Sunnudagur 8. september 2024
Síða 2150

Stútfullt blað helgað konum

Stútfullt blað helgað konum

Í gær var alþjóðlegum baráttudegi kvenna fagnað og í nýjasta tölublaði Bæjarins besta sem borið er í hús í dag er sjónum beint að vestfirskum konum og því sem þær eru að fást við. Því hefur stundum verið kastað fram að konur taki ekki pláss og einnig að þær fái ekki pláss til jafns við karla, til að mynda er slagorð kvennadagsins á alþjóðavísu í ár „Be bold for change“ þar sem vísað er til þess að konur stígi fram og taki pláss, bæði með tilvísun til þess að breyta því sem hefur verið jafnt því sem verða vill. Í blaðinu fá konurnar plássið og í stað lítils áttblöðungs telja síður blaðsins nú hátt á fjórða tuginn og þó er þarna einungis að finna hluta þeirra kvenna sem stunda atvinnurekstur með einum eða öðrum hætti á Vestfjörðum. Þar má þó lesa um fjölda kvenna í fyrirtækjarekstri og hvað þær eru að fást við; lesa um þann eldmóð, það hugmyndaauðgi, þá framkvæmdagleði – og það úthald sem konurnar sýna.

Í leiðara Bryndísar Sigurðardóttur ritstjóra blaðsins segir meðal annars „Auðlindir okkar felast ekki bara í jarðhita og fallvötnum, hún felst í okkur sjálfum, orkunni í hverjum einstaklingi.“ Það má með sanni segja að blaðið sýni hluta þeirrar gjöfulu auðlindar sem konur í atvinnurekstri eru.

Blaðið má skoða hér.

annska@bb.is

 

Kaldi eða stinningskaldi í dag

Veðurstofan spáir norðaustan 8-13 m/s á Vestfjörðum í dag með slyddu eða snjókomu, einkum á svæðinu norðanverðu en léttir svo heldur til í kvöld. Á morgun er gert ráð fyrir norðaustan 13-18 m/s. Hitinn verður í kringum frostmark í dag, en 0 til 5 stig á morgun. Í spá fyrir landið á laugardag er gert ráð fyrir sunnan 10-18 m/s austanlands en hægari vindi suðvestanlands. Rigning í flestum landshlutum en norðaustlægari og slydda á Vestfjörðum. Hiti 1 til 6 stig.

Á Vestfjörðum er hálka eða hálkublettir, snjóþekja og skafrenningur á Steingrímsfjarðarheiði og snjóþekja er á Hálfdán.

Um fjögur þúsund undirskriftir – efna til bráttufundar

Fundarmenn gengu af fundi með Ögmundi fyrir fimm árum. Mynd: Helgi Bjarnason.

Um fjögur þúsund manns hafa skrifað undir áskorun til stjórnvalda um að hnekkja ákvörðun samgönguráðherra um að fresta framkvæmdum við nýjan Vestfjarðaveg í Gufudalssveit. Samkvæmt samgönguáætlun áttu 1.200 milljónir að fara til verksins í ár. Enn er beðið eftir áliti Skipulagsstofunar á umhverfismati framkvæmdarinnar. Eins og kunnugt er féll veglínan í gegnum Teigsskóg í umhverfismati fyrir 11 árum. Fyrir tveimur árum fékk Vegagerðin heimild til að endurskoða umhverfismatið.

Að baki undirskriftasöfnuninni stendur Haukur Már Sigurðsson, verslunarmaður á Patreksfirði. Í Morgunblaðinu í dag er haft eftir honum að áhugamenn um vegabætur á Vestfjörðum hyggjast efna til baráttufundar með íbúum og þingmönnum á næstunni. Fyrir fimm árum var haldinn frægur íbúafundur með Ögmundi Jónassyni, þáverandi innanríkisráðherra. Boðskapur Ögmundar um að hætta við vegagerð í Teigsskógi og einblína heldur á jarðgöng undir hálsana í Gufudalssveit í framtíðinni féll ekki í betri jarðveg en svo að fundarmenn gengu af fundir og skildu ráðherra og fylgdarlið hans eftir.

