Ég er María Rut Kristinsdóttir, Flateyringur í móðurættina en Ísfirðingur í föðurættina. Fyrir áhugasama um ættfræði þá er amma mín Jóhanna Guðrún Kristjánsdóttir á Flateyri og mamma mín Vigdís Erlingsdóttir. Pabbi minn er Kristinn Jónsson á Ísafirði og bónusmamma Halldóra Björk Norðdahl. Amma og afi á Ísafirði eru svo Nonni Láka og Sigurbjörg Kristinsdóttir. Fjölskyldan mín býr mestmegnis öll í Ísafjarðarbæ – þannig að við fjölskyldan reynum eftir fremsta megni að verja eins miklum tíma og við getum heima. Öll sumur, jól og páska. Enda hvergi annars staðar betra að vera.
Ég er gift Ingileif Friðriksdóttur, framkvæmdastjóra og rithöfundi og saman eigum við tvö börn, þau Rökkva og Hrafndísi. Fyrir átti ég Þorgeir Atla sem er að verða sautján ára. Ég var átján ára menntaskólanemi í Menntaskólanum á Ísafirði þegar hann fæddist. Þar sannaðist hið fornkveðna – það þarf þorp til að ala upp barn. Nærsamfélagið sá um að dæmið myndi ganga upp fyrir okkur og ég lauk stúdentsprófi á réttum tíma árið 2009.
Ég sá um félagsmiðstöðina Djúpið í einn vetur eftir útskrift en svo lá leiðin suður í Háskóla Íslands. Þar lærði ég sálfræði en var einnig virk í stúdentapólitíkinni. Var formaður Stúdentaráðs Háskóla Íslands 2013-2014 og sat í Háskólaráði á sama tíma. Ég hef alla tíð verið virk í félagsstörfum. Ég stofnaði fræðsluvettvanginn Hinseginleikann ásamt Ingileif og við höfum ferðast um allt land til að fræða um fjölbreytileikann. Ég var að auki varaformaður Samtakanna ‘78 og talskona Druslugöngunnar á uppgangsárum hennar. Ég var virk í baráttu gegn ofbeldi í samfélaginu okkar og varð síðar formaður samráðshóps innanríkisráðherra um meðferð kynferðisbrota innan réttarvörslukerfisins. Þar leiddi ég saman allt réttarvörslukerfið og við komum okkur saman um aðgerðir til þess að bæta umgjörð málaflokksins.
Ég hef frá 2017 starfað sem aðstoðarmaður Þorgerðar Katrínar, formanns Viðreisnar, að undanskildu árinu 2022 þar sem ég starfaði sem kynningarstýra UN Women á Íslandi. Pólitíkin togaði mig samt alltaf til sín og ég fór aftur í mitt fyrra starf fyrir rúmu ári. Ég er einnig varaþingmaður fyrir Viðreisn og hef tekið sæti í þrígang. Þar hef ég nýtt tímann til að senda út fyrirspurnir til ráðherra um stöðu mála í Norðvesturkjördæmi. Þá spurði ég meðal annars um raforkuöryggi á Vestfjörðum, uppbyggingu jarðgangna á Vestfjörðum, um vegakerfi og vegaframkvæmdir á Vesturlandi og um læknaskort í Grundarfirði.
Í kosningabaráttunni mun Viðreisn leggja áherslu á stöðu efnahagsmála í samfélaginu okkar. Við erum hér föst í 9% stýrivöxtum á meðan nágrannaþjóðirnar okkar eru allar mun lægri. Í Danmörku eru þeir til dæmis 2.85% og 3.25% í Svíþjóð. Verðbólgan hér er líka þrálátari og ýktari. Ég finn það á ungu fjölskyldufólki í kringum mig að það er að sligast undan greiðslubyrði og þeim ófyrirsjáanleika sem fylgir því að vera hér með húsnæðislán. Ég á alltof marga vini sem eru farnir að hugsa um að flytja hreinlega annað í þeirri von að búa við stöðugra umhverfi og stöðugri gjaldmiðil. Þetta er risastórt mál sem ég tel að við verðum að ræða sem þjóð hvort við þolum eina sveifluna til með tilheyrandi tjóni fyrir heimilisbókhaldið og rekstrarskilyrði lítilla og meðalstórra fyrirtækja.
