Þriðjudagur 16. júlí 2024
Síða 2150

Óásættanlegt að loka neyðarbrautinni

 

Bæjarráð Vesturbyggðar tekur undir með þeim sveitarfélögum sem undanfarið hafa ályktað gegn lokun NA/SV flugbrautarinnar á Reykjavíkurflugvelli, svokallaðrar neyðarbrautar. „Það hefur sýnt sig að það er algjörlega óásættanlegt að brautin sé lokuð meðan ekki er boðið upp á aðrar lausnir til að sinna sjúkraflugi við þau tilteknu skilyrði sem brautinni er ætlað að sinna,“ segir í ályktun bæjarráðs og áréttað að ekki verði beðið eftir óafturkræft tjón eigi sér stað áður en gripið verði til aðgerða. Bæjarráð Vesturbyggðar bendir á að íbúar landsbyggðarinnar þurfa að hafa óskert aðgengi að sjúkrahúsi allra landsmanna í Reykjavík.

smari@bb.is

Segir eftirlitið ekki slælegt

Einar K. Guðfinnsson.

Landssamband fiskeldisstöðva (LF) leggur áherslu á að fyrirtæki í fiskeldi fari varlega í sinni starfsemi og lágmarki umhverfisáhrif, að sögn Einars K. Guðfinnssonar, formanns LF. Landssamband veiðifélaga hefur kært til lögreglu slysasleppingu á regnbogasilungi í fyrra. Í haust veiddist regnbogasilungur í ám víða á Vestfjörðum og fregnir bárust af eldisfiski í ám í öðrum landshlutum. Í tilkynningu frá Landssambandi veiðifélaga segir að slysasleppingin í fyrra sé annaðhvort saknæmur atburður eða „alvarleg birtingarmynd á slælegu eftirliti með sjókvíaeldi á Ísland og lýsir þungum áhyggjum af skeytingarleysi stjórnvalda í þeim efnum.“

Einar segir alls ekki rétt að eftirlit með fiskeldi sé slælegt. „Lögin eru mjög skýr og Matvælastofnun hefur eftirlitshlutverkið og hefur eins og lög gera ráð fyrir verið með þetta mál til rannsóknar og ég treysti Matvælastofnun til að fara með þetta vald,“ segir Einar. Ekki er ljóst hvenær niðurstaða fæst í rannsókn Matvælastofnunar á slysasleppingunni í fyrra.

Hann bendir á að Landssamband fiskeldisstöðva hafi sent frá sér yfirlýsingu eftir að regnbogasilungurinn veiddist síðasta haust þar sem fram kom að fiskeldisstöðvarnir leggi kapp á að komast að því hvaðan regnbogasilungurinn kemur. Regnbogasilungur er alinn í fjórum fjörðum á Vestfjörðum, í Önundarfirði, í Dýrafirði, í Tálknafiðri og í Ísafjarðardjúpi. Eldi á regnbogasilungi er á undanhaldi og eldisfyrirtækin einblína í meiri mæli á laxeldi.

smari@bb.is

Vill að umhverfisnefnd geri frumkvæðisathugun á fiskeldi

Fiskeldi er stórt mál, segir Kolbeinn Óttarsson Proppé. Mynd: mbl.is/Árni Sæberg

 

Kolbeinn Óttarsson Proppé, þingmaður VG og nefndarmaður í umhverfisnefnd Alþingis, vill að nefndin geri að eigin frumkvæði athugun á stöðu fiskeldi á Íslandi, sér í lagi þá sjókvíaeldi. Á vefsíðu sinni segir Kolbeinn að fiskeldi sé stórt mál þar sem að mörgu er að hyggja og „eins og í öllu á þar umhverfið að njóta vafans,“ skrifar Kolbeinn. Nefndarmenn tóku ágætlega í tillöguna, að sögn Kolbeins.

Í október ákvað Gunnar Bragi Sveinsson, þáverandi sjávarútvegsráðherra, að ráðast í stefnumótun fyrir allt fiskeldi á Íslandi. Í þeirri vinnu átti meðal annars að fjalla um umhverfisþætti, stjórnsýslu, gjaldtöku, útgáfu rekstrarleyfa, menntunarmál ásamt efnahags- og samfélagslegum þáttum.

smari@bb.is

Hlýjasta ár á Vestfjörðum frá upphafi mælinga

Árið 2016 var sérlega hlýtt hér á landi. Við Breiðafjörð og á Vestfjörðum var árið það hlýjasta frá því að mælingar hófust og í hópi þeirra hlýjustu í öðrum landshlutum. Hiti fyrstu tvo mánuðina var þó nærri meðallagi en haustið sérlega hlýtt. Vindar voru með hægara móti. Fremur þurrt var um tíma, frá því síðla vetrar og fram á sumar, en haustið óvenju úrkomusamt, sérstaklega um landið sunnanvert.