Tekin með kannabis, kókaín og e-töflur

Lögreglan á Vestfjörðum lagði hald á talsvert magn af fíkniefnum föstudagskvöldið síðasta. Í dagbók lögreglu kemur fram að við almennt eftirlit var fólksbifreið stöðvuð í Súðavík. Ökumaður og tveir farþegar voru þá að koma af höfuðborgarsvæðinu á leið til Ísafjarðar. Við leit í bifreiðinni fundust um 150 grömm af kannabisefnum um 10 grömm af ætluðu kókaíni og 50 stk. ætlaðar e-töflur. Ökumaður og farþegar voru handteknir og voru til yfirheyrslu fram á nótt uns þeim var sleppt lausum er málið var talið upplýst. Í ljósi efnismagnsins má ætla að efnið hafið verið ætlað til dreifingar á norðanverðum Vestfjörðum.

Tíu ökumenn voru kærðir fyrir að aka yfir leyfilegum hámarkshraða. Flestir voru þeir stöðvaðir í Strandasýslu en einnig á Ísafirði og á Patreksfirði. Ökumenn eru hvattir til að haga akstri í samræmi við gildandi hámarkshraða og eins í samræmi við aðstæður.

Skráningarmerki voru tekin af einu ökutæki í vikunni. En það var vegna vangoldinna tryggingaiðgjalda.

Einn ökumaður var kærður fyrir að aka öfugu megin við umferðareyju sem skilur að tvær akreinar í Hnífsdal. Þetta er hættulegt athæfi og ætti ekki að eiga sér stað.

Þá var einn ökumaður kærður fyrir að tala í farsíma án handfrjálsbúnaðar. Sá var heldur ekki með öryggisbelti spennt. Hér skiptir engu máli hvort ökuferðin sé stutt eða löng, innanbæjar eða utanbæjar. Ökumaðurinn má búast við tveimur sektum vegna þessa.

Fjölbreyttar smiðjur á Gróskudögum

Í tilraunasmiðju

Nú stendur yfir Sólrisuvikan í Menntaskólanum á Ísafirði. Meðal þess sem þar fer fram eru Gróskudagar hjá skólanum, er nemendum gefst kostur á að taka þátt í óhefðbundnu skólastarfi er hinar ýmsu bæði fróðlegu og skemmtilegu smiðjur eru starfræktar. Smiðjurnar sem nemendur geta valið um eru fjölmargar og má þar nefna:  Eðlis- og efnafræðitilraunir, borðspil af ýmsu tagi og félagsvist, kvikmyndir, bæði almennt og svo sérsmiðjur um Starwars, Fast and the furious og hryllingsmyndir. Þá er fjölmiðlasmiðja, tónlistarsmiðja, rímnaflæði, yndislestur og hinar ýmsu samskiptasmiðjur ásamt kynningu á starfsemi hjá Ísafjarðarbæ, björgunarsveitunum og Rauða Krossinum. Einnig má reyna aðeins á hæfileikana í fjölbreytileika uppistands og í að mastera listina að kareóka! Þá má glíma við að uppræta leti, finna hæfileika sína og læra að vera asnaleg í smástund. Fyrir þá sem vilja fá smá útrás er hægt að fara í gönguferðir, á kajak og gönguskíði eða taka þátt í hönnun á kennsluumhverfi nemenda. Ekki er allt upptalið, en ljóst má sjá að mikið fjör hefur verið í skólanum þessa tvo daga sem smiðjurnar fara fram. Meðfylgjandi myndir eru teknar af nemendum í fjölmiðlasmiðju Gróskudaga.

Í Sólrisuvikunni sendir útvarp MÍflugan út á tíðninni fm101 og sýningar á Sólrisuleikritinu Vælukjóli eru í fullum gangi og hefur verið bætt við aukasýningum fimmtudag, föstudag og laugardag klukkan 20 og má panta sér miða í síma 450-5555.

Nemendum gafst kostur á að taka þátt í hönnun á kennsluumhverfi nemenda.
Nemendur ásamt kennara í skapandi smiðju.
Í einni smiðjunni mátti kynnast því hvernig er að starfa í björgunarsveit.

