Fimmtudagur 1. maí 2025

Ég heiti Gylfi og er frá Ísafirði

Auglýsing

Gylfi Ólafsson,formaður bæjarráðs Ísafjarðarbæjar er staddur á Andrésar Andar leikunum á Akureyri. Hann var fenginn til þess að setja leikana í gær. Hér kemur sentningarræðan:

Ég heiti Gylfi og er frá Ísafirði. Þegar ég var barn æfði ég skíðagöngu og tók þátt á Andrésarleikunum á aldrinum 9 til 12 ára, eins og Ísfirðingar gerðu þá.

Þá komu foreldrar ekki með og þá komum við alltaf frá Ísafirði í beinu flugi á flugvél. En það var nú ekki af því að við vorum svo rík. Það var nú bara vegna þess að vegirnir voru svo hrikalega lélegir að það var ekkert hægt að standa í því að keyra alla þessa leið að vetri með fulla rútu af börnum.

Ég var ágætur á skíðum og var oft í öðru sæti nema einu sinni vann ég gull, það var þegar strákurinn sem vann mig alltaf og var frá Siglufirði, Árni Teitur heitir hann, ég vann gullið þegar hann var veikur.

En já. Ég bý á Ísafirði. Þar er núna búin bæði Skíðavikan og Fossavatnsgangan, sem bæði byrjuðu fyrir um 90 árum síðan.

Fossavatnsgangan er næst fjölmennasta skíðakeppni á landinu —á eftir andrésarleikunum—og eru þátttakendur alltaf nokkur hundruð, um 500 þetta skiptið. Þar geta yngstu börnin gengið einn kílómetra en hugrökkustu keppendurnir ganga 50 kílómetra. Þátttakendur eru þar á öllum aldri, nokkur hundruð manns koma meira að segja frá útlöndum til að taka þátt. Sumir eru að keppa við að fá besta tímann og fá gull, silfur eða brons, en flestir eru að keppa við sjálfan sig og búa til sitt eigið markmið. Margir keppa við að fara 12 kílómetra, aðrir 50 kílómetra, sumir vilja ná betri tíma en árið áður, sumir vilja fara hraðar en besti vinurinn, og aðrir eru að telja göngurnar sem þeir hafa farið. Eins og ég. Ég er kominn upp í 17 göngur. Aðrir hafa keppt áratugum saman, alltaf á hverju ári, eins og Árni bakari á Ísafirði sem hefur keppt 47 sinnum og er orðinn meira en 70 ára gamall.

Það er hollt og skemmtilegt að æfa sig á skíðum, og—eins og maður lærir eftir því sem maður fer oftar—gaman að kynnast fólki frá öðrum stöðum á landinu og margir koma aftur og aftur, alveg eins og hingað á Andrésarleikana.

Maðurinn sem sigraði Fossavatnsgönguna oftast, hét Kitti Muggs.

Kitti á skráðar 42 Fossavatnsgöngur og svo vann hann 12 sinnum. Og fékk miklu fleiri gull ef aldursflokkaverðlaunin eru talin með.

Og göngurnar voru í raun og veru fleiri en 42. Hann gekk gönguna fyrst bara 12 ára gamall, sem var miklu yngri en leyfilegt var. Tími hans var þess vegna ekki skráður og telst því ekki með.

Í einu blaðaviðtali, frá árinu 2001 sagði hann setningu sem ég hef haft á heilanum síðan ég las hana. Hann sagði: „Ég held að allir hafi gott af því að æfa gönguskíði eða íþróttir yfirleitt. Menn verða að prófa að verða almennilega þreyttir. Það skiptir miklu máli í lífinu að kunna að gera eitthvað eftir að maður er orðinn þreyttur, sama hvort það er á líkamlega eða andlega sviðinu. Það er eitt af því sem maður lærir af því að ganga á skíðum.“

Með öðrum orðum: með því að æfa sig í íþróttum verður maður þreyttur, en maður lærir líka að halda áfram þegar maður er orðinn þreyttur.

Þetta er gagnlegt fyrir lífið sjálft. Lífið er ekki alltaf dans á rósum. Það gengur oft illa, maður þarf að leggja hart að sér fyrir fjölskylduna, í skólanum eða vinnu. Þá gildir að geta haldið áfram og gefast ekki upp.

Ef maður er búinn með 40 kílómetra og er orðinn þreyttur, þarf maður samt að geta klárað þessa tíu kílómetra sem eftir eru og komast í mark. Ef maður er búinn með tvö ár í menntaskóla getur verið erfitt að klára þriðja árið. Ef maður er búinn að lesa heima fjóra daga vikunnar en á eftir að klára að lesa fyrir föstudaginn. En þá þarf maður samt að halda áfram.

Það má kalla þetta seiglu. Áræðni. Viljastyrk.

En svo er auðvitað bara gaman að leika sér á skíðum. Seigluna fáum við í kaupbæti.

Jæja. Núna er ég búinn að tala nóg.

Það er mér núna mikill heiður að segja 49. Andrésarleikana setta!

Auglýsing

Auglýsing
Auglýsing

Nýtt á BB

Auglýsing

Fleiri fréttir