Meðalhiti í Reykjavík var 6,0 stig og er það 1,7 stigi ofan meðallags áranna 1961 til 1990. Er þetta 21. árið í röð með hita yfir meðallagi og næsthlýjast þeirra 146 ára sem samfelldar mælingar ná til ásamt 2014. Í Stykkishólmi var ársmeðalhitinn 5,5 stig, 2,0 stigum yfir meðallagi. Þetta er hlýjasta ár frá upphafi mælinga í Stykkishólmi 1846. Á Akureyri var meðalhitinn 4,9 stig, 1,7 stigi ofan meðallags. Þar var nokkru hlýrra árið 2014. Á Stórhöfða í Vestmannaeyjum var meðalhiti ársins 6,0 stig, 1,2 stigum ofan meðallags. Á landsvísu var hitinn 1,7 stigum ofan meðallagsins 1961 til 1990, og en 0,7 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára.

Á vef Veðurstofu Íslands má sjá yfirlit yfir tíðarfar ársins 2016, hita og úrkomu. Einnig má það sjá það sem bar helst til tíðinda í veðurfari á landinu hvern mánuð fyrir sig.

annska@bb.is

Tugir krakka á Hamraborgarmótinu

Yngsta hollið á Hamraborgarmótinu í fyrra með meistaraflokki Vestra.

 

Hátt í 80 krakkar í 1.-6. bekk létu ljós sitt skína á fyrsta Hamraborgarmótinu sem körfuknattleiksdeild Vestri stóð fyrir á Torfnesi á mánudag. Mótið var boðsmót meistaraflokks karla og Hamraborgar en meistaraflokkur sá um allt skipulag undir stjórn Yngva Gunnlaugssonar yfirþjálfara. Ofursjoppan Hamraborg bauð síðan allri hersingunni í glæsilega pizzuveislu í mótslok.

Mótið  er liður í því að undirbúa yngstu iðkendur félagsins fyrir stóra Nettómótið sem fram fer í Reykjanesbæ í byrjun mars, en það er stærsta körfuboltamót landsins. Löng hefð er fyrir þátttöku körfuboltabarna af norðanverðum Vestfjörðum á því móti og árið í ár verður þar engin undantekning. Nettómótið er ætlað börnum í 1.-5. bekk og ófáir körfuboltamenn hafa stigið sín fyrstu keppnisskref á því móti.

smari@bb.is

Byrja að grafa í Arnarfirði

Teikning af munna Dýrafjarðarganga við Rauðsstaði í Arnarfirði.

„Lægsta tilboðið er um 93-94 prósent af okkar áætlun þannig að þetta er allt innan þeirra marka sem við höfum verið að miða við,“ sagði Hreinn Haraldsson vegamálastjóri í viðtali við Stöð 2 í gær. Tilboð í Dýrafjarðargöng voru opnuð í göng. Tékkneska fyrirtækið Metrostav og Suðurverk áttu lægsta tilboðið, 8,7 milljarða króna. Vestfirðingar eru margbrenndir þegar kemur að loforðum um Dýrafjarðargöng en nú þurfa þeir ekki að óttast lengur að sögn Hreins vegamálstjóra. „Ég held að það sé alveg 110 prósent öruggt að nú verður ekki aftur snúið. Enda hef ég ekki heyrt neinar áætlanir um það frá stjórnvöldum. Nú verður bara sett í gang síðar á þessu ári og framkvæmdir hefjast þá,“ sagði Hreinn í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær.

Fyrirtækin Metrostav og Suðurverk eru þaulkunnug jarðgangagerð á Íslandi og klára í ár Norðfjarðargöng.

Forstjóri Suðurverks, Dofri Eysteinsson, segir henta vel að fara beint í Dýrafjarðargöng og þeir byrji á því að koma sér fyrir í Arnarfirði og áætlað að byrja á tímabilinu júlí til september.

smari@bb.is

Slysaslepping kærð til lögreglu

Regnbogasilungur.

