Margrét Gauja nýr skólastjóri Lýðskólans á Flateyri

Margrét Gauja Magnúsdóttir hefur verið ráðin skólastjóri Lýðskólans á Flateyri og tekur við af Sigríði Júlíu Brynleifsdóttur, fráfarandi skólastjóra sem tók um áramótin við starfi bæjarstjóra Ísafjarðarbæjar.

Margrét Gauja er með BA-prófi frá Háskóla Íslands í uppeldis- og menntunarfræðum með atvinnulífsfræði sem aukagrein og hefur lokið kennsluréttindanámi frá sama skóla. Hún er með meistarapróf í Forystu og stjórnun með áherslu á mannauðsstjórnun frá Háskólanum á Bifröst og stundar diplómanám við HÍ í fjölbreytileika og farsæld. Hún hefur jöklaleiðsöguréttindi, meirapróf og er athafnastjóri hjá Siðmennt. Margrét Gauja var bæjarfulltrúi í Hafnarfirði í tólf ár og var m.a. formaður Íþrótta- og tómstundanefndar Hafnarfjarðarbæjar, formaður Umhverfis- og framkvæmdarráðs, stjórnarformaður Sorpu bs. og forseti bæjarstjórnar.

Margrét Gauja hefur stýrt fjölþjóðlegum verkefnum styrktum af sjóðum Evrópusambandsins og starfað sem náms- og starfsráðgjafi og forvarnarfulltrúi við Framhaldsskóla Austur-Skaftafellssýslu og var verkefnastjóri hjá Fræðsluneti Suðurlands. Margrét Gauja hefur haldið námskeið víða um land um valdeflingu ungs fólks og var deildastjóri ungmennahúsa í Hafnarfirði. Hún er nú sérfræðingur hjá Mennta- og barnamálaráðuneytinu og sér þar um aðgerðaráætlun gegn ofbeldi á meðal barna og gegn börnum, ásamt öðrum verkefnum tengdum velferð barna og ungmenna.

„Um leið og við þökkum Sigríði Júlíu, fráfarandi skólastjóra, fyrir frábært starf í þágu skólans undanfarin ár erum við glöð og ánægð með að fá Margréti Gauju til liðs við okkur“ segir Runólfur Ágústsson, formaður stjórnar skólans. „Magga Gauja er með víðtæka reynslu af starfi með ungu fólki, menntun þeirra og þjálfun og hefur í sínum störfum sýnt að hún er skapandi leiðtogi sem er annt um fólk og velferð þess. Þeir eiginleikar og sú reynsla mun reynast henni dýrmætt veganesti.“

„Ég er virkilega spennt að hefja störf við Lýðskólann á Flateyri og fá að taka þátt í að þróa hann áfram ásamt samstarfsfólki, nemendum, stjórn og síðast en ekki síst íbúum Flateyrar“ segir Margrét Gauja. „Lýðskólar eru nauðsynleg viðbót við íslenskt menntakerfi því sú þekking, reynsla og valdefling sem ungt fólk fær á Flateyri, fylgir þeim út lífið og það er heiður að fá að taka þátt í þeirri vegferð, með þeim“

DEILA