Stjórn Verkalýðsfélags Vestfirðinga hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna auglýsingar Ísafjarðarbæjar um nýtt starfs bæjarverkstjóra.
Segir þar að samkvæmt auglýsingunni sé um breytingu að ræða á starfinu þannig að verkstjóra er ætlað að ganga í störf verkafólks hjá þjónustumiðstöð sveitarfélagsins. Bætist þetta við að störfum hjá þjónustumiðstöð Ísafjarðarbæjar hafi fækkað með útvistun úr 6 – 8 niður í 2 starfsmenn.
Nýjum bæjarverkstjóra sé ætlað að vinna verkefni sem er að finna í starfslýsingum verkafólks í starfsmati fyrir gildandi kjarasamning Verkalýðsfélags Vestfirðinga við Samband íslenskra sveitarfélaga og því bæjarverkstjóra ætlað að ganga í störf verkamanna og þar með skerða tekjumöguleika þeirra hjá sveitarfélaginu.
„Þeirri aðför að starfsréttindum verkafólks mótmælir stjórn verkalýðsfélags Vestfirðinga harðlega og krefst þess að bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar hlutist til um að nýr bæjarverkstjóri muni ekki ganga í störf verkafólks hjá sveitarfélaginu“ segir í yfirlýsingunni.
Yfirlýsingin í heild:
Ísafjarðarbær auglýsir á heimasíðu bæjarins eftir Bæjarverkstjóra til starfa á Þjónustumiðstöð Ísafjarðarbæjar en umsóknarfrestur rennur út 11. nóvember nk. Um er að ræða starf sem samkvæmt starfsmati Sambands íslenskra sveitarfélaga og samningsaðila krefst iðmenntunar. Af auglýsingunni má ráða að sveitarfélagið hefur ekki látið endurmeta starfið sem staðbundið starf bæjarverkstjóra og er það í alla staði umfangsmeira en lýsingar á starfi bæjarverkstjóra í starfsmati gefa tilefni til. Í núverandi starfsmati sveitarfélaga vegna kjarasamninga starfsfólks hjá sveitarfélögum eru til starfslýsingar fyrir Bæjarverkstjóri I og Bæjarverkstjóri II. Má með sanni benda á að einungis þrjú atriði á lista um helstu verkefni í auglýsingu Ísafjarðarbæjar samræmist starfslýsingum í starfsmatinu. Önnur verkefni sem bæjarverkstjóra er ætlað að sinna falla undir starfslýsingu verkafólks hjá sveitarfélaginu.
Samkvæmt auglýsingu eru helstu verkefni sem tilheyra nýrri stöðu bæjarverkstjóra eftirfarandi;
- Dagleg verkstjórn starfsmanna í samráði við forstöðumann þjónustumiðstöðvar
- Tryggir að öll tæki og áhöld séu í lagi og kemur með tillögur að endurnýjunarþörf
- Verkstjórn og samskipti við verktaka varðandi snjómokstur
- Stjórnun stærri tækja og þungavinnuvéla s.s. gröfu og götusóps ef þörf krefur
- Umsjón með tækjum og vinnuvélum, viðhald og viðgerðir
- Lagnavinna og gatnagerð
- Ýmiskonar viðhald s.s. viðhald gatna, gönguleiða, holræsa og vatnslagna
- Ýmiskonar flutningur og önnur þjónusta við stofnanir bæjarins
- Kemur að og sinnir öryggismálum á vinnustað
*Skáletrað eru verkefni sem tilheyra verkefnum bæjarverkstjóra samkvæmt Starfsmati sveitarfélagsins og samningsaðila. Feitletrað eru verkefni sem falla til starfa verkafólks samkvæmt Starfsmati.
Um breytingar á fyrra skipulagi starfa hjá Ísafjararbæ er að ræða og er því harðlega mótmælt að sveitarfélagið ætli verkstjóra að ganga í störf verkafólks hjá þjónustumiðstöð sveitarfélagsins. Má benda á þá staðreynd að hjá þjónustumiðstöð Ísafjarðarbæjar starfa eingöngu tveir fastráðnir verkamenn við ýmiskonar viðhald á innviðum í sveitarfélaginu. Í því samhengi má einnig benda á aðra staðreynd sem er að sveitarfélagið hefur þegar farið í mikinn niðurskurð á störfum verkafólks við þjónustumiðstöðina þar sem áður störfuðu 6 – 8 verkamenn og þar af 3 tækjamenn. Þeim störfum hefur verið útvistað úr kjarnastarfsemi Ísafjarðarbæjar.
Flest af þeim störfum sem umræddir tveir verkamenn sinna eru talin upp sem helstu verkefni hjá nýjum bæjarverkstjóra í áður nefndri auglýsingu. Rétt er að benda á að einmitt þessi verkefni er að finna í starfslýsingum verkafólks í starfsmati fyrir gildandi kjarasamning Verkalýðsfélags Vestfirðinga við Samband íslenskra sveitarfélaga.
Af ofansögðu má vera ljóst að bæjarverkstjóra er ætlað að ganga í störf verkamanna og þar með skerða tekjumöguleika þeirra hjá sveitarfélaginu.
Þeirri aðför að starfsréttindum verkafólks mótmælir stjórn verkalýðsfélags Vestfirðinga harðlega og krefst þess að bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar hlutist til um að nýr bæjarverkstjóri muni ekki ganga í störf verkafólks hjá sveitarfélaginu. Verkalýðsfélag Vestfirðinga krefst skýrra svara frá bæjarstjórn um hvort fyrirhuguð sé enn meiri fækkun verkafólks og þar með aðför að atvinnuöryggi verkafólks hjá sveitarfélaginu?
Stjórn Verkalýðsfélags Vestfirðinga