 

 

annska@bb.is

Ný sýn í byggðamálum: Landsbankinn fyrir landsbyggðina!

Fyrir nokkru talaði Þóra Arnórsdóttir í Kastljósi við ungan erlendan sérfræðing í bankamálum, Rob Galasky. Þessi ágæti maður sagði m. a. eitthvað á þessa leið:

Sigurvegararnir í bankamálum verða þeir sem vinna út frá viðskiptavininum. Sá tími getur verið skammt undan að gjaldkerinn í stúkunni í útibúinu fái hærri laun en þeir sem nú stimpla sig inn í bönkunum og hirða hæstu launin.

Sparisjóðirnir voru þrautreynt fyrirkomulag

Sparisjóðirnir voru akkeri byggðanna. Þeir voru nokkurs konar heimabankar eða samfélagsbankar ef leyfist að nota það orð. Þar stjórnuðu heimamenn öllu innan stokks. Aðalfundur einu sinni á ári. Spilin lögð á borðið. Þegar ekki var hægt að fá fimmeyring í stóru bönkunum, þá lánuðu sparisjóðirnir sínu heimafólki. Til dæmis þegar menn voru að koma sér upp þaki yfir höfuðið og voru að bíða eftir húsnæðis-og lífeyrissjóðslánum. Peningar fólksins sjálfs voru í vinnu heimafyrir. Það var ekki um að tala að stóru bankarnir vildu lána fólki út á íbúðarhús í einhverjum krummaskuðum. Þetta er okkur minnisstætt. Allur hagnaður sparisjóðanna fór í uppbyggingu í heimahéraði. Erum að bíta úr nálinni með það þessi misserin að við glopruðum þeim niður í krakkinu mikla. Nýlega skrifaði Gunnar Skúli Ármannsson, læknir, grein um Samfélagsbanka Norður Dakota í Bandaríkjunum í það merkilega blað, Bændablaðið. Þar segir að íbúar N-Dakota elski bankann sinn því hann sé vinur þeirra! Hér á landi þótti mörgum vænt um sparisjóðinn sinn. Hvernig skyldi því háttað í dag með bankana okkar?

Landsbankinn verði fyrst og fremst landsbyggðarbanki

Ekki vitum við betur en flestir Íslendingar vilji jafnvægi í byggð landsins. En þetta útþvælda og misskilda hugtak þarf að endurskoða. Allir landshlutar eiga að fá að njóta sín. En því miður hefur svokölluð byggðastefna stjórnvalda mistekist að ýmsu leyti. Þarf ekki annað en benda á Vestfirði í því efni. Upplagt er að Landsbankinn komi af fullum þunga inn í það sér verkefni að snúa þeirri þróun við, ef það er á annað borð hægt. Bankinn verði skilgreindur sem landsbyggðarbanki fyrst og fremst. Erlendis eru nægar fyrirmyndir slíkra fjármálastofnana sem við Íslendingar getum lært af. Bankinn verði einfaldlega gerður ábyrgur gagnvart landsbyggðinni með því að hjálpa mönnum til sjálfshjálpar og komi þannig í stað hinna glötuðu sparisjóða. Og laði fólkið þar að sér með skynsamlegum og mannlegum hætti. Með því móti yrði miklu oki létt af Alþingi og ríkisstjórn.

Á Byggðastofnun heima í Landsbankanum?

Svo leggjum við til að skoðað verði hvort Byggðastofnun ætti ekki að vera deild í Landsbankanum og ráðgefandi aðili fyrir hann. Þá verða hæg heimatökin og menn munu líta á þessi blessuðu byggðamál öðrum augum en gert hefur verið. Sumir segja að Landsbankinn hafi gefið vondu köllunum á landsbyggðinni mikla fjármuni með afskriftum lána og slíku. Við spyrjum: Er það raunin? Hefur ekki bankinn afskrifað og gefið til dæmis Reykvíkingum miklu meiri fjármuni heldur en þessum rugludöllum á landsbyggðinni? Hefur farið fram könnun á því hjá hverjum Landsbankinn hefur verið að afskrifa í gegnum tíðina?