Landssamband veiðifélag hefur kært sleppingu regnbogasilunga úr fiskeldi á Vestfjörðum til lögreglu. Í tilkynningu frá sambandinu segir að regnbogasilungur hafi veiðst í ám á Vestfjörðum en einnig í Vatnsdalsá, Haffjarðará, Hítará á Mýrum og fleiri ám. „Ljóst er að mikið magn regnbogasilungs hefur sloppið úr eldi sé horft á dreifingarsvæði regnbogans,“ segir i tilkynningunni.

Landssambandið vísar til þess að samkvæmt lögum ber að tilkynna slysasleppingar án tafar til Fiskistofu en engin slík tilkynning hefur borist og telur sambandið óhugsandi að fiskur sleppi úr sjókvíum í þeim mæli sem vísbendingar eru um án vitundar rekstrarleyfishafa.

„Landssambandið telur brýnt að upplýsa hvort hér sé um saknæman atburð að ræða sem kann að varða refsiábyrgð forsvarsmanna viðkomandi fyrirtækis eða fyrirtækja. Landssambandið telur að þessi atburður sé alvarleg birtingarmynd á slælegu eftirliti með sjókvíaeldi á Ísland og lýsir þungum áhyggjum af skeytingarleysi stjórnvalda í þeim efnum,“ segir í tilkynningunni.

smari@bb.is

Haraldur formaður fjárlaganefndar

Haraldur Benediktsson.

 

Haraldur Benediktsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks í Norðvesturkjördæmi, verður formaður fjárlaganefndar, einnar áhrifamestu nefndar Alþingis. Fyrstu fundir fjögurra þingnefnda voru í morgun. Óli Björn Kárason Sjálfstæðisflokki var kjörinn formaður efnahags- og viðskiptanefndar, Valgerður Gunnarsdóttir Sjálfstæðisflokki var kjörin formaður velferðarnefndar, Nichole Leigh Mosty verður formaður velferðarnefndar og eins og áður segir var Haraldur Benediktsson kjörinn formaður fjárlaganefndar. Varaformenn nefndanna koma líka úr hópi stjórnarliða.

smari@bb.is

Veðrabrigði á dagskrá sjónvarpsins í kvöld

Önundur Pálsson, viðmælandi leikstjóra í þættinum ásamt Hjálmtýri Heiðdal og Ásdísi Thoroddsen

 

Heimildarmyndin Veðrabrigði í leikstjórn Ásdísar Thoroddsen verður sýnd á ríkissjónvarpinu í kvöld en myndin fjallar um Flateyri og afleiðingar kvótakerfis á mannlíf og byggð í þorpinu. Gríðarleg fólksfækkun hefur verið á Flateyri undanfarinn áratug, sérstaklega eftir sölu Kambs á öllum eignum sínum, bátum og veiðiheimildum, árið 2007 og um það bil 120 manns misstu vinnuna.

Tekin eru fjölmörg viðtöl við íbúa á Flateyri og gamalt fréttaefni rifjað upp. Framleiðendur myndarinnar eru Hjálmtýr Heiðdal og Heather Millard, ásamt Yeti Film og Metro Films. Myndin var frumsýnd í nóvember 2015

Matreiðsluvínið tekið úr sölu

Matreiðsluvín í hillum Samkaupa

 

Í frétt sem birtist á vef Bæjarins besta í gær var sagt frá matreiðsluvíni með háum áfengisstyrkleika sem selt var í verslun Samkaupa Úrvals á Ísafirði. Ingólfur Hallgrímsson verslunarstjóri segist ekki hafa fundið fyrir mikilli andstöðu við söluna á matreiðsluvíninu og engar kvartanir borist honum, en nokkuð var rætt um málið á samfélagsmiðlum þar sem fólk óttaðist að ungmenni nýttu sér þessa tegund áfengis og má segja sömu sögu af öðrum tímum um sama mál víðsvegar um landið. Þetta hefur þó reynst snúið það sem ekkert bannar sölu á slíkum varningi. Tekin hefur verið ákvörðun af verslunarstjóra Samkaupa Úrvals á Ísafirði í samráði við heildsala að matreiðsluvínið verði ekki lengur selt í versluninni.

annska@bb.is

Nýjustu fréttir