Föstudagur 9. maí 2025

Aflagjald: Vesturbyggð sækir ekki um áfrýjun til Hæstaréttar

Bæjarráð Vesturbyggðar hefur ákveðið að að ekki verði eftir því leitað við Hæstarétt að mál Vesturbyggðar gegn Arnarlax verði tekið fyrir þar.

Landsréttur staðfesti 27.2. 2025 dóm héraðsdóms Vestfjarða frá 9. nóvember 2023 þess efnis að lagastoð hefði skort fyrir innheimtu á aflagjaldi af eldisfiski. Fiskeldisfyrirtæki gætu ekki talist sjávarútvegsfyrirtæki í skilningi laga, enda stunduðu þau ekki sjósókn og öfluðu villtra dýra, einkum með fiskveiðum, eins og síðarnefnd fyrirtæki. Var Arnarlax sýknað af kröfu Vesturbyggðar og Vesturbyggð dæmd til þess að greiða Arnarlax 1 m.kr. í málskostnað fyrir Landsrétti. Vesturbyggð var auk þess dæmd til þess að greiða Arnarlax 4 m.kr. í málskostnað fyrir héraðsdómi.

Tildrög deilunnar eru þau að Vesturbyggð hækkaði gjaldskrá sína á árinu 2019 fyrir aflagjald af eldisfiski. Arnarlax mótmælti hækkuninni og neitaði að greiða hana. Arctic Fish mótmæli einnig en greiddi hækkunina með fyrirvara um lögmæti hennar.

Vesturbyggð höfðaði mál á hendur Arnarlax til þess að innheimta hækkunina.

Í yfirlýsingu Vesturbyggðar, sem gefin var þegar dómur Landsréttar lá fyrir segir að Vesturbyggð standi nú frammi fyrir mikilli óvissu þar sem ekki liggur fyrir hvort farið verði fram á endurgreiðslu á aflagjöldum aftur í tímann. Ef það verður niðurstaða megi leiða að því líkum að hafnarsjóður sé ekki rekstrarhæfur.

Björn Hembre, forstjóri Arnarlax sagði í viðtali við Bæjarins besta af sama tilefni að „Arnarlax tekur fram að félagið vill að sjálfsögðu greiða fyrir þá þjónustu sem félagið þiggur og hefur ítrekað á undanförnum árum óskað eftir samningi við sveitarfélagið um eðlilegt endurgjald. Þrátt fyrir viðleitni Arnarlax til að semja hefur sveitarfélagið ekki fallist á sanngjarnar tillögur Arnarlax í þeim efnum.

Við munum nú skoða þá stöðu sem upp er komin og meta næstu skref.“

Auglýsing

Nýtt á BB

Auglýsing

Fleiri fréttir