Landsbankinn verði skilgreindur sem banki landsbyggðarinnar í eigu okkar allra eins og áður segir. En auðvitað yrði starfssvæði hans allt landið og miðin eins og verið hefur frá upphafi bankans. Nokkurs konar nýr sparisjóður þeirra sem á landsbyggðinni vilja búa. Hann vinni út frá viðskiptvininum og fyrir hann fyrst og fremst. Eins og bankamaðurinn Rob Galasky nefnir. Allur hagnaður bankans færi til uppbyggingar annars staðar á landinu en á suðvesturhorninu. Ljóst er að fjöldinn allur af erlendum bönkum starfa að ákveðnum verkefnum. Þar höfum við alls konar fyrirmyndir sem áður segir.

Eru viðskiptavinirnir til fyrir bankana?

Vel má hugsa sér að yfirstjórn hins nýja Landsbanka verði að hluta til skipuð fulltrúum landsbyggðarkjördæmanna. Og að hinu leytinu fulltrúum starfsfólks bankans. Aukin áhrif starfsmanna á stjórn og stefnu bankans gætu orðið til mikilla bóta. Í dag virðast menn forðast það eins og heitan eldinn að starfsfólkið komi þar við sögu.

„Nú er ný sala banka framund­an og fjár­mála­kerfi framtíðar­innar á Íslandi í mót­un, en umræðan er innihalds­lít­il og heyr­ist varla.“ Svo seg­ir Kristrún Heimisdóttir í Mogganum og er umhugsunarefni. Undirritaðir hafa kannski ekki mikið vit á bankamálum frekar en margir aðrir. Og þó. Við þekktum sparisjóðakerfið nokkuð vel. Við vitum að almennilegur banki þarf að vinna fyrir viðskiptavini sína eins og þeir gerðu. Við bendum á að það þarf að skilgreina Landsbankann á svipaðan hátt. Við teljum að með þeim vendingum yrði til ný, áhrifarík byggðastefna.

Svo er allt í lagi að nefna hér, að upplagt væri að hinn nýi Landsbanki hefði forgöngu um að afnema bankaleynd af vissum bankagjörningum. Allir mestu fjárglæframenn sögunnar hafa haft bankaleyndina fyrir skjöld og brynju. Er ekki tími til kominn að breyta þeirri vitleysu?

Að lokum: Eru viðskiptavinirnir til fyrir bankana, eða eru bankarnir kannski til fyrir viðskiptavinina?

Hallgrímur Sveinsson   Bjarni G. Einarsson  Guðmundur Ingvarsson

 

Sjávareldi í Vísindaporti vikunnar

Peter Krost (t.h.) í vettvangsferð Háskólasetursins í Álftafirði. Með honum er Eiríkur Ragnarsson starfsmaður HG.

Sjávareldi verður til umfjöllunar í Vísindaporti vikunnar en þá mun Peter Krost, doktor í sjárvistfræði og gestakennari við Háskólasetur Vestfjarða, flytja fyrirlestur um hugtakið sjálfbærni í samhengi við sjávareldi í Eystrasalti.

Í fyrirlestrinum mun Peter m.a. fjalla um mismunandi sýn og kröfur í sjávareldi milli svæða, mikilvægi atvinnulífsins, ofauðgun vegna eldis, afleiddar afurðir sjávareldis, s.s. þang og kræklingar, og rannsóknir og þróun innan sjávareldis, t.d. á smáþörungum. Einnig verður komið inn á vöruþróun og annan virðisauka, t.a.m. snyrtivörur.

