Þriðjudagur 13. maí 2025

Suðureyri við Súgandafjörð

Suðureyri stendur við sunnanverðan Súgandafjörð og tilheyrir sveitarfélaginu Ísafjarðarbæ.

Suðureyri varð löggiltur verslunarstaður árið 1899 en fljótlega upp úr því tók að myndast vísir að byggð á eyrinni.

Sjávarútvegur hefur alla tíð verið mikilvægasta atvinnugreinin á svæðinu og því ekki að ósekju að sjóklæðagerðin 66°N á upphaf sitt að rekja til Suðureyrar.

Ferðaþjónusta hefur einnig vaxið mjög á undanförnum árum og er Suðureyri orðin þekkt víða um heim sem hið dæmigerða íslenska sjávarþorp enda hefur umfjöllun um bæinn ratað inn í flestar helstu ferðahandbækur sem gefnar eru út.

Í þjónustu við ferðafólk er lögð mikil áhersla á hina sögulegu tengingu við hafið og fiskveiðar, í sátt við náttúruna og umhverfið, en tæpast er hægt að finna vistvænna þorp en Suðureyri.

Veiðar fara fram með vistvænum veiðarfærum, línu og handfærum, aflinn er fullunninn í þorpinu og þar er einnig fyrirtæki sem sérhæfir sig í að skapa verðmæti úr aukaafurðum fisksins þannig að lítið sem ekkert fer til spillis.

Á Suðureyri er jarðvarmi, nokkuð sem önnur byggðarlög á norðanverðum Vestfjörðum búa ekki við og í botni fjarðarins er vatnsaflsvirkjun sem framleiðir rafmagn.

Súgfirðingar leggja því höfuð áherslu á notkun endurnýjanlegrar orku og að halda mengun og úrgangi í algeru lágmarki.

Auglýsing

Nýtt á BB

Auglýsing

Fleiri fréttir