stigum, bæði almennar og sértækar.
Eins og skýrsluhöfundar benda á eru sjálfsvíg alvarlegur lýðheilsuvandi með víðtækar afleiðingar fyrir samfélagið allt.
Á Íslandi hefur árlegur meðalfjöldi sjálfsvíga verið 41 síðustu fimm ár (2019–2023). Rannsóknir hafa sýnt að hvert sjálfsvíg er samfélaginu dýrkeypt auk þess sem hvert sjálfsvíg hefur áhrif á heilsufar og líðan fjölmargra í nærumhverfi þess látna.
Áhrifaríkar sjálfsvígsforvarnir stuðla að því að þau sem þurfa aðstoð fái viðeigandi stuðning á öllum stigum. Þannig má fyrirbyggja aukinn vanda og koma í veg fyrir dýrari úrræði vegna minnkandi getu til að sinna athöfnum daglegs lífs, stunda vinnu og nám.
Aðgerðaáætlun til að fækka sjálfsvígum á Íslandi 2025–2030