Fimmtudagur 1. maí 2025

Héraðsdómur Vestfjarða: ríkið á vatnsréttindi Engjaness

Auglýsing

Héraðsdómur Vestfjarða dæmdi á miðvikudaginn í máli ríkisins gegn landeiganda Engjaness í Árneshreppi þar sem deilt var um námur og náma-, vatns- og jarðhitaréttindi, síðastnefndu réttindin tvö umfram heimilisþarfir, í landi jarðarinnar.

Á grundvelli afsalsbréfs 30. janúar 1958 var viðurkennt að stefnandi, íslenska ríkið, væri eigandi réttindanna. Ekki var fallist á málsástæður stefnda fyrir því að afsalsbréfið hefði ekki gildi gagnvart honum.

Með afsali 30. janúar 1958 afsalaði landbúnaðarráðherra fyrir hönd stefnanda eyðijörðinni Engjanesi til Guðjóns Guðmundssonar. Afsali vegna sölu jarðarinnar Engjaness var þinglýst 12. febrúar 1958. Eftir andlát Guðjóns eignaðist Ólafur Ingólfsson, sonarsonur hans, jörðina Engjanes samkvæmt skiptayfirlýsingu 23. nóvember 1972. Í yfirlýsingunni var þess ekki getið að tiltekin réttindi hefðu verið undanskilin jörðinni við afsal hennar árið 1958.

Árið 2006 keypti stefndi, Felix von Longo Liebenstein, jörðina af Ólafi samkvæmt afsali 6. nóvember 2006 en þar segir að jörðin seljist „með öllu sem fylgir og fylgja ber, að engu undanskildu. Jörðin [seljist] án kvaða og veðbanda“.

Á árinu 2009 gerðu stefndi og Vestur Verk ehf. samning 29. janúar þess árs um rétt félagsins til að rannsaka hagkvæmni áveitu Eyvindarfjarðarár yfir í Hvalá og var samningnum þinglýst þann 17. febrúar þess árs. Í samningnum er kveðið á um það að VesturVerk ehf. fái afnot af vatnsréttindum jarðarinnar Engjaness að ákveðnum skilyrðum uppfylltum.

Árið 2022 óskaði stefnandi, ríkið, eftir því við embætti sýslumannsins á Vestfjörðum að skráning í þinglýsingabók jarðarinnar Engjaness yrði leiðrétt á grundvelli 27. gr. þinglýsingalaga þannig að hún endurspeglaði afsalið frá 1958. Embættið varð við því.

Í dómnum segir að fyrir liggur að afsalsbréfið frá 1958 hafi verið fært inn í þinglýsingarbók 12. febrúar 1958 og að stefnda hafi ekki tekist að hnekkja eignarrétti stefnanda yfir námum, náma-, vatns- og jarðhitaréttindum vegna jarðarinnar Engjaness í Árneshreppi samkvæmt afsalsbréfinu 30. janúar 1958.

Ásbjörn Blöndal, framkvæmdastjóri þróunar- og auðlindarsviðs hjá HS Orku , sem á meirihluta í Vesturverki ehf, og vinnur að virkjun Hvalár, sagði fyrr í apríl í viðtali við Bæjarins besta að fyrir liggur yfirlýsing frá fjármálaráðuneytinu þess efnis að það muni ganga inn í fyrirliggjandi samning um vatnsréttindin ef ríkinu verða þau dæmd. Dómsmálin muni því ekki hafa áhrif á virkjunaráformin heldur aðeins hver fær greiðslurnar fyrir réttindin.

.

Auglýsing

Auglýsing
Auglýsing

Nýtt á BB

Auglýsing

Fleiri fréttir