Frá því er sagt á vef Háskólaseturs að nýlega hafi rannsóknargrein verið birt í tímaritinu Marine Policy eftir Hjörleif Finnsson, Catherine Chambers og Guðna Guðbergsson (Hafró) um stjórnun hnúðlaxa.
Greinin byggir á meistaraverkefni Hjörleifs Finnssonar, sem útskrifaðist úr meistaranámi í Haf- og Strandsvæðastjórnun árið 2021 frá Háskólasetri Vestfjarða.
Rannsóknargreinin fjallar um aðferðir til að stjórna útbreiðslu hnúðlaxa (Oncorhynchus gorbuscha) í íslenskum vatnsfarvegum og áhrifum þeirra á umhverfið.
Fram kemur í greininni að hnúðlax hefur borist til Íslands sem flækingur frá 1960 en honum hefur fjölgað mikið milli áranna 2017-2023. Rannsóknin fólst í heimildavinnu og viðtölum við hagsmunaaðila í náttúruvernd, stangveiði og í stjórnkerfinu. Ágengar tegundir eins og hnúðlax eru ört vaxandi og geta verið ógn við líffræðilega fjölbreytni.
Rannsóknin veitir innsýn í vandamál stjórnunar á framandi og ágengum tegundum á Íslandi og gerir tillögur um lausnir.
Verkefnið var unnið í samstarfi við Háskólasetur Vestfjarða, Vestfjarðastofu, Hafrannsóknastofnun og Stofnun Stefnáns Vilhjálmssonar.
Rannsóknarvinna af þessu tagi sýnir fram á framlag útskrifaðra meistaranema frá Háskólasetri Vestfjarða til úrlausna á mikilvægum áskorunum á sviði haf- og strandsvæðastjórnunar.