Vesturbyggð ber að afgreiða án tafar kæru vegna sorphirðugjalda

Tálknafjörður

Ábúendur á Eysteinseyri í Tálknafirði gerðu athugasemdir við sorphirðugjöld á lögbýlinu Eysteinseyri fyrir árin 2022 og 2023. Telja þeir að sveitarfélagið hafi oftekið sorphirðugjöld og krejast endurgreiðslu. Sendu þeir þrjú bréf til sveitarstjóra Tálknafjarðarhrepps, dags 6. nóvember, 15. desember 2023 og 26. janúar 2024. Var með erindunum óskað upplýsinga um innheimtu sorphirðugjalda.

Bréfunum var ekki svarað og sneru ábúendur sér þá til Innviðaráðuneytisins sem framsendi erindið í maí til úrskurðarnefndar um umhverfis- og auðlindamál, ÚUA.

Tálknafjarðarhreppur og Vesturbyggð hafa nú sameinast í einu sveitarfélagi, Vesturbyggð, sem tekið hefur með því við fyrirsvari málsins. Öðlaðist sameiningin gildi 19. maí 2024.

Vesturbyggð vísaði fyrir nefndinni í greinargerð Tálknafjarðarhrepps, dags. 20. apríl 2024, þar sem sjónarmið og rökstuðningur sveitarfélagsins vegna ákvörðunar sorphirðugjalds eru rakin en ekki er fjallað um svör við erindum kærenda, þ.e. hvort eða hvenær þeim hafi verið svarað.

Úrskurðarnefndin sendi Vesturbyggð fyrirspurn með tölvupósti 26. september 2024 þar sem óskað var upplýsinga um hvort fyrirspurnum þeim sem kærumál þetta varðar hafi verið svarað. Með tölvupósti 27. s.m. upplýsti sveitarfélagið að ekki hafi verið brugðist við erindum með neinum hætti eftir að sameining sveitarfélaganna tók gildi.

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar í gær er að  Vesturbyggð hafi ekki svarað þeim erindum er kærendur beindu til sveitarfélagsins og kæran varðar og af svörum sveitarfélagsins til úrskurðarnefndarinnar megi ráða að ekki sé að vænta svara. „Að því virtu verður að álíta að óhæfilegur dráttur hafi orðið á meðferð erindis kærenda.“

Úrskurðarorðin eru: Vesturbyggð skal taka fyrirliggjandi erindi kærenda er varða gjaldtöku vegna sorphirðugjalda til afgreiðslu án ástæðulauss dráttar.

DEILA