Ísafjörður: breytt aðalskipulag og nýtt deiliskipulag fyrir Suðurtanga

Sigríður Júlía Brynleifsdóttir, forseti bæjarstjórnar segir að stórum áfanga hafi verið náð á bæjarstjórnarfundi í fyrradag þegar bæjarstjórn samþykkti tillögu að breytingu á aðalskipulagi Suðurtanga sem og nýtt deiliskipulag fyrir svæðið.

Næsta skref  er að tillögurnar (bæði aðalskipulags og deiliskipulags) verða sendar til Skipulagsstofnunar til yfirferðar. Skipulagsstofnun hefur þá fjórar vikur til að yfirfara og ef engar athugasemdir er gerðar þar, mun Skipulagsstofnun gefa grænt ljós og senda aðalskipulagstillögu til auglýsingar í B deild Stjórnartíðinda.

Sami ferill er með deiliskipulagið nema að eftir yfirferð Skipulagsstofnunar veitir stofnunin Ísafjarðarbæ heimild til að senda deiliskipulagið í auglýsingu í B deild Stjórnartíðinda. Þetta þýðir að ef allt gengur samkvæmt áætlun þá ætti að vera hægt að auglýsa atvinnulóðir á Suðurtanga til úthlutunar í desember, á þessu ári.

Eftirfarandi bókun lagði Sigríður Júlía fram í nafni allra bæjarfulltrúa Ísafjarðarbæjar:

„Frá því að hafist var formlega handa við breytingu á aðalskipulagi og gerð nýs deiliskipulags á Suðurtanga, sem var í nóvember 2023, hefur það gengið vel. Með góðri samvinnu skipulags- og mannvirkjanefndar, hafnarstjórnar, embættismanna, skipulagssérfræðinga og atvinnulífs erum við komin með glæsilegt skipulag. Ef allt gengur samkvæmt áætlun ætti Ísafjarðarbær að geta auglýst lóðir til úthlutunar í desember 2024. Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar fagnar þessum tímamótum. Það gefur vaxandi atvinnulífi tækifæri til að stækka enn frekar.”

DEILA