Peter Krost útskrifaðist árið 1986 með meistaragráðu í líffræði frá Háskólanum í Kiel og 1990 lauk hann doktorsgráðu í sjávarvistfræði frá the Institute for Marine Science (Geomar). Í ritgerð sinni skoðaði hann áhrif botnveiða á efnasamsetningu botnsins og botnlífverur í Eystrarsalti. Árið 1995 stofnaði Peter ásamt tveimur öðrum, fyrirtækið CRM (Coastal Research and Management) sem leggur áherslu á sjálfbæra strandsvæðaþróun, með áherslu á umhverfismat, sjálfbært fiskeldi og úrtöku virkra efna úr sjó. CRM stofnaði þörungaræktun 1998 og hefur rekið kræklingaeldi frá 2010. Nú stýrir Peter námshópi um umhverfismat ásamt því að stýra fiskeldisdeild fyrirtækisins. Peter hefur kennt námskeið um nýsköpun í fiskeldi við Háskólasetur Vestfjarða frá árinu 2012.

Vísindaport er að venju opið fyrir almenning og stendur frá 12.10-13.00 á hverjum föstudegi.  Að þessu sinni mun það fara fram á ensku.

smari@bb.is

Bílasalan eykst

Alls voru 1.343 fólksbílar nýskráðir í febrúar og er það 28% meiri sala heldur en í febrúar á síðasta ári, er salan nam 1.048 bílum. Bílasala það sem af er ári er orðin 2.575 bílar, en var 2.267 í fyrra, aukning um 13,6%.

Af þessum 1.465 seldu bílum voru 419 seldir af BL og hefur umboðið aukið hlutdeild sína um 17% það sem af er ári og alls selt 820 bíla. Enn betur hefur þó Brimborg gert, en söluaukning þar á bæ er 27%. Samkvæmt skráningartölum Samgöngustofu voru merki BL með 28,7% hlutdeild í febrúar og það sem af er árinu er hlutdeildin 28,8% á heildarmarkaði fólks- og sendibíla.

Næst söluhæsta umboðið er Brimborg með 478 selda bíla, Toyota með 444, Askja með 426 og Hekla með 394. Hlutdeild Brimborgar það sem af er ári er 16,8%, Toyota 15,6%, Öskju 15,0% og Heklu 13,8%.

Nýskráningar bílaleigubíla voru 18% fleiri í febrúar heldur en í sama mánuði 2016, en þó 23 prósentum færri sé litið til janúar og febrúar samanlagt. Alls voru 469 bílar nýskráðir bílaleigunum í febrúar, samanborið við 397 í sama mánuði 2016.

Toyota er mest selda eina bílategundin á þessum fyrstu tveim mánuðum ársins með 390 bíla og þar fast á eftir í öðru sæti kemur Kia með 346 bíla. Vinsælasti liturinn á bílum þessa fyrstu mánuðum ársins er hvítur en af heildarskráningum ársins eru 573 bílar hvítir, segir í frétt frá Bílgreinsambandinu.

smari@bb.is

Bæjarins besta 10. tbl. 34. árgangur 2017

10. tbl.
10. tbl.

Samgöngur eru lífæð ferðaþjónustunnar

Frá Dynjandisheiði.

Samtök ferðaþjónustunnar lýsa yfir miklum vonbrigðum yfir boðuðum niðurskurð í samgönguáætlun. Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri samtakanna, segir með ólíkindum að nauðsynlegum framkvæmdum skuli enn og aftur vera ýtt út af borðinu. Hún bendir á að ríkið hvetji ferðamenn til að ferðast um landið allt árið um kring, og þá sé nauðsynlegt að gera þeim það kleift því samgöngur séu lífæð ferðaþjónustunnar.

„Við erum að tala um að ná að hvetja ferðamenn til að fara víðar, ferðast um landið allan ársins hring – og þar er ríkið og stendur með okkur í þar –  en það er ekki hægt á sama tíma þá að draga úr framkvæmdum þannig að þeim sé ekki gert kleift að sækja þá staði sem þeir vilja sækja,“ sagði Helga í samtali við Morgunútvarpið á Rás 2.

Ákvörðun Jóns Gunnarssonar samgönguráðherra um niðurskurð á samgönguáætlun í ljósi minna fjármagns til vegamála á fjárlögum hefur verið mótmælt landið um kring af sveitarstjórnum, landshlutasamtökum, hagsmunasamtökum og venjulegum borgurum þessa lands.

smari@bb.is

Nýjustu fréttir