Karlalið Vestra í knattspyrnu gerði góða ferð á Skagann í gærkvöldi. Liðið gerði sér lítið fyrir og vann ÍA með tveimur mörkum gegn engu. Daði Berg Jónsson og Diego Montiel gerðu mörkin í fyrri hálfleik.
Í seinni hálfleik léku Vestramenn góða og skipulagða vörn og héldu sínum hlut og gáfu Skagamönnum fá tækifæri til að skora og komast inn í leikinn.
Sú óvænta staða er komin upp eftir þrjár umferðir, að sem stendur er Vestri í efsta sæti deildarinnar. Tveir leikir verða í dag, sumardaginn fyrsta, og gæti Víkingur í Reykjavík komist á toppinn með sigri eða jafntefli, en ef það gerist verður Vestri aldrei neðar en í öðru sæti eftir þrjár umferðir.
Birtar voru spár fyrir skömmu sem töldu að Vestri yrði með neðstu liðum og að liðinu biði hörð barátta um að forðast fall úr deildinni. Auðvitað eru þrjár umferðir af 27 aðeins blábyrjunin á mótinu og margt getur gerst, en engu að síður er Vestri að sýna það í fyrstu þremur umferðunum með tvo sigra og eitt jafntefli að það er með hörkulið og það getur staðið sig vel í Íslandsmótinu.
Næsti leikur liðsins er á sunnudaginn, en þá koma Íslandsmeistarar Breiðabliks í heimsókn á Kerecisvöllinn á Ísafirði og verður spennandi að sjá hvernig Vestra gengur að eiga við þá.