Arna Lára Jónsdóttir, bæjarstjóri segir ljóst er að starfslýsing bæjarverkstjóra sem birtist á vef starfsmatsins sé mjög almenn og nái alls ekki heildrænt yfir starf viðkomandi, enda eingöngu stutt almenn lýsing. Hún segir að sveitarfélagið sé ekki sammála þeirri túlkun VerkVest að starf bæjarverkstjóra komi til með að skerða tekjumöguleika verkamanna hjá sveitarfélaginu.
Arna Lára var innt eftir viðbrögðum sínum við gagnrýni Verkalýðsfélags Vestfirðinga sem fram kom í Bæjarins besta á fimmtudaginn. Verkvest segir að nýjum bæjarverkstjóra sé ætlað að vinna verkefni sem er að finna í starfslýsingum verkafólks og mótmælir því harðlega.
„Réttilega hafa orðið breytingar í mannahaldi hjá þjónustumiðstöðinni enda er það í samræmi við lögmæta skyldu sveitarfélagsins að haga rekstri með ábyrgum hætti. Mannahald er eðli máls samkvæmt miðað við verkefnastöðu og í því tilviki sem um ræðir mætti telja það sóun ef verkstjóri tæki ekki virkan þátt í úrvinnslu verkefna að einhverju leyti, þó hlutverk hans miðist að mestu við umsjón með þessum verkefnum. Þá má telja eðlilegt og í raun æskilegt að verkstjóri taki einhvern þátt í störfum sem þarf að vinna og með því sýna gott fordæmi og leiðtogahæfni.
Athyglisvert er að stéttarfélagið geri athugasemdir við það hvernig starfslýsingum sveitarfélagsins skuli háttað, án þess að kynna sér báðar hliðar máls.“