Miðvikudagur 30. apríl 2025

Rannsóknarnefnd um snjóflóðið í Súðavík á ferð í næstu viku

Auglýsing

Málþing um ofanflóð verður haldið á Ísafirði í næstu viku, á mánudag og á þriðjudag. Nefndarmenn rannsóknarnefndar Alþingis vegna snjóflóðsins í Súðavík 16. janúar 1995 verða meðal þátttakenda á málþinginu. Nefndin verður svo áfram á Ísafirði og í Súðavík dagana á eftir, 7. og 8. maí, vegna starfa sinna.

Af þessu tilefni vill nefndin láta vita að þau sem kynnu að vilja hitta og ræða við nefndina eða koma upplýsingum á framfæri við hana meðan á dvöl hennar á svæðinu stendur er vitaskuld velkomið að hafa samband í því skyni.

Í nefndina hafa verið skipuð Finnur Þór Vilhjálmsson héraðsdómari, sem er jafnframt formaður nefndarinnar, Dóra Hjálmarsdóttir rafmagnsverkfræðingur, og Þorsteinn Sæmundsson jarðfræðingur. Starfsmaður nefndarinnar er Sonja Hjördís Berndsen, lögmaður hjá embætti ríkislögmanns.

Samkvæmt þingsályktuninni skal nefndin draga saman og útbúa til birtingar upplýsingar um málsatvik í því augnamiði að varpa ljósi á ákvarðanir og verklag stjórnvalda þar sem gerð verði grein fyrir:

  1. hvernig staðið var að ákvörðunum um snjóflóðavarnir, hvernig skipulagi byggðar var háttað með tilliti til snjóflóðahættu, gerð hættumats og hvernig staðið var að upplýsingagjöf um snjóflóðahættu til íbúa Súðavíkur,
  2. fyrirkomulagi og framkvæmd almannavarnaaðgerða í aðdraganda snjóflóðsins, í kjölfar þess og þar til hættuástandi var aflétt,
  3. eftirfylgni stjórnvalda í kjölfar snjóflóðsins.

Unnt er að hafa samband við rannsóknarnefndina gegnum netfang nefndarinnar, sudavik@rna.is, eða í síma 562-0940.

Rannsóknarnefndin tekur til starfa 1. janúar 2025 og skal ljúka rannsókn sinni svo fljótt sem verða má og eigi síðar en einu ári eftir skipun hennar.

Auglýsing

Auglýsing

Nýtt á BB

Auglýsing
Auglýsing

Fleiri fréttir