ÚUA: fellir leyfi Arnarlax í Ísafjarðardjúpi úr gildi

Eldissvæði Arnarlax í Ísafjarðardjúpi.

Úrskurðarnefnd um umhverfis- og auðlindamál felldi í gær úr gildi rekstrarleyfi Arnarlax fyrir 10.000 tonna eldi á ófrjóum eldislaxi í Ísafjarðardjúpi.

Matvælastofnun veitti leyfið 13. júní 2024.

Kærandi var Hábrún ehf á Ísafirði og síðar bættust við allmargir aðrir aðilar. Voru það einn eigandi jarðarinnar Vigur, eigandi jarðarinnar Sandeyri, einn eigandi jarðarinnar Unaðsdals, eigandi jarðarinnar Æðeyjar, rekstraraðili ferðaþjónustu í Dalbæ, rekstraraðilar ferðaþjónustu á Lónseyri, kajakræðari búsett í Hnífsdal, Íslenski náttúruverndarsjóðurinn (IWF) og Verndarsjóður villtra laxastofna (NASF).

Hábrún hf., stundar sjókvíaeldi í Skutulsfirði og er eldissvæði fyrirtækisins styst í um 3,5 km fjarlægð frá eldissvæðinu sem kennt er við Óshlíð. Þá voru íslenski náttúruverndarsjóðurinn (IWF) og Verndarsjóður villtra laxastofna (NASF) samþykktir sem kæruaðilar. Kærum aðila frá  frá Sandeyri, Unaðsdal og Lónseyri, svo og frá félagsheimilinu Dalbæ á Snæfjallaströnd og Hnífsdal var vísað frá. Fallist var á kærur frá eigendum Vigurs og Æðeyjar.

Í kærunum voru borin fram allmörg atriði sem að mati kærenda ættu að leiða til þess að fella leyfið úr gildi, en niðurstaða úrskurðarnefndarinnar var að gera athugasemd við að heimilað væri eldi óskyldra aðila þar sem fjarlægð milli kvía væri minni en 5 km án þess að Matvælastofnun hafi „leitast við leggja heildstætt vegið mat á þá áhættu sem felst í fráviki frá viðmiðun reglugerðar um minnstu fjarlægð milli fiskeldisstöðva í Ísafjarðardjúpi, að teknu tilliti til aðstæðna á því svæði.“ og síðan rökstyðja fjarlægðarundanþáguna með vísan til þess mats.

„Verður af þeirri ástæðu og með vísan til þeirra ríku skyldna sem hvíla á Matvælastofnunar við útgáfu leyfis til framkvæmdar sem sætt hefur mati á umhverfisáhrifum, að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi.“

Ekki liggur fyrir hvert framhald málsins verður, en einn möguleikinn er að Matvælastofnun mæti þessari athugasemd úrskurðarnefndarinnar og geri umrætt heildstæða mat og í framhaldinu gefi út nýtt rekstrarleyfi að því gefnu að matið gefi tilefni til þess.

Annar möguleiki er að úrskurðurinn verði borinn undir dómstóla til þess fá honum hnekkt og það gæti Matvælastofnun eða Arnarlax væntanlega gert.

Starfsleyfi Arnarlax fyrir umræddu eldi er enn í gildi en það var gefið út af Umhverfisstofnun.

DEILA