Vonbrigði með tillögur Strandanefndar

Drangsnes. Mynd: Sturla Páll Sturluson.

Sveitarstjórn Kaldrananeshrepps lýsir yfir vonbrigðum með tillögur Strandanefndar og telur að ekki hafi verið unnið áfram með fjölda hugmynda sem komu fram í upphafi en einblínt hafi verið á verkefni sem þegar eru komin í farveg.

Tillögurnar hafa ekki verið birtar.

Tildrögin eru að í byrjun nóvember 2023 sendu sveitarstjórnir á Ströndum erindi til forsætisráðherra og
óskaði eftir því að ríkisstjórn skipi landshlutanefnd um aðgerðir á Ströndum sem lúti að fjárfestingum, verkefnum stofnana og búsetuskilyrði á Ströndum.

Sveitarstjórn Kaldrananeshrepps segir að tillögur nefndar forsætisráðherra um málefni Stranda liggi nú fyrir og þar séu útlistaðar fjórar aðgerðir sem nefndin leggur til að gripið verði strax í.

Bókun sveitarstjórnarinnar er eftirfarandi:

„Sveitarstjórn þakkar Forsætisráðuneytinu fyrir frumkvæði að þessari vinnu með það að leiðarljósi að styrkja samfélögin á Ströndum sem mikil þörf er á.
Sveitarstjórn lýsir yfir vonbrigðum með skýrsluna og telur að ekki hafi verið unnið áfram með fjölda hugmynda sem komu fram í upphafi en einblínt var á verkefni sem þegar eru komin í farveg.
Þrátt fyrir góða punkta í skýrslunni telur sveitarstjórn að niðurstaðan hafi verið sú að ekki voru nýtt þau tækifæri sem til staðar eru.“

DEILA