Ég vil einnig varpa ljósi á mikilvægi þess að stjórnvöld setji andlega líðan í forgang. Það er eitthvað skakkt í samfélagsgerðinni okkar sem við verðum að takast á við. Þar verðum við að rýna í öll grunnkerfin okkar; menntakerfið, öryggisnetin og grunnstoðirnar. Við eigum að taka vel utan um fólk og huga að mannlegum innviðum rétt eins og við hugum að innviðum á borð við öflugar samgöngur og nærþjónustu. Við erum lítið og samheldið samfélag og þegar á reynir stöndum við saman. Ég trúi því að við getum sammælst um að gera betur þegar kemur að andlegri líðan þjóðarinnar.
Viðreisn er um allt land að hlusta á fólk og eiga þessi samtöl og það er bersýnilegt að það eru þessi tvö atriði sem hvíla á landsmönnum. Við viljum skynsamlegar breytingar sem þoka okkur áfram sem samfélagi. Svo verðum við að standa vörð um frelsið. Frelsi fólks til að vera það sjálft, frelsi fólks til að fá nauðsynlega þjónustu, frelsi fólks til að ákvarða eigin framtíð.
En það skiptir svo máli að halda vel á málum og beina kastljósi þingheims heim í Norðvesturkjördæmi, þetta gróskumikla kjördæmi og tækifærunum sem þar liggja. Þar er svo sterkur mannauður og þar býr svo mikil seigla. Við þekkjum það Vestfirðingarnir á eigin skinni. En það er gríðarleg innviðaskuld á Vestfjörðum. Og ég verð að hrósa Innviðafélagi Vestfjarða fyrir þeirra vinnu. Hún er dýrmæt og mikilvæg fyrir okkur sem viljum vera sterkir málsvarar fyrir svæðin. Að sjá gögn svona svart á hvítu skiptir öllu máli. Það styrkir málstaðinn. Og þar mun ég beita mér.
Ég hef fylgst með uppbyggingu atvinnuvega í kjördæminu meðal annars þegar það kemur að laxeldinu. Mér finnst afar brýnt að tryggja lagaumgjörð um atvinnugreinina hið fyrsta með það að markmiði að styrkja stoðir hennar og fyrirsjáanleika. Það var miður að frumvarp matvælaráðherra í vor dagaði uppi. En þá kom ríkisstjórnin sér ekki saman um málið – eins og svo oft áður. Skýrar reglur um laxeldi er hagsmunamál okkar allra – ekki síst þeirra sem hafa lifibrauð af atvinnugreininni. En við megum ekki gefa afslátt af umhverfisáhrifunum og eigum að læra af reynslu annarra þjóða. Ég hef séð það heima hvers konar lyftistöng eldið hefur verið. En hvað varðar útgáfu nýrra leyfa á nýjum svæðum finnst mér hins vegar mikilvægt að sjónarmið fólks á þeim svæðum eigi að ráða för.
Hjartað mitt slær fyrir Norðvesturkjördæmi. Ég finn að ég er reiðubúin að vera sterkur og öflugur málsvari fyrir svæðið. Ég hlakka til komandi vikna og að eiga sem flest samtöl við fólkið í kjördæminu. Ég finn mikinn meðbyr og áhuga á Viðreisn og hlakka til að kynna mig betur fyrir kjósendum og kynnast þeim betur sömuleiðis. Ég vil leggja mig fram um að hlusta, ekki blaðra. Ég verð með skóflu í bílnum og gott nesti. Enda liggur fyrir að ég muni keyra yfir þó nokkrar heiðar í misgóðum skilyrðum næstu vikurnar.
María var spurt frekar um afstöðu sína til laxeldis og virkjana, einkum Hvalárvirkjunar og hugmynda um Vatnsdalsvirkjun:
ég er opin fyrir öllum leiðum sem tryggja raforkuöryggi á Vestfjörðum. Og jú, ég styð eldið – en eins og til stóð með lagasetningunni í vor sem ríkisstjórninni tokst ekki að klára þá verða að vera skýr viðurlög við brotum sem hafa umhverfisáhrif.