Tíðarfar í nóvember 2024

Frá Steingrímsfjarðarheiði Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Tíðarfar í nóvember var mjög tvískipt. Óvenjuleg hlýindi voru á öllu landinu fyrri hluta mánaðarins. Á mörgum veðurstöðvum hefur meðalhiti þessara fyrstu 14 nóvemberdaga aldrei mælst eins hár.

Mjög hlýjar og tiltölulega hvassar sunnanáttir voru allsráðandi þessa daga, með vætutíð sunnan- og vestanlands, en þurru og hlýju veðri á Norður- og Austurlandi.

Um miðjan mánuðinn snerist svo í norðanáttir. Þá kólnaði hratt á landinu og var hiti vel undir meðallagi út mánuðinn. Þá var þurrt á sunnan- og vestanverðu landinu, en úrkomusamt og töluverð snjóþyngsli á Norður- og Austurlandi.

Það var snjólaust á láglendi fyrri helming mánaðarins, en alhvítt og nokkuð snjóþungt á norðan- og austanverðu landinu seinni helminginn.

Jörð var alauð alla morgna í Reykjavík, nema fimm daga þegar það var flekkótt. Alhvítir dagar á Akureyri voru 15, sem er þremur fleiri en að meðaltali 1991 til 2020.

Í Reykjavík mældust 56,0 sólskinsstundir í mánuðinum. Það er 16,3 stundum yfir meðallagi áranna 1991 til 2020. Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 20,6 sem er 5,4 stundum yfir meðallagi 1991 til 2020.